18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

76. mál, flutningur á kartöflum

Bjarni Bjarnason:

Brtt. á þskj.146 er flutt vegna nauðsynjarinnar á því að hvetja menn til aukinnar kartöfluframleiðslu í landinu, þar sem vitað er og margyfirlýst, að sú kartöfluframleiðsla, sem nú er, nægir ekki þörfum landsmanna, hvergi nærri. Í öðru lagi er getið nokkurt tilefni til þess, að kartöflur, sem fluttar eru landveg, séu styrktar, þar sem frv. gerir ráð fyrir, að flutningsgjald skuli að hálfu falla niður af þeim kartöflum, sem fluttar eru með ströndum fram, á skipum skipaútgerðar ríkisins. Virðist því ekki ósanngjarnt, að landflutningar njóti og nokkurra fríðinda frá ríkinu. Nú er á það að líta, að kartöfluframleiðsla er ótrúlega dýr, og gæti því orðið henni mikill stuðningur að fá nokkurn hluta flutningskostnaðar greiddan. Ég veit, að margur myndi telja það borga sig að framleiða kartöflur, þótt ekki yrði hagnaðurinn meiri en sem næmi ríkisstyrknum, 3 kr. á tunnu. Má því líta svo á, að þessi styrkur sé til þess að draga úr framleiðslukostnaðinum, þó að margir haldi, að það sé auðvelt að rækta hér kartöflur, þá er það ekki svo. Jarðvegur er víða svo ófrjósamur, að það eru ótrúlega mikil útgjöld við kartöfluræktunina víða hér á landi.

Ég vildi svo mega vænta þess, að till. þessar nytu skilnings hv. þdm. og næðu fram að ganga.