29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

31. mál, sparisjóðir

Jón Pálmason:

Vitaskuld er við því að búast, að skiptar séu skoðanir um jafnþýðingarmikið mál eins og það, hvort ríkisvaldið skuli taka ábyrgð á sparisjóðsinnstæðum. Hæstv. fjmrh. hefir fært fram ástæður á móti því, að ríkið taki þessa ábyrgð á sig, og skal ég með nokkrum orðum minnast á það, við hvaða rök þær ástæður hafa að styðjast frá mínu sjónarmiði séð. Fyrstu mótrök hæstv. ráðh. voru þau, að bankarnir væru ríkiseign, tveir þeirra og einn að mjög miklu leyti, en sparisjóðirnir ekki. Um þetta er það að segja, að nú er búið að ganga svo langt í því að „centralisera“ allt peningamagn fjármálalífsins í okkar landi, að það fer að verða mjög hæpið að draga fram hagsmuni einnar peningastofnunar á kostnað annarar, þótt það séu sýslufélög, sem eru eigendur að þeim stofnunum, sem hér um ræðir, sem sé sparisjóðunum. Vitaskuld geng ég út frá því, að sjálfsagt skilyrði fyrir ríkisábyrgð á innstaðum sparisjóða sé bankábyrgð viðkomandi sýslufélaga, enda er gert ráð fyrir því í lögum flestra sparisjóða. Eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, eru viðskipti bankanna miklu áhættumeiri en viðskipti sparisjóðanna, og um leið og ríkið hefir tekið á sig ábyrgð þeirra stofnana, sem hafa miklu áhættumeiri viðskipti með höndum, þá hlýtur það að miða að því, að ríkið treysti hinar stofnanirnar, sem ekki hafa ríkisábyrgð, eins og komið er málum. Önnur ástæðan, sem hæstv. ráðh. bar fram gegn því, að ríkið ábyrgðist sparisjóðsinnstæður, var sú, að það væri miklu örðugra að framkvæma eftirlit með sparisjóðum en með bönkunum. En ég verð að segja það, að eftir þeirri þekkingu, sem ég hefi á bankaviðskiptum hér á landi — sem náttúrlega er takmörkuð —, þá held ég, að eftirlit ríkisvaldsins hafi ekki verið svo gott undanfarin ár, að það sé ekki hægt við að jafnast, því að þótt sparisjóðirnir séu færri og dreifðir um landið, þá held ég, að það sé vel hægt að hafa eftirlit með þeim, a. m. k. svo, að það jafnist á við það eftirlit, sem ríkisvaldið hefir haft með viðskiptum bankanna. Ég skal taka það fram, að ég beini þessum orðum ekki að neinum sérstökum manni.

Þá minntist hæstv. fjmrh. á það, að þótt menn vildu frekar eiga fé sitt í peningastofnununum með ríkisábyrgð heldur en í sparisjóðum, þó svo kynni að vera, þá kæmi önnur ástæða til greina, sem vægi upp á móti þessu, og það væri það, að fé sparisjóðanna er notað til lánastarfsemi í viðkomandi héraði. Þessi ástæða er að vísu að vissu leyti á réttum rökum reist. Það er töluverð hvöt fyrir menn að eiga fé sitt í sparisjóðum, vegna þess að það er notað innan viðkomandi héraðs, og sú hvot hefir valdið því, að ekki hefir enn sópazt meira fé frá sparisjóðunum en raun ber vitni um. Samt vil ég benda hæstv. ráðh. á það, að í þessu efni eru mjög breyttar aðstæður frá því, sem áður var. Þar, sem ég þekki til, hefir engin króna tapazt hjá sparisjóðum þangað til kreppulánalöggjöf landbúnaðarins kemur til sögunnar, eða m. ö. o. þangað til ríkisvaldið grípur til sérstakra ráðstafana í fjármálaviðskiptunum, en um leið og þessi löggjöf kemur rýrnar eðlilega traust þeirra stofnana, sem ekki höfðu öruggustu tryggingu, sem á boðstólum er hér á landi.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að það væru engin rök til meðmæla till. okkar í ressu efni, að sparisjóðirnir hefðu tapað vegna kreppuráðstafana. Það eru einmitt kannske stærstu rokin, auk þess sem það er ríkið sjálft, sem hefir orðið þess valdandi, að þær ráðstafanir, sem hér um ræðir, voru gerðar. Hæstv. ráðh. benti á það í þessu sambandi, að auðsætt væri, að af þessum ástæðum kynni að vera meiri áhætta fyrir ríkið að taka á sig ábyrgð á sparisjóðainnieignum en ella mundi vera. Ég skal ekki neita því, að það getur alltaf stafað einhver áhætta af þessari ábyrgð fyrir ríkið. Maður getur ekki fullyrt fyrirfram, að ekki geti stafað áhætta af hvaða ábyrgð, sem er, hvort sem hún er fyrir stofnanir eða einstaklinga. Annars hefir þetta mál miklu dýpri áhrif á næstkomandi ár heldur en menn í fljótu bragði gera sér grein fyrir, því að þær horfur, sem fram eru komnar um afkomu sparisjóðanna, ráða því, hvort stefnt verður í þá átt, að allt fjármagn skuli ganga í gegnum verzlunarviðskiptin, hvort sem það verða kaupfélög eða kaupmenn, eða í gegnum sparisjóðina, sem eru peningastofnanir víða um land. Frá mínu sjónarmiði er það að stefna í öfuga átt, að rýra áhrif sparisjóðanna, en auka straum fjármagnsins gegnum verzlunina, því að þá fyrst eru öll verzlunarviðskipti komin í gott horf, þegar hugsanlegt er, að þau verði sem allra mest peningaviðskipti. Þess vegna tel ég, að það hafi ákaflega mikla þýðingu að gera sparisjóðina, eftir því sem unnt er, sterkar stofnanir og láta verzlunarviðskiptin sem mest ganga í gegnum þá. Hitt er skaðræði frá mínu sjónarmiði, að af ríkisábyrgð á bankainnstæðum hlýtur að leiða, að sparisjóðir hafa miklu verri aðstöðu en ella, og þeirra viðskipti hljóta að minnka frá því, sem áður var.

Hv. þm. Barð. hélt því fram, að áhættan hjá sparisjóðum væri svo að segja engin. Sem betur fer hefir áhættan hjá þeim flestum verið lítil fram á síðustu tíma. En aðstæður hafa breytzt mikið í þessu efni, og vegna þess höfum við borið fram þessa till.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Það verður að skeika að sköpuðu um afdrif þessarar till., en ég vona þó, að hv. þdm. sjái og skilji, að þetta mál getur haft víðtækar afleiðingar í för með sér á fjármálaviðskipti á komandi árum í sveitahéruðum þessa lands og ráðið miklu um það, hvert straumurinn á þessu sviði stefnir.