19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

76. mál, flutningur á kartöflum

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég held það hafi verið hv. þm. Borgf., sem sagði eitthvað í þá átt, að ég mundi geta tekið aftur brtt. mína, sem mælir fyrir um það, eftir hverra beiðni og með hvaða atburðum landbúnaðarráðherra geti sett hámarksverð á kartöflur. Hv., þm. ætlast til, að ég fallist á till. hans í þessu efni.

Eftir að hafa hugsað um þetta mál, og þó sérstaklega eftir að hafa heyrt af munni hv. þm. Borgf., hvernig ráðh. hefir farið með samskonar heimild í l. um einkasölu á mjólk, þó get ég ekki fallizt á, að þetta orðalag, að landbúnaðarráðherra sé „heimilt“, sé nein trygging fyrir því, að heimildin verði notuð, jafnvel þótt mikil þörf sé á. Eftir að ég hafði haldið því fram, að innlend dósamjólk mundi vera seld hér 7—8 kr. hærra verði en samskonar eða hliðstæð vara þeirri, sem hægt er að fá frá útlöndum, þá lýsti hv. þm. Borgf. yfir því, að í þeirri löggjöf, sem heimilar einkasölu á innlendri dósamjólk og bannar innflutning slíkrar vöru, sé ráðh. lögð í hendur samskonar heimild með samskonar orðalagi og hér er um að ræða. En framkvæmdin hafi verið sú, að ráðh. mundi hafa sett þetta í hendur innflutnings- og gjaldeyrisn. — með þeim árangri, sem sýnilegur er, að þessi mjólk er seld svo óhæfilega dýrt sem raun ber vitni um. Hér þykir mér því vera hallað mjög á hag neytenda í landinu, og að ráðh. eða þeir, sem eiga að framkvæma þetta fyrir hann, hafi algerlega vanrækt þá skyldu, sem lög leggja honum á herðar í þessu efni, ef l. fela í sér slíka skyldu samkv. orðalaginu.

Þeir, sem þess vegna bera nokkuð hag neytenda fyrir brjósti, geta alls ekki fellt sig við orðalag á till. samhljóða öðru ákvæði í núgildandi l. um aðra framleiðsluvöru, ákvæði, sem hefir í framkvæmdinni ekki gildi. Það er sem sagt látið viðgangast, að þessi vara sé seld óhæfilega dýrt, án þess að yfirvöldin hreyfi legg né lið. Ég tel, að með minni till. sé gerð ákveðin og ýtarleg tilraun til þess að tryggja rétt neytenda, þar sem gert er ráð fyrir, að ákveðnum félagsskap hér í Reykjavík, stærsta neyzlustaðnum, Félagi matvörukaupmanna, sé gefið umboð til þess að vera á verði í þessu efni og krefjast af ráðh. ákvæðis um hámarksverð, þegar úr hófi þætti keyra kartöfluverðið. Það er sýnu tryggilegra, að einhver aðili sé til, sem hafi að lögum rétt til að gera slíka kröfu. Og ég sé ekki, að hentugra sé að hafa þennan rétt í höndum annara manna, sem verzla með þessa vöru. Hinar till., að hámarksverð sé ákveðið að heyrðum till. Verzlunarráðsins og Búnaðarfél., þykir mér líklegt, að hv. þdm. geti fallizt á.

Þess vegna er það, að ef hv. þdm. vilja stefna þessu máli á þann veg, að það sé ekki rekið sem einhliða hagsmunamál fyrir framleiðendur, þá er rétt, samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að samþ. þá brtt., sem ég hefi borið fram.

Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er eðlilegast að álykta það, að brtt. mín skuli verða samþ., ef hv. þdm. vilja, að sú stefna sé höfð í þessu máli, að það sé ekki knúð fram sem einhliða hagsmunamál framleiðenda þessarar vöru. Af þessum ástæðum sé ég mér ekki fært að taka brtt. mína aftur, og ég ímynda mér, að hv. þm. Borgf. sjái, að ég hefi rétt fyrir mér. Hann mun manna bezt skilja, hvaða ástæður að því liggja, að ég ákveð svo, þegar hann er búinn beint og óbeint að sýna fram á, að samskonar orðalag í annari löggjöf hefir enga þýðingu í framkvæmdinni.

Ég læt þess vegna atkv. skera úr um það, hvort á að líta til beggja aðilja í þessu efni, eða hvort á að reka aðeins málefni annars aðilans.