26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

Afgreiðsla þingmála

Bjarni Ásgeirsson:

Í viðbót við það, sem hæstv. forseti sagði og í raun og veru er fullnægjandi, vil ég líta þessa tvo hv. þm. vita það, að enn liggja mörg mál fyrir n. óafgr., sem eru eldri en þessi tvö, svo að ef fara ætti eftir þeirri röð, sem málin koma í til n., þá mættu þessi tvö mál bíða enn góða stund. En þrátt fyrir þetta vinnur landbn. þessarar deildar sennilega meira en nokkur önnur n. þingsins, að einni undantekinni. Fyrir utan þann tíma, sem hún vinnur daglega, hefir hún haldið marga aukafundi, bæði á sunnudögum og oft endranær. Annars veit hv. 6. þm. Reykv., að það er venja hjá n., að þær leggja mismunandi mikla áherzlu á afgreiðslu mála, sem til þeirra koma. Þetta er föst regla, þótt hún geti vitanlega gengið of langt. Það kom t. d. eitt mál til n. nýlega, breyt. á kreppulánasjóðslöggjöfinni, sem afgr. var strax, sökum þess að allir voru sammála um málið og enga vinnu þurfti í það að leggja. Aftur á móti útheimtir þetta frv. hv. 6. þm. Reykv. mikla vinnu, og það verður því að taka það til meðferðar eftir því sem okkur vinnst tími til.