19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

31. mál, sparisjóðir

Magnús Guðmundsson:

Ég skrifaði undir nál. á þskj. 160 með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur ekki að þeim brtt., sem n. flytur á þskj. 161. Ég er þeim yfirleitt samþ. og mun greiða atkv. með þeim öllum. Það eru að vísu einstök atriði, sem ég hefði kosið að hafa á annan veg, en af því að tekið var það ráð í n. að slaka til hver fyrir öðrum, þá hefir komið sú niðurstaða, að allir virðast mega vel við una, þótt um smærri atriði séu ekki allir á einu máli, og tel ég óþarft að fara frekar út í það, því að frsm. n. hefir gert það. En ég held, að þetta eftirlit, sem gert er ráð fyrir í 6. gr. frv., verði ákaflega lítils virði, og ég vil, að það komi fram hér af minni hálfu, að ég hefi ekki trú á, að það eftirlit verði fullnægjandi. Ég lít svo á, að ef þetta verður samþ., verði að fá mann til að gegna þessu starfi, og er ég þá í efa um, hvort nokkuð sparast við það að afnema l. um eftirlitsmann með bönkum og sparisjóðum. En þetta snertir ekki, að því er virðist, aðalatriðið, því að eftirlitið getur varla verið verra en ekki neitt, eins og nú er, og sé ég því ekki ástæðu til þess að greiða atkv. á moti frv. vegna þessa.

Út af brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 195 vil ég segja það, að þær eru þannig vaxnar, að ég myndi ekki geta sætt mig við frv., ef þær yrðu samþ., enda var talsvert um þessi atriði rætt í n., og hygg ég það rétt vera, að hann hafi staðið einn uppi með sína skoðun þar. Það er óþarflega þrengt kosti sparisjóðanna með því að ætla hinu opinbera að taka að sér að skipa meiri hl. í stjórn sjóðanna, og ég er sannfærður um, að það er hárrétt, sem hv. frsm. tók fram, að þarna væri með þessu verið að smeygja inn fingrinum um ábyrgð ríkissjóðs á sparisjóðunum, því að það er eðlileg afleiðing af því, að ríkið fer að skipa meiri hl. í stjórn þessara fyrirtækja, að ef misbrestir verða á stjórninni og rekstrinum, þá verður þeim um kennt, sem tóku ráðin og sjálfsstjórnina af sjóðunum. — Þetta er þá að segja um fyrri brtt. — Um síðari till. vil ég segja það — ég tala hér einungis fyrir mig persónulega, því að hv. frsm. hefir talað fyrir n. —, að þótt vanræksla kunni að hafa átt sér stað í sambandi við skipun ábyrgðarmanna um nokkur ár eða hún hafi verið látin niður falla af ásettu ráði, þá sé ég ekki, að þeir eigi fyrir þá sök að glata rétti sínum til að skipa þá. Það er heimilt nú að hafa sparisjóði án ábyrgðarmanna, og fyrir hvað á þá að refsa?

Ég þarf svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, en veit, að hv. frsm. gerir brtt. á þskj. 195 betri skil en ég og tekur fram, ef hann er mér ósammála um eitthvað.