26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

76. mál, flutningur á kartöflum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er vitanlega fram komið til þess að koma betra skipulagi á kartöfluframleiðsluna í landinu, og þó sölu hennar sérstaklega. Við höfum flutt inn erlendar kartöflur fyrir um 400 þús. kr. á ári, og er því, eins og hver maður getur séð, stór fjárupphæð í innflutningi þessarar vörutegundar, sem unnt er að spara með því að framleiða sjálfir. Auk þess sem það er vitað, að neyzla þessarar vöru er hlutfallslega miklu minni hjá okkur en nokkursstaðar hjá nágrannaþjóðum okkar. Frv. þessu er ætlað að bæta úr ágöllum þeim, sem hafa verið og eru á framleiðslu, meðferð og sölu þessarar vörutegundar, og stuðla ennfremur að því, að auka framleiðsluna frá því, sem nú er, ef takast mætti.

Það er eins og sjá má á þessu frv., að farið er bil beggja með þeirri aðferð, sem áður hefir verið farin í afurðasölumálunum. Ég vænti, að hv. þdm. geti sætt sig við þessa aðferð, sérstaklega vegna þess, að þetta mál er á byrjunarstigi og tilraun, sem er gerð án þess að því sé, að minu áliti, nokkur áhætta samfara fyrir neytendur eða framleiðendur, en aftur á móti ætti talsvert gagn að geta orðið af þessum lögum.

Það, sem hefir háð langmest sölu á kartöflum innan lands, er tvímælalaust það, að menn hafa ekki getað verið öruggir um, að þeir fái þar sæmilega góða vöru. Ég veit, að nú að undanförnu hafa verið svo miklir kartöflusjúkdómar hér á landi, einkum á Suðurlandi, að menn þorðu blátt áfram ekki að kaupa íslenzkar kartöflur af hræðslu við, að þær væru sýktar og eðlilegðust við geymsluna. Þetta er tíðasta viðbáran, sem heyrist frá þeim neytendum, sem gjarnan vilja kaupa þessa íslenzku framleiðslu. Það er því eitt af því allra nauðsynlegasta af því, sem gera þarf, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., en það er að koma á mati á kartöflum, mati sérfróðra manna. Og ég vil segja, að það, sem hv. 4. landsk. minntist á í þessu sambandi, það á ekki að vera, ef matsmenn eru vaxnir sínu starfi, nein hætta á því, að þeir geti ekki gengið úr skugga um það við skoðun, hvort kartöflurnar eru sjúkar eða ekki, því að þeir sjúkdómar, sem aðallega koma fram við geymslu, þeirra einkenni koma svo fljótt í ljós eftir að kartöflurnar eru teknar upp, að það er hægt að ganga úr skugga um það með mati. Og ef það matsvottorð er svo látið fylgja kartöflunum, þá er þar með unnin burt sú tortryggni, sem nú ríkir viðvíkjandi þessari íslenzku framleiðslu, og skapaðir meiri möguleikar fyrir sölu. Þetta er eitt af stærstu atriðunum viðvíkjandi þessu frv.

Í öðru lagi hefir sérstaklega verið á það bent, og því beindi hv. 4. landsk. sérstaklega til mín, hvort ekki væri varhugavert að hafa ákvæði 1. gr. eins og frá þeim er gengið. Ég vil segja ráð viðvíkjandi þessari gr. og viðvíkjandi frv. í heild, að það stendur nokkuð öðruvísi á með það en nokkurt annað frv., sem fram hefir komið um skipulagningu á afurðasölu innanlands, af þeirri sérstöku ástæðu, að framleiðendur og neytendur þessarar vöru eru aðallega sömu stéttar. Eitt af því, sem deilt hefir verið um í sambandi við afurðasölumálið, það eru réttindi framleiðenda annarsvegar og neytenda hinsvegar. Sérstaklega hefir þetta komið fram í kjötsölumálinu og mjólkursölumálinu, þar sem annarsvegar eru bændur sem framleiðendur, en hinsvegar vinnandi fólk við sjávarsíðuna sem neytendur. En mikið af þeirri vöru, sem hér er um að ræða, er framleitt innan kaupstaðanna af verkamönnum sjálfum. Einna stærstir af framleiðslustöðunum fyrir kartöflur eru Akranes, Eyrarbakki og Stokkseyri, því að ennþá er það því miður svo, að bændur hafa yfir svo litlum vinnukrafti að ráða á vorin, þegar mest þarf að vinna að þessari framleiðslu, að þeir geta ekki tekið stór svæði til ræktunar. Þetta er þó nokkuð stórt atriði, þegar um er að ræða þessi ákvæði í 1. gr., og ég verð að segja það, að þegar litið er á frv. í heild, og þegar þess er gætt, að það eru tvennskonar ákvæði viðvíkjandi þessum innflutningi, sem gera þetta alveg áhættulaust fyrir neytendur, fyrst og fremst það, að nægilega mikið verði að vera fyrir hendi af íslenzkum kartöflum, og í öðru lagi að heimilt sé að setja með sérstakri reglugerð hámarksverð á kartöflur, ef álitið er, að verðið fari fram úr því, sem eðlilegt sé, samanborið við verð á erlendum kartöflum, þá verður það ekki sagt, að hér sé svo mikil hætta á ferðum fyrir neytendurna.

Þá er það ákvæði í síðari málsgr. 1. gr., að þeir, sem hafa selt mest af innlendum kartöflum, fái jafnframt leyfi til sölu á erlendum kartöflum, sem samsvari því, sem þeir hafa selt af íslenzkum. Þetta er mikil hvöt fyrir þá, sem verzla með þessa vöru, að selja sem mest af íslenzkum kartöflum, og vel til fundið til þess að greiða fyrir sölu á þessari íslenzku framleiðslu. Og þetta verð ég að segja, að sé líka áhættulaust, því að ef matið er í góðu lagi, þá á að vera fengin trygging fyrir því, að þessi vara, sem seljendur eiga að koma út til hagsmuna fyrir þá, sem framleiða þessa vöru, hún sé í alla staði góð.

Ég held því, að ætti að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir, a. m. k. mundi ég helzt kjósa það. Og ég vil vænta þess, að hv. 4. landsk. geti fallizt á, að þessi ákvæði 1. gr. eigi ekki að geta skaðað, því að það er vitanlegt, að stj. hefir í sínum höndum vald, sem ræðir um í 1. gr. um innflutningsn., sem vitanlega má nota til þess að takmarka þennan innflutning á aðalmarkaðstímanum, en það er bara miklu einfaldara með því að lögfesta þessi ákvæði 1. gr., en ég held, að þetta sé þó í raun og veru ekkert vald, sem fer fram úr því, sem stj. hefir nú í gegnum innflutningsnefnd.