29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

31. mál, sparisjóðir

Jón Pálmason:

Ég hefi leyft mér, ásamt hv. 6. þm. Reykv., að bera fram brtt. við þetta frv., og er hún á þskj. 291. Vil ég gera grein fyrir því, hvaða orsakir til þess liggja.

Eins og þeim hv. þdm., sem fulltrúar eru fyrir héruðin utan Rvíkur, er kunnugt, og jafnvel öllum hv. þm., þá er það svo, að peningaviðskipti úti á landi eru að mjög miklu leyti bundin við þessar stofnanir, sparisjóðina. Og að svo miklu leyti sem um nokkur peningaviðskipti nú síðustu árin er að ræða og innhlaup í lánsstofnanir fyrir menn, þá eru það eðlilega fyrst og fremst sparisjóðirnir, sem um getur verið að ræða.

Þegar ábyrgð var tekin á Landsbankanum á þingi 1928, þá gerðu margir ráð fyrir því, og einkum þeir, sem mótfallnir voru þeirri ábyrgð, að hún hlyti að leiða til þess, að annaðhvort minnkaði traust til allra annara peningastofnana þessa lands eða þá að ríkið yrði að ábyrgjast aðrar peningastofnanir á eftir. Þetta hefir farið svo að nú er ríkisábyrgð á innstæðufé allra banka þessa lands. Þá er það ekki óeðlilegt, að það fyrirkomulag nái einnig til sparisjóðanna, og ekki hvað sízt þegar fjármál eru eins og þau eru nú um land allt. Á þessu hefir nokkuð bólað, í sumum héruðum a. m. k., þar sem ég þekki til, þrátt fyrir það, þótt hv. frsm. allshn. vilji halda því fram, að það eigi sér ekki stað.

Annað, sem hér er sérstaklega um að ræða, er það, að það gerir sparisjóðum ákaflega þröngt fyrir dyrum nú, hvernig farið hefir verið með þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í sambandi við kreppulánasjóð, því að það fé, sem sparisjóðir hafa yfir að ráða, er svo mjög fest í kreppulánasjóðsbréfum nú að undanförnu, og verður fyrirsjáanlega gengið miklu lengra enn í því efni. Það er mjög hætt við því, að viðskipti sparisjóða bíði mikinn hnekki af þeim ráðstöfunum, sem getur leitt til þess, þrátt fyrir það, þótt einstakir sparisjóðir séu tryggar stofnanir að því er efnahag snertir, að erfiðleikar verði fyrir þá á því að standa. straum af útborgunum innieigna.

Þessar tvær orsakir liggja til grundvallar fyrir því, að ég hefi leyft mér að bera fram brtt. þessa. Ríkisábyrgð á bönkunum hlýtur að mínu áliti að leiða þetta af sér, og hinsvegar eru ráðstafanir í sambandi við kreppuhjálpina til bændanna, sem gera sparisjóðunum örðugt fyrir. En fyrir almenning, sem notar sparisjóðina, er það mikils virði, að viðskipti þeirra stöðvist ekki, því að ef svo fer, þá hlýtur afleiðingin að verða sú, að öll lánsviðskipti í viðkomandi héruðum hljóta óhjákvæmilega að færast til verzlananna, og verzlananna einna.

Hv. þm. Barð. og sömuleiðis hv. frsm. minni hl., 2. þm. Reykv., mæltu á móti þessari brtt., og mér skildist, að þeirra aðalrök til andmæla gegn brtt. væru, að þó að þessar stofnanir væru nú sem stendur í góðum kringumstæðum fjárhagslega og stjórn þeirra í sæmilegu lagi, þá gæti slíkt breytzt á skömmum tíma. En ég vil benda þessum og öðrum hv. þm. á það, að gert er í brtt. greinilega ráð fyrir, að fjmrn. á hverjum tíma hafi eftirlit með fjárhag og stjórn þessara stofnana og fái því tækifæri til þess að fylgjast með því nokkurn veginn, hvernig þessum stofnunum er stjórnað og hvað fjárhag þeirra líður. Hv. þm. Barð. sagðist ekki hafa orðið var við annað en að sparisjóðirnir nytu yfirleitt trausts. En ég held, að hann hafi ekki kynnt sér nægilega, hve rík áhrif hefir á þeirra starfsemi þessi fjöldi af kreppulánasjóðsbréfum, sem yfir þá skellur á þessum tímum.

Viðvíkjandi því, að miklu eðlilegra sé, að ríkið sé í ábyrgð fyrir innstæðufé banka heldur en sparisjóða, er frá mínu sjónarmiði það að segja, að ég hefði talið heppilegast, að ríkið hefði ekki þurft að ganga í ábyrgð fyrir neina peningastofnun. En það er þægilegra að ganga í þær heldur en að kippa að sér hendinni aftur, þegar farið hefir verið af stað á þeirri braut.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði um það, að ríkisábyrgð á bönkunum hefði ekki skaðað ríkissjóð neitt enn, verð ég að segja það, að það mál er örðugt að fara út í. (BJ: Ég sagði þetta aldrei). Var það þá í sambandi við sparisjóði? (BJ: Ég var að tala um almennar lánbeiðnir). Ég bið þá hv. þm. að fyrirgefa, hafi ég misskilið hann í þessu efni, en ég hygg, að hann hafi a. m. k. gefið tilefni þar til. Um að það sé rík þörf á því, áður en til þessara kasta kæmi, að gera rannsókn á hag sparisjóða, vil ég segja það, að mér skilst, að í þessu frv. sé gert ráð fyrir, að fjmrh. eigi að láta gera rannsókn á hag sparisjóðanna. Þessi mótbára hv. þm. kemur því ekki til greina sem rök á móti brtt.

Ég held, að ekki hafi verið fleira, sem frsm. n. tók fram til andmæla gegn brtt. En ég hygg, að um þetta mál séu skiptar skoðanir, og um það er náttúrlega ekkert að segja. En eins og sakir standa held ég, að miklu fleira mæli með því að samþ. brtt. þessa.