21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

31. mál, sparisjóðir

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Milli umr. hefir allshn. athugað þetta frv. og borið það nánar saman við gildandi l., og við þá athugun hefir komið í ljós, að nokkur vandkvæði eru á því að færa texta frv. eins og það er nú inn í gildandi lög.

Ég vil fyrst geta um það, að fjórum síðustu gr. frv. þyrfti að vísa inn í l., en það er ekki gert í frv. Þetta þarf að gera, svo að l. í heild gætu litið sæmilega út. Ennfremur eru ákvæði í 9. gr. l., sem áttu við það ástand, sem ríkti er l. voru sett, en er nú ekki lengur fyrir hendi. Þessi ákvæði verða auk þess aðeins hortittur í l., ef frv. verður að l. og það fellt inn í hin eldri l. N. hefir athugað þetta og orðið sammála um að leggja til, að 9. gr. verði felld niður úr l., og flytur brtt. um það. Þetta er sú fyrsta breyt., sem gerð er á þessum l. síðan 1915. Þó það væri óneitanlega mikill kostur að láta lögin standa, en breyta frv., þá hefir n. tekið hina leiðina, heldur að fella niður 9. gr. l. og fella frv. inn í texta laganna.

Ég skal taka það fram, að gefnu tilefni út af fyrirspurn frá einum hv. þm. um það, hvernig skilja beri orðið kaupstaður í brtt. n. og utan kaupstaða, að kaupstaður er sá staður, sem hefir bæjarréttindi. Ég hygg, að þetta nafn sé orðið svo algengt í málinu, að á því verði ekki villzt, og læt ég því þessa skýringu nægja.

Fari nú svo, að hv. d. geti ekki fallizt á að fella 9. gr. úr l., þá verður að lagfæra frv. í hv. Nd., því þó frv. geti staðizt út af fyrir sig, þá verður ekki, eins og ég hefi áður tekið fram, hægt að fella texta þess inn í l. nema með því að breyta öðruhvoru, l. eða frv.