29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

31. mál, sparisjóðir

Jón Pálmason:

Hv. 2. landsk. hafði það eftir mér, að hvergi hefði tapazt fé í sparisjóð. um hér á landi. Þetta er náttúrlega alveg ranglega eftir mér haft. Ég sagði aðeins, að þar, sem ég þekkti til, væri mér ekki kunnugt um, að sparisjóðir hefðu tapað fé í útlánum fram að þeim tíma, er kreppulánalöggjöfin kom til sögunnar og sparisjóðirnir urðu að taka við kreppulánabréfum og veita eftirgjafir af skuldum, er þeir áttu hjá lántakendum í kreppulánasj.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, skal ég geta þess, að ég hefi ekki neitt um það sagt, hvort sú ábyrgð, sem ríkið veitti Landsbankanum, hafi dregið úr innlögum til sparisjóðanna í landinu. Það er náttúrlega ekki gott að sanna neitt um þetta til eða frá. En ég fullyrði, að eftir því sem meira er kreppt að frelsi sparisjóðanna, þá hefir þessi aðstöðumismunur hjá þeim og Landsbankanum að því er ríkisábyrgðina snertir meiri áhrif. Hitt er rétt, að eins og sakir standa nú, síðan sparisjóðirnir fóru að fá skuldir sínar greiddar að mestu leyti í kreppulánabréfum, þá er miklu meiri þörf á að auka veltufé þeirra. Þetta var ég búinn að athuga, en sá mér ekki fært að gera tillögur í því efni, sem með fullri vissu yrðu framkvæmanlegar. — Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.