30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

89. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Þorsteinn Briem:

Ég er meðmæltur því sem aðrir í allshn., að málið nái fram að ganga. En þó hygg ég, að betur þyrfti að athuga ýmislegt í frv. T. d. er ekki auðvelt að koma eftirliti við, ef skip kemur fyrst að Austfjörðum, því að utan Reykjavíkur vantar kunnáttu og tæki til að mæla burðarmagn víra o. þ. h., sem miðar að því að auka öryggið. Frv. gerir því eftirlitið ekki fullkomið, enda er slíkt erfitt, en mikil bót er í eftirliti því, sem gert er ráð fyrir í frv., þótt ekki sé nema á einum stað, enda er þar þörfin mest.

Hingað til hafa ekki verið nein ákvæði um eftirlit með verkpöllum við húsabyggingar eða annað slíkt. Ég býst líka við, að örðugt sé að koma eftirliti við nema það sé fyrirskipað í byggingarsamþykktum hinna einstöku kaupstaða og kauptúna. Mætti þá fela byggingarfulltrúum eftirlitið, og mun ég flytja brtt. við 3. umr. um það, að lögreglustjórar geti krafizt aðstöðar byggingarfulltrúa við þetta eftirlit. einkum að því er verkpalla snertir. Myndi eftirlitið einnig verða ódýrara, ef byggingarfulltrúarnir hefðu það á hendi, og oryggið meira.

Ég mun greiða frv. atkv. mitt til 3. umr., í þeirri von, að það nái fram að ganga, því að ýms ákvæði eru þar þörf og góð.