27.03.1935
Efri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

76. mál, flutningur á kartöflum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég held, að ég muni það rétt frá umr. í gær, að hv. frsm. tók þannig undir þar aðfinnslur, sem komu fram við frv., að hann taldi ekki líkur til, að n. mundi gera breyt. á frv. En ég spurði n., hvort hún treysti sér ekki til á milli umr. að gera á því smábreyt. Ég mun því bíða og sjá, hvort n. er alveg ósveigjanleg í þessu efni. Ég hafði hugsað mér að koma með brtt. við frv. við 3. umr. Í 1. gr. álit ég, að ekki eigi að standa nokkur orð, þar sem er heimildin til að banna með öllu innflutning kartaflna. Ég álít þetta allt of víðtæka heimild með tilliti til neytenda. Ég tel seinni mgr. sömu gr. óþarfa. Það er að mínu áliti ekki þörf á að binda þetta við þá eingöngu, sem hafa verzlað með kartöflur. Ég álít, að það eigi að vera nokkurn veginn frjálst, hverjir fá að verzla með þær. Ég hygg, að nokkra þekkingu þurfi yfirleitt til þess að verzla með kartöflur.

Þá hefir verið bent á það, og nú síðast af hv. 10. landsk., að 3. gr. frv. ætti að vera ýtarlegri en hún er, og get ég fallizt á það. Vildi ég óska, að á upprunamerki væri þess getið, hvaða tegund af kartöflum þar er um að ræða Hér er t. d. ræktuð allmikið viss kartöflutegund og boðin til neytenda, sem mörgum þykir ekki góð til neyzlu eða til að geyma; það er hin svo nefnda Eyvindarkartafla. Fróður maður um þessi mál hefir sagt mér, að meðal erlendra þjóða sé hún ekki skoðuð sem mannafæða, heldur höfð til skepnufóðurs. En það mun vera töluvert mikið ræktað af þessari kartöflu hér á landi. — Þá vildi ég, að á þessu merki væri ekki aðeins tekið fram, úr hvaða sýslu kartöflurnar væru, heldur væru þau einnig miðuð við kauptún, til þess að maður gæti t. d. vitað, hvort um Akraneskartöflur er að ræða eða ekki, þegar kartöflur eru sendar úr Borgarfjarðarsýslu. Því að ég álít miklu betra, að hægt sé að vita, hvort kartöflurnar eru ræktaðar á Akranesi heldur en að aðeins verði vitað af merkinu, að þær séu ræktaðar einhversstaðar í Borgarfjarðarsýslu.

Ég hefði viljað, að í þessu frv. fælist vernd fyrir neytendur gegn því, að þeim væri boðin skemmd vara, hvort heldur um er að ræða erlendar eða innlendar kartöflur. Við, sem lengi höfum neytt útlendra kartaflna, vitum, að fluttar hafa verið inn kartöflur, sem í raun og veru hafa ekki verið nein vara, og því fé, sem eytt var fyrir þar, hefir verið eytt til einskis.

Ég er þeirrar skoðunar, að við séum enn ekki komnir svo langt í framleiðslu þessarar vöru, að við getum birgt okkur upp að henni á öllum tímum árs fyrir hina stærri bæi, og jafnvel að meðtöldum stærri kauptúnum. Mér er sagt, að Vestmannaeyjar hafi á undanförnum árum oftast orðið að birgja sig upp með erlendum kartöflum, og hér í Rvík vitum við, að það er ekki leið að fá innlendar kartöflur seinni part vetrar.

Hitt atriðið, með geymsluna, er líka nokkuð verulegt atriði, því að sérstaklega góð húsakynni þarf til geymslu fyrir kartöflur, þó að ekki sé um sýkingu að ræða. Til þeirrar geymslu þyrfti stórt lagerhús. Ég álít rétt að byggja kartöflukjallara hér í Reykjavík til slíkrar geymslu. En á meðan sama aðferð er höfð, sem verið hefir hér um geymslu á kartöflum, þá er ekki líklegt, að kartöflur víðsvegar af landinu geymist til langframa né komi að notum til neyzlu hér í bænum síðari hluta vetrar.

Að ég legg mikið upp úr þessu máli, er af því, að ég legg áherzlu á, að engin vara er eins mikil neyzluvara og enga vöru má því síður vanta á matborð manna. Þess vegna má löggjafarvaldið ekki gera neitt, sem getur orsakað það, að þurrð verði á kartöflum til neyzlu í landinu.

Ég mun bíða átekta og sjá, hvort n. vill taka orð mín til athugunar. Annars mun ég koma með brtt. við frv.