18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

76. mál, flutningur á kartöflum

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð í framhaldi af því, sem ég sagði hér við 2. umr. um þetta mál.

Ég vil leyfa mér að benda á það, að á þskj. 163 hefi ég flutt brtt., sem miðar að því að tryggja það, að einhverju leyti a. m. k., að verð á innlendum kartöflum haldist hóflegt þrátt fyrir innflutningshömlur á samkeppnisvörum. Þessi brtt. miðar að því að gefa atvmrh. heimild til þess, í viðbót við þær heimildir, sem í frv. eru, að setja hámarksverð á innlendar kartöflur, ef ósk kemur fram um það frá þeim aðilum, sem ég tel, að líklegastir séu til þess að bera slíka ósk fram, sem sé félag matvörukaupmanna í Rvík. En lagt er til, að áður en hámarksverðið sé sett, skuli leitað álits Búnaðarfél. Ísl. og verzlunarráðsins. Tel ég verzlunarráðið geta skoðazt frekar sem umboðsmann neytenda og þeirra, sem verzla með vöruna, en Búnaðarfél. sem umboðsmenn bænda, sem framleiða þessa vöru.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Það var nokkuð um þetta rætt við 2. umr. málsins og hvers vegna það væri nauðsynlegt, að ákvæði sem þetta kæmist inn í l. Vona ég, að flestir hv. þm. geti orðið mér sammála í þessu.