22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja mál mitt mikið með því að ræða um þann mannjöfnuð, sem hæstv. ráðh. minntist á. Þess tel ég ekki þörf.

Hæstv. ráðh. taldi það vera ósamræmi hjá mér, að ég hefði álitið lítil líkindi til þess, að haegt væri að útvega þessa 11/2 millj. króna til skuldaskilasjóðsins, en sjálfur bæri ég fram frv., sem færi fram á 5 millj. kr. upphæð í sama skyni. Ég veit, að hætv. ráðh. skilur, að þegar ég talaði um þessa 11/2 millj. kr., þá átti ég ekki við, að það fé mundi ekki takast að fá á þann hátt, sem við flm. hins frv. gerum ráð fyrir, sem sé með því, að ríkissjóður sleppi því, sem svarar þeim hluta af útflutningsgjaldi sjávarafurða.

Ég sagði fullkomlega skýrt, að ég gerði ráð fyrir því, að örðugt mundi verða fyrir ríkið að ábyrgjast lán, og ég veit, að því verður ekki mótmælt. Hæstv. ráðh. gat ekkert um það, hvort loforð hæstv. ríkisstj. og fjmrh. um það, að ríkisstj. gengi ekki í ábyrgð, næði einnig til innlendra lána. Ég sagði líka, að þar sem hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, vildu ekki bera þetta mál undir bankana, þá virtist svo sem þeir teldu bönkunum ekki koma þetta mál neitt við. Af því dró ég þá ályktun, að varla ætti að leita til álits bankanna á þessu láni.

Ég hefi aldrei talið vafa á því, að það mundi reka að því fyrr eða síðar, að það yrði hætt að taka þessi útflutningsgjöld og mér er sama, hvað oft hv. þm. tyggja það upp, að hér sé verið að fara fram á, að greiddar verði 3/4 millj. kr. úr ríkissjóði. Það er bara orðhengilsháttur. Það er sérstakt, að atvinnuvegur, sem getur ekki borið sig, skuli ekki fá að hafa afnot af þessum gjöldum. Það hlýtur að líða að því, að ríkissjóður missi þessi gjöld, ef áfram heldur sama árferði. Þetta fé er í rauninni eign útvegsins, eins og gefur að skilja, þótt ríkissjóður hafi klófest það hingað til.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri að hafa mál útgerðarmanna að fíflskaparmálum að tala um, að þetta frv. væri einskis virði.

Ég held því hiklaust fram, að þetta frv. sé ekkert annað en frávísun á málefnum nauðleitarmanna útvegsins. Þá sagðist hæstv. ráðh. vera undrandi á því, að í frv. því, sem við sjálfstæðismenn berum fram um þetta mál og er svipað því frv., sem við bárum fram um sama efni í fyrra, væri gert ráð fyrir því, að gefin yrðu út bréf til greiðslu þeirra skulda, sem skuldaskilasjóður gæti samið um. Við höfðum ekki ætlazt til þess í fyrra, en þetta er kostur á frv., sökum þess hve mikið er komið á markaðinn af slíkum bréfum. Þetta frv. er ekki komið til umr., en ég get sagt það, að einmitt vegna þess, að skuldaskilin þurfa að fara hraðar fram en væntanlegar tekjur mundu renna í ríkissjóð af útflutningsgjöldum, þótti okkur nauðsynlegt að afla sjóðnum bráðabirgðalána, sem átti að borga upp með tekjum sjóðsins á mjög stuttum tíma. En eftir að þeir flokkar, sem nú hafa yfirhöndina í þinginu, hafa ekið fjárhag ríkissjóðs út í aðrar eins ógöngur og þær, að neyðast til þess að gefa upp það loforð erlendum lánardrottnum að taka ekki lán og ganga ekki í ábyrgð, þá getum við ekki farið þessa leið. Hin leiðin er því neyðarúrræði.

Ég vil mótmaela því, að það standi eins á um bréf, sem eiga að dragast út eftir 10—12 ár, og bréf, sem ekki eiga að dragast út fyrr en eftir 42 ár. Mér þykir mjög ólíklegt, að komið geti til mála nokkurt verðfall á slíkum bréfum.

Hæstv. ráðh. svaraði fyrirspurn minni um það, hvort þetta hefði verið borið undir bankana. Kvaðst hann hafa sent bönkunum málið til umsagnar, en ekkert svar fengið. Þetta virðist hæstv. ráðh. sætta sig vel við. Er það vani bankanna að láta eins og einhverjir götudrengir séu að hrópa á eftir þeim, þegar ríkisstj. sendir þeim mál til umsagnar? Getur hæstv. ráðh. verið ánægður með slíkt? Slíkt svar leiðir til nýrra spurninga. Ég efast ekki um, að bankarnir telji sér þetta mál viðkomandi.

Það, sem ber á milli hjá hæstv. ráðh. og mér, er, að honum er eðlilega um að gera að halda í þá hugmynd, að fjárhagur útgerðarinnar sé viðunanlegur, en það fer vitanlega mjög fjarri því, að svo sé. Það þarf ekki mikla athugun til þess að koma auga á það.

Það þarf ekki langt út í frv. til að sjá þann mismun, sem er á afstöðu hans og okkar til málsins. Hæstv. ráðh. ætlast til, að viðreisn fáist með 11/2 millj. kr., auk þeirra eftirgjafa, sem kynnu að fást hjá lánardrottnum. En ég og mínir samherjar tökum ekki í mál, að það dugi minna en 51/2 millj. kr., svo að þar ber sannarlega mikið á milli. Og ég álít, að það liggi ljóst fyrir, að ef útgerðinni getur komið það að haldi að fá til láns 11/2 millj. kr. með 41/2% vöxtum, þá verð ég að segja, að hagur útgerðarinnar er ekki sérlega bágborinn. Þess vegna staðhæfi ég það, að annaðhvort þarf hún ekki hjáipar við eða að þetta, sem hér liggur fyrir, er algerlega ófullnægjandi. Ég tók það fram, að ég sæi ekki, hvernig ætti að semja um breytingar eða greiðslukjör á þeim skuldum útgerðarmanna, sem væntanlegur skuldaskilasjóður greiðir ekkert upp í. Ég get ekki séð, að þeir lánardrottnar, sem ekki fá nein fríðindi, þurfi að taka nokkurt tillit til þeirra skuldunauta. Ef samningar um greiðslukjör á veðskuldum útgerðarmanna eru ófullnægjandi, þá geri ég ekki ráð fyrir, að hægt sé að fá greiðslukjörunum breytt, og það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, nema lánardrottnar þeirra fái eitthvað í staðinn. Og ef það á að fást mikill afsláttur á þeim skuldum, sem eru illa tryggðar, þá verða eftirstöðvarnar að borgast upp, býst ég við. Einnig geri ég ráð fyrir, að það muni ekki fást samningar um aðrar skuldir en þær, sem tryggðar eru með veði. Mér finnst, að ákvæði frv. um það, hvenær skuldunautar þurfi á hjálp að halda, séu talsvert óljós, og eru þar vissulega smíðagallar á því. Ég get ekki betur séð en að gengið sé út frá, að því verr sem skuldunautur er staddur fjárhagslega, því minni þörf muni hann hafa fyrir hjálp. Það er gert ráð fyrir, að veittur verði stuðningur til þess að greiða um 15% af skuld mannsins. Við skulum hugsa okkur, að skuldir vélbátaútvegsins séu um 10 millj. kr. og eignirnar eins; þá ætti hann að þurfa 11/2 millj. kr. að láni, eða 15% á moti eignum. Ef eignirnar eru aftur á móti ekki nema 6 millj. kr., en skuldirnar 10 millj. kr., þá ætti hann ekki að þurfa meira en 900 þús. kr. lán, eftir sama hlutfalli. M. ö. o., eftir því sem útgerðin er verr stödd fjárhagslega, því minna lánsfé á hún að þurfa til að greiða úr vandræðunum og komast að þolanlegum skuldaskilum. — Það var í raun og veru ekki fleira, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. til andsvara því, sem ég sagði í fyrri ræðu minni. En hann vék ekkert að ýmsu af því, sem ég taldi athugavert við frv. — ég get ekki stillt mig um að benda á það, er hæstv. ráðh. komst svo að orði í ræðu sinni, að ekki væri ástæða til að bæta lánardrottnum fjártap vegna þeirra skuldunauta, sem skulduðu yfir 100% á móti í eignum. Það er alls ekki rétt að varpa þessu fram. Eins og kunnugt er, þá getur oft borið mikið á milli um mat á eignum skuldunauts, því slíkt er jafnan álitamál og verðgildi eigna háð ýmiskonar skilyrðum, sem breytast sitt á hvað. Og hitt er líka áreiðanlegt, að lánardrottinn, sem ekki býst við að fá neitt greitt af kröfum sínum á hendur skuldunaut, þykist ekki þurfa að greiða atkv. hvorki með né móti á skuldaskilafundi, sem fjallar um mál hans. A. m. k. má gera ráð fyrir, að hann samþykki ekki matið á eignunum eða skuldaskilasamninga.

Hæstv. ráðh. sagðist geta fullyrt, að frv. það, er við sjálfstm. úr sjútvn. flytjum bæði í fyrra og nú á þessu þingi, mundi ekki ná fram að ganga. Ég efast ekki um, að það sé rétt hjá honum. En það er samt sem áður engin kurteisi í því að sparka látlaust framan í þá útgerðarmenn, sem þetta frv. er flutt fyrir, til að greiða fram úr þeirra brýnustu nauðsynjamálum.

Um leið og ég sá þetta frv. stj. fékk ég fullkomna staðfestingu á því, að í því fólst ekkert annað en synjun frá stj. hálfu við kröfum og þörfum sjávarútvegsmanna í skuldaskilamálunum, þó að hún eigi að berast fram í mildu formi. Frv. er úlfur í sauðargæru, sem hylur eyrun undir skinhelgisblæju hinna auðvirðilegustu tylliboða. Og eins og hæstv. ráðh. fullyrðir, að frv. okkar nái ekki fram að ganga, þannig get ég einnig fullyrt, að það mun enginn útvegsmaður villast á þeim eyrum, sem undan gærunni standa.