09.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Thor Thors:

Hæstv. atvmrh. vildi telja litla ástæðu til þess að viðhafa þau orð, að þetta frv. væri okkur sjálfstæðismönnum sár vonbrigði. En ég hygg, að þegar hæstv. ráðh. athugar það með sjálfum sér, hverja lausn frv. býður upp á, þá hljóti hann sjálfur að sannfærast um það, að frv. er alger vonbrigði.

Ég sagði ekki, að það vantaði rökstuðning fyrir frv. Sá rökstuðningur, sem er fyrir skuldaskilum almennt, nær líka til þessa frv. En ég staðhæfði, að frv. væri ekki flutt af alvöru og að það byði ekki upp á neina lausn á málinu, og veit hæstv. ráðh. það miklu betur en hann vill láta í veðri vaka.

Hæstv. ráðh. sagði, að stj. hefði ekki neitt loforð fyrir láni, en hann vildi láta í það skína, að hún gæti vænzt þess að fá lán. En hæstv. ráðh. veit, að ríkisstj. hefir lofað að taka ekki lán erlendis, og er stj. skyldug til þess að standa við það loforð. Hvar ætti hún þá að taka lán? Innanlands? Hæstv. ráðh. veit of vel, að fjárhagsástandið innanlands er ekki slíkt, að ástæða sé til þess að ætla að hægt sé að fá lán hér. Þess vegna mælir hæstv. ráðh. af fullkomnu alvöruleysi, þegar hann vill láta í veðri vaka, að lánið sé fáanlegt.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri einkennilegt, ef 11/2 millj. fengist ekki, þar sem sjálfstæðismenn hefðu ætlað að fá 5 millj. til þessa, og hefði átt að taka mestan hluta þess fjár að láni. Nú veit hæstv. ráðh., að viðhorfið í fjármálunum er svo breytt frá því á síðasta þingi, að lántöku má nú ekki leita erlendis. Sjálfstæðismenn munu ekki leika neinn loddaraleik með það. Þeim er það ljóst, að lántaka er útilokuð.

Ég vil minna hæstv. ráðh. á, að það var ekki eingöngu lánsheimildin, sem skuldaskilasjóður átti að lifa á samkv. frv. sjálfstæðismanna, heldur var ákveðið í frv., að sjávarútvegurinn sjálfur skyldi að nokkru leyti standa undir þessu, þar sem útflutningsgjald af sjávarafurðum átti að renna til þess að koma á skuldaskilum. Þar sem búið er að afnema útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, þá virðist sanngjarnt, að þessi óréttláti skattur á sjávarafurðirnar sé látinn koma sjávarútveginum sjálfum til góðs. Þegar þess er gætt, að útflutningsgjaldið nemur um 800 þús. kr. á ári, eða rúmlega helming af þeirri upphæð, sem ætluð er til skuldaskila samkv. þessu frv., þá er það ljóst, að sú aðferð, að láta útflutningsgjaldið renna til skuldaskila, gæti orðið fullkomin lausn, þar sem útflutningsgjald af sjávarafurðum á 2 árum nemur meiru en sú upphæð, sem verja á í þessu skyni samkv. frv. þessu.

Ég skal að svo stöddu ekki fullyrða neitt um það, hvaða ráð við sjálfstæðismenn tókum upp til lausnar á þessu máli. Það verða fulltrúar okkar í sjútvn., sem mestu ráða þar um. En hitt vil ég staðhæfa, að þar mun verða bent á hina raunverulegu lausn þessa máls, en ekki leikin slík loddarabrögð sem þetta frv. er.

Hæstv. ráðh. minntist á, að samkv. frv. um fiskimálanefnd frá síðasta þingi ætti að verja 1 millj. kr. til þess að reyna að tryggja framtíð sjávarútvegsins með því að taka upp ýmiskonar nýbreytni á sviði. fiskverkunar. Ég hygg, að sú upphæð, sem ætluð er, sé ónóg til þess að koma afurðasölumáli sjávarútvegsins eða fiskverkuninni í það horf, sem nauðsynlegt er.

Að lokum vil ég svo minna á, að þegar verið var að ræða um kreppuhjálpina til bænda, voru þau orð látin hljóma, að ekki skyldi farið að skipta um menn í bændastétt. Fyrir okkur sjálfstæðismönnum vakir sama hugsunin, sem vakti fyrir þeim mönnum, sem stuðluðu að því, að l. um kreppulánasjóðs voru samþ. Við viljum ekki láta skipta um menn í hópi útgerðarmanna, þegar hægt er að komast hjá því. En lausn þessa máls kemur að litlum notum í framtíðinni, ef útgerðarmönnum öllum er ekki gert kleift að stunda starfrækslu sína áfram, en það má gera með því að koma skuldunum á betri grundvöll, útvega mönnum lægri vexti á lánum og lengri afborgunartíma, og veita verulegan afslátt á skuldunum, svo að skuldaskilin geti orðið greiðari.

Ég sé svo ekki annað en það sé þýðingarlaust og óþarft á þessu stigi að ræða frekar um ágreiningsefnin milli flokkanna út af lausn þessa vandamáls, og því minni ástæða til þess, þar sem sjálfstæðismenn munu leggja sínar till. fyrir Alþ. einhvern næstu daga og berjast fyrir þeim á sama hátt og á síðasta þingi.