02.03.1935
Efri deild: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

31. mál, sparisjóðir

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég þarf ekki að svara miklu þeim tveimur hv. þm., sem tekið hafa til máls um frv. Þeir hafa báðir talað um það af velvilja, og er því sjálfsagt að taka athugasemdir þeirra til athugunar, eftir því sem ástæða er til. Hv. þm. Dal. sagði, að það hefði tíðkazt að hafa ekki nema 3 menn í stjórn sparisjóðanna, en ég veit, að víða eru þó 5 menn í stjórn sparisjoða, og það meira að segja lítilla sjóða. Í Eyjafirði er það t. d. þannig, að hreppsfélögin eiga smásparisjóði, sem vitanlega er stjórnað af hreppsnefndunum, en í þeim eru víða 5 menn.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að stjórnarkostnaður sjóðanna yrði þeim mun meiri, sem stjórnendurnir væru fleiri. Þetta held ég að sé byggt á misskilningi hjá hv. þm., a. m. k. þekki ég ekki til þess, að stjórnendur sjóðanna hafi laun, heldur aðeins starfsmennirnir: bókari og gjaldkeri. Sé aftur gengið inn á þá braut, að láta stjórnendurna fá þóknun, þá má að vísu búast við, að kostnaðurinn verði þeim mun meiri, sem stjórnendurnir eru fleiri.

Þá þótti hv. þm. varhugavert, að stj. skipaði formenn þeirra sjóða, sem ekki væru eign neins sérstaks aðila. Ég sé nú reyndar ekki, að aðrir séu betur til þess fallnir. Það er þó skylda landsstj. að gæta hagsmuna almennings. Ég hefi þó auðvitað ekki á móti, að þetta sé athugað nánar. Gæti ég hugsað mér þá leið, að þar sem allmargir ábyrgðarmenn, t. d. 20, eru fyrir sparisjóð og þannig um búið, að ábyrgð þeirra sé meira en nafnið tómt, t. d. ef þeir ábyrgjast ákveðnar upphæðir og tryggja þær, að þá mættu ábyrgðarmennirnir velja stjórn sjóðanna.

Um þetta atriði höfum við flm. frv. hugsað, enda þótt þess sé ekki getið í grg. frv. En það, sem ég vildi benda á í þessu sambandi, er það, að upphaflega hafa verið ábyrgðarmenn fyrir ýmsum af sparisjóðum okkar, en þegar þeir hafa fallið frá, hafa engir komið í staðinn. Hefir því sumstaðar farið svo, að stjórnir sjóðanna hafa staðið einar eftir og engum þurft að standa reikningsskap gerða sinna.

Við flm. frv. erum fúsir til að ganga inn á, að þar, sem tryggilega er að sjóðunum búið og ábyrgðarmenn standa að baki þeirra, fái ábyrgðarmennirnir að ráða sem mestu um stjórn sjóðanna, en þá þarf jafnframt að halda aðalfund þar, sem reikningar sjóðanna eru lagðir fram og úrskurðaðir. Hinsvegar er ekki hægt að hugsa sér neitt einveldi í þessum efnum, að t. d. menn, sem af tilviljun hafa lent inn í stjórn sjóðanna, geti setið meðan þeim sýnist, án þess að þurfa að standa nokkrum manni reikningsskap sinnar ráðsmennsku. Eftir því, sem hv. þm. Dal. lýsti ástandi sparisjóðsins í sinn héraði, þá virtist allt vera í bezta lagi með stjórn hans.

Þá vildi hv. þm. Dal. halda því fram, að pólitík myndi komast inn í stjórn sjóðanna, ef frv. okkar yrði að lögum eins og það er nú. Að sjálfsögðu gerum við flm. það ekki að sérstöku kappsmáli, að frv. verði samþ. óbreytt, en á það vildi ég benda, að mér finnst, að engu minni hætta geti verið á því, að pólitík og það einhliða, komist inn í stjórn þeirra sparisjóða, sem væru fastbundnir í höndum einstakra manna, sem engum þyrftu að standa skil gerða sinna.

Hv. þm. var sammála okkur flm. um það, að ekki væri heppilegt, að stjórnendur hinna stærri sparisjóða væru jafnframt starfsmenn þeirra, en hann sagði, að hámarkið fyrir því, hvenær stjórnendur sjóðanna mættu ekki jafnframt vera starfsmenn þeirra, væri sett of lágt. Hann taldi, að réttara vari að miða það við 400—500 þús. kr. innstæðufé, í stað 200 þús., sem frv. gerir ráð fyrir. Hvað er hið rétta takmark hér getur alltaf orkað tvímælis, en einhversstaðar verður þó að setja það, því að ég býst við, að fleiri séu á sama máli um það en við flm. og hv. þm. Dal., að óheppilegt sé, að stjórnendur hinna stærri sjóða séu jafnframt starfsmenn þeirra.

Með þessu hefi ég jafnframt svarað hv. þm. N.-Ísaf. Hann sagði, að það hefði gefizt vel og myndi vera heppilegt, að ábyrgðarmenn sparisjóðanna réðu mestu um stjórn þeirra. Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá er ég ekkert að draga þetta í efa, a. m. k. þar, sem tryggilega er um þetta búið, þannig að stjórnendur verði að bera fulla ábyrgð á gerðum sínum.

Út af ákvæðum frv. um stjórnarkosningu sjóðanna vakti hv. þm. athygli á því, að starfssvæði ýmsra sparisjóða næði yfir stærra svæði en eitt sýslu- eða bæjarfélag. Þetta er að sjálfsögðu rétt, en því verður ekki neitað, að það sýslu- eða bæjarfélag, sem sjóðurinn á heima í, á þó jafnan mest á hættu, hvernig um hann fer. Þar sem þannig stæði á eins og hv. þm. benti á, þá gæti ég hugsað mér, að sýslunefndir og bæjarstjórnir hlutaðeigandi sýslu- og bæjarfélagi veldu stjórn sjóðanna í sameiningu.

Læt ég svo útrætt um mál þetta nú, og vil taka það fram, að ég er fús til samstarfs við n. þá, sem málið fær til meðferðar.