29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

31. mál, sparisjóðir

Hannes Jónsson:

Það er nú búið að taka flest fram um þetta ágreiningsmál, sem þörf er á, og skal ég ekki bæta miklu við. Ég vil taka fram, að ég álít, að brtt. á þskj. 280, þegar búið er að gera þá lagfæringu á prentun hennar, sem nauðsynleg er, sé sjálfsögð till. Það, sem fundið er því til foráttu, að sjóðir kjósi sjálfir sína stjórn, er það, að ekki fáist nægileg trygging fyrir starfsemi sjóðanna. En bæði er það, að í frv. eru ákvæði um það, að fjmrh. skuli annast allt eftirlit með öllum sparisjóðum í landinu og hafa nákvæmt eftirlit með, að starfsemi og rekstur sparisjóða sé í samræmi við gildandi l. og reglugerðir o. s. frv. Það sýnist því nægilega séð fyrir eftirlitinu í ákvæðum 5. gr. frv. Og ef þetta þætti ekki nóg, þá er ákvæði í 3. gr. um, að endurskoðunarmenn skuli kosnir af hlutaðeigandi bæjar- eða sýslufélagi. Mér finnst satt að segja gengið helzt til langt í 3. gr., og er jafnvel að hugsa um að koma með brtt. um það, að annar endurskoðandinn sé kosinn af hlutaðeigandi ábyrgðarmönnum. Því að það er ekki óhugsandi, að þeir gegnum endurskoðunina fái að fylgjast með rekstri sjóðsins. En eins og það er nú, þá á sýslu — eða bæjarfélag að kjósa báða endurskoðendur, svo að það er áreiðanlega fullkomlega séð fyrir eftirliti frá þeirra hálfu. Ég get því á engan hátt séð, að það þurfi að fæla menn neitt frá þessari brtt., að ekki sé nægilega tryggt um eftirlit með sparisjóðunum.

En viðkomandi brtt. á þskj. 291, þá er töluvert rétt í því, að sparisjóðir eiga nú nokkuð í vök að verjast, þar sem þeir verða að liggja með talsvert af kreppubréfum. En það verður ekki greitt úr því með þessari brtt. Það þarf þá að koma sérstakt ákvæði, sem tryggi sparisjóðum á einhvern hátt rekstrarfé til þess að standast þessa festingu fjárins. Og það verður ekki gert á annan hátt en að útvega þeim nýtt starfsfé.

Þessir örðugleikar munu vera jafnt fyrir hendi, þó að ríkið taki ábyrgð á innstæðunum. Og ég hygg, að það sé ekki neinsstaðar kominn fram ótti við að eiga fé sitt hjá sparisjóðum. Og það hefir sýnt sig undanfarið, síðan tekin var ábyrgð á innstæðufé Landsbankans, að hlutfallið milli innstæðna sparisjóða og Landsbankans hefir ekki breytzt til óhags fyrir sparisjóðina. Þvert á móti man ég, að fyrstu árin a. m. k. eftir að l. gengu í gildi um ábyrgð á innstæðu í Landsbankanum varð innstæðuaukning sízt minni hjá sparisjóðum en Landsbankanum. Svo að það er engin ástæða til að ætla, að ákvæðið um ábyrgð á innstæðufé Landsbankans hafi haft nokkur áhrif til að draga úr innstæðu sparisjóða í landinu. Þvert á móti.

En um það ákvæði l., að innstæðufé í sparisjóðum megi ekki ávaxtast hærra en gert er eftir till. Landsbankans og samkv. vaxtahæð í þeim banka, þá á eftir að koma í ljós, hvort það hefir nokkur áhrif til að draga úr sparisjóðum. En yfirleitt munu menn líta svo á, að sparisjóðir séu svo tryggir og fé þeirra svo vel geymt, að engin ástæða sé að seilast eftir meiri tryggingu en þeirri, sem sparisjóðir hafa að bjóða. Ég tel því, að þessi brtt. eigi ekki að ná framgangi. En hinsvegar skal ég viðurkenna, að það, sem hefir komið fram hjá flm., er að sumu leyti rétt; nefnilega hvað snertir þörf sparisjóða til aukins veltufjár, vegna þess hve mikið festist í kreppubréfunum. Annars má geta þess, að sparisjóðir geta að nokkru leyti notað þessi kreppubréf til þess að láta þau liggja í staðinn fyrir það, sem þeir annars láta liggja í bönkunum, sem nokkurskonar tryggingarfé, þó að sá ljóður sé raunar á því, að ef í þarf að grípa, er ekki hægt að nota kreppubréfin, nema einhver löggjöf sé sett til að greiða götu þeirra til að ná í rekstrarfé í stað kreppubréfanna.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég mæli með till. n. og tel sízt þörf að auka eftirlitið meðal bæjarfélaga. Ég tel jafnvel of langt gengið í ákvæðum 3. gr. frv., og væri ástæða til að láta ábyrgðarmönnunum eftir a. m. k. annan endurskoðandann. En ákvæðin um vald og skyldu ríkisstj, til eftirlits og að annar endurskoðandinn er kosinn af hlutaðeigandi sýslu- og bæjarfélagi álít ég fullkomlega næga tryggingu.