27.03.1935
Efri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

76. mál, flutningur á kartöflum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. frsm. sagði, að varhugavert væri að gera breytingar á frv., af því að með því væri málinu stefnt í hættu. En ég held, að þessi hætta sé ekki svo mikil, því ég sé ekki betur en að miklu leyti megi ná tilgangi frv. án löggjafar. Í 1. gr. er gert ráð fyrir að innflutningsnefnd ráði takmörkunum á innflutningi erlendra kartaflna. Ætti ekki að vera nauðsynlegt að setja löggjöf í því skyni, þar sem þetta heyrir vitanlega undir innflutningsn. nú. Um 2. gr. er það að segja, að Búnaðarfél. Íslands myndi fúslega safna skýrslum um ræktun kartaflna og framboð á þeim án þess að löggjöf komi til. Um 3. gr. má segja, að ákvæði hennar um gæðamerki o. s. frv. verði ekki framkvæmd án löggjafar, en ég ætla, að það kæmi ekki að stórfelldu tjóni, þótt framkvæmd þeirra yrði frestað um eitt sumar. Það er því alveg óþarfi að flaustra frv. svo af, að þm. komi ekki leiðréttingum að.

Ég er alveg sammála hv. frsm. um það, að við eigum að kosta kapps um, að innlenda kartöfluframleiðslan nægi okkur, og ég er þess fullviss, að svo verður einhverntíma, en mér er líka ljóst, að töluverð bið muni verða á því. því vil ég tryggja það, að erlendar kartöflur fáizt, regar þeirra er þorf, og jafnframt það, að við þurfum ekki að sætta okkur við að taka á móti hverskonar vöru, sem að okkur er rétt.