19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

76. mál, flutningur á kartöflum

Sigurður Einarsson:

Ég hefi borið hér fram örstutta brtt. á þskj. 188. Það hefir viljað svo til, að slæðzt hefir inn í prentun brtt. prentvilla, þar sem stendur „verðlækkunar“ en á að vera: verðhækkunar. — Getur þessi villa auðveldlega valdið misskilningi, og læt ég því þessa getið.

Þessi brtt. er í því fólgin, að orðið „verulegrar“ í 1. mgr. 1. gr., á undan orðinu „verðhækkunar“ falli burt, þannig að þessi setning gr. verði á þessa leið: „Þó skal þess gætt, að ganga eigi svo langt í takmörkun innflutnings á erlendum kartöflum, að hún leiði til verðhækkunar á þeim til neyzlu í landinu, miðað við verðlag undanfarinna þriggja ára á sama tíma, og með hliðsjón af erlendu markaðsverði.“

Ég hefi litið svo á, síðan þetta mál kom fram hér í hv. d., að það væri fyrst og fremst tilraun til ráðstafana til þess að hagnýta betur þann markað, sem kynni að vera fyrir þessa innlendu framleiðslu í landinu heldur en við höfum hingað til gert, en alls ekki, að l. ættu að fela í sér neinar ráðstafanir, sem gera mundu þessa nauðsynjavöru almennings dýrari en verið hefir. Það er vitað og þekkt mál, að fyrir fjölda fólks bæði hér í Reykjavík og víða við sjávarsíðuna úti um land eru kartöflur ein hin allra þarfasta og hollasta fæðutegund, sem fólk á völ á, og ein af þeim fáu fæðutegundum, sem það hefir ráð á að afla sér. Ég verð því að líta svo á, ef nokkur smuga verður á þessari löggjöf, sem nota mætti til þess að hækka verðið á vörunni frá því, sem annars mundi verða, að þá sé verið að ráðast á mjög viðkvæman punkt í daglegri lífsafkomu almennings, sem kaupir kartöflur. En jafnsjálfsagt og það er að gera mönnum ekki erfiðara um kaup á þessari neyzluvöru en þarf að vera, jafnsjálfsagt er einnig hitt, að gera ráðstafanir til þess að hagnýta til fulls möguleikann til þess að selja innlenda kartöfluframleiðslu.

Ég mun líta svo á, ef brtt. þessi verður ekki samþ., að þá sé það vottur þess, að þessu frv. sé ætlað beinlínis að gera vöruna dýrari en hún hefir verið að undanförnu, sem kemur þá niður á neytendum. Og þó að svo sé til orða tekið, að þess skuli gætt „að ganga eigi svo langt í takmörkun innflutnings á erlendum kartöflum, að hún leiði til verulegrar verðhækkunar á þeim til neyzlu í landinu“, þá er þetta orð „verulegrar“ svo teygjanlegt orð, að neytendum getur fundizt það veruleg verðhækkun, sem framleiðendunum þykir kannske mjög óveruleg. Og þegar menn getur greint á um það, eins og komið hefir fram hér í hv. d. fyrir skemmstu, hvort 6—8 kr. sé verulegur verðmismunur á kassa af niðursoðinni mjólk, þegar litið er á gæði þeirrar vörutegundar, þá verð ég að líta svo á, að mjög geti orðið um það deilt, hvenær eigi að álíta, að um verulega verðhæækkun sé að ræða í þessu sambandi.

Enda ég svo þessi orð mín með því að láta í ljós, að ég vona ákveðið, að brtt. mín verði samþ.