27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

Afgreiðsla þingmála

Pétur Ottesen:

Á öndverðu þessu þingi, þ. e. a. s. snemma í marz síðastl., bárum við þrír þm. þessarar d., þeir hv. þm. N.-Þ., hv. þm. A.-Sk. og ég, fram frv. um breyt. á lögum um sauðfjárbaðanir. Þessu máli var vísað til landbn., 16. marz, ætla ég. En þar sem ekkert hefir enn bólað á afgreiðslu þessa mikilsverða máls fyrir landbúnaðinn, þá vil ég biðja hæstv. forseta um að skerast í leikinn og ýta við hv. landbn. hið skjótasta, svo að þetta mál geti komizt inn í þessa hv. d., og ef það á fylgi hér í d., sem fyllilega má gera ráð fyrir, að það þá geti fengið afgreiðslu á þessu þingi. Ég vil biðja hæstv. forseta að grennslast eftir því, helzt strax í dag, hvort n. er ekki þess albúin að afgr. málið nú þegar, en ef n. hefir það ekki í hyggju, að taka þá málið sem fyrst á dagskrá. Mér virðist það fullkomlega réttlátt, þar sem þessi dráttur hjá n. um afgreiðslu þessa máls verður ekki skilinn á annan veg en þann, að n. ætli að nota aðstöðu sína til þess að hefta framgang málsins. Ég legg ríka áherzlu á þau tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann noti það vald, sem hann hefir í þessu efni, og taki til greina óskir okkar flm. frv.