26.03.1935
Efri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

76. mál, flutningur á kartöflum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég þarf ekki að vera langorður um þetta frv.

Hæstv. forsrh. sagði, að þessu frv. væri ætlað að bæta fyrir framleiðendunum á þessu sviði. Ég er nú í dálitlum vafa um það, hvort frv. verður í raun og veru til þess. Hér er aðeins talað um eina flokkun á kartöflum, sem sé hvort þær séu markaðshæfar. En ef reglulega á að vanda til framleiðslu einnar vöru, þá verður að flokka í tvo, helzt þrjá flokka. Og ég geri ráð fyrir því, að ef aðeins á um það að dæma, hvort kartöflur séu markaðshæfar, þá hugsi menn mest um að rækta þær tegundir, sem vaxa fyrst og verða stærstar, með það þó fyrir augum líka, að þær verði taldar markaðshæfar, a. m. k. á meðan þær eru nýjar. En maður veit það af reynslunni, að þær kartöflur, sem eru fljótari að vaxa, reynast oft lakari til geymslu heldur en hinar.

Annað, sem ég vil vekja athygli á, er það, að í frv. er bannað að flytja inn kartöflur, ef nóg sé til af innlendum kartöflum markaðshæfum, og er þar með sjálfsagt átt við þær kartöflur, sem dæmdar hafa verið markaðshæfar af þar til kvöddum mönnum. En eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram, þá geta kartöflur skemmzt og jafnvel eyðilagzt eftir að vottorðið var gefið. Svo getur verið, að til séu kartöflur, sem mega teljast hæfar, þó að þær séu ekki góðar, og þá á að vera heimilt að banna mönnum að fá aðrar betri.

Ég held, að það sé óheppilegt að banna innflutning á kartöflum, nema þá að það sé tryggt, að nóg sé til í landinu af góðum kartöflum. Vil ég því beina því til hv. n., hvort hún sjái ekki ástæðu til að athuga málið betur til 3. umr.