23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Þetta frv. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, sem flutt er af meiri hl. sjútvn., er nokkuð mikið deiluefni, en mér hefir satt að segja dottið í hug að setja fram hér nokkrar hugleiðingar, annars efnis en þær umr., sem farið hafa hér fram um hríð.

Ég skal ekki fullyrða, að til þess sé nokkur vegur fyrir ríkisvaldið, að bjarga ísl. sjávarútvegi með fjárframlögum eða á annan hátt frá yfirvofandi hruni. Allir þeir, sem til þekkja, vita, að árum saman hefir þessi framleiðsla verið rekin með tjóni, vaxandi tjóni. Og þó hafa, síðan þetta byrjaði, bætzt við ýmsir örðugleikar fyrir útgerðina alla, og ekki verður séð, hvaða áhrif þeir hafa, ef þeir leiða ekki til gersamlegs hruns fyrir alla útgerð landsmanna. Það er ekki gott að gera sér grein fyrir því, hvað slíkt orð þýðir, þegar talað er um „hrun“ í þessu sambandi. Þó þýðir það líklega það, að mikill hluti útgerðarinnar verður að leggjast niður, og sá einn hlutinn haldi áfram starfseminni, á svipuðum grundvelli og verið hefir, sem hæfastur er til að halda velli í samkeppninni. Ef þetta er nú framundan, að kalla má að miklu leyti hrun fyrir sjávarútveginn, þá er augljóst, að þetta, sem hér er um að ræða. 11/2 millj. kr. til að kaupa skuldaskil, eins og ráðh. orðaði það, til handa smáútgerðinni, sem lakast er stödd, þá er þetta frv. bara barnaleikur. Nú skulum við segja, að til þess komi ekki, að það verði mjög mikið eða algert hrun í sjávarútgerðinni, heldur dragist útgerðin saman, því að verkefni hennar er næstum einungis að afla fiskjar fyrir erlenda markaði. Ef það verður svo til langframa, að ekki verður hægt að selja 1/3 eða jafnvel 1/2 af fiskframleiðslu landsmanna, þá er það alveg gefið, að einhver hluti útgerðarinnar hlýtur að leggjast niður. Nú má auðvitað reyna að hugleiða, hvaða tegund útgerðar það myndi vera, sem legðist fyrst niður. Og í sambandi við þetta frv. verður að athuga, hver geta ríkissjóðsins er til þess að halda hlífiskildi yfir þeim hluta útgerðarinnar, sem ekki er fyrirfram dauðadæmdur. Hvaða hluti útgerðarinnar er það, sem á skilið stuðning ríkisvaldsins, ef um þann voða er að ræða, sem ég var að lýsa áðan? Meiri hl. sjútvn., sem ber þetta frv. fram að tilhlutun atvmrh., hefir e. t. v. ekki hugsað svo langt. En mér finnst þetta vera undirstaðan í málinu. Hvaða hluti útgerðarinnar er það, sem minnst „kapital“ stendur í og er hagfelldastur að því leyti, að minnst þarf af erlendum nauðsynjum, og hvaða hluti útgerðarinnar er það, sem skilar mestu fyrir það fé, sem hann notar árlega? ég held, að ef það stendur til, að draga þurfi úr framleiðslunni, þurfi að athuga þetta atriði. Ég er ekki fær um að kveða upp neinn dóm í þessum efnum, en það þykir mér liggja ljóst fyrir, að þetta sé verkefni, sem þarf að leysa, og gera sér síðan grein fyrir, hvernig framtíðin lítur út að þessu leyti. Mér er sagt, og hygg það sé rétt, að mótorbátar landsmanna noti tvöfalt meira af erlendum nauðsynjum en togaraútgerðin. Ef þetta er svona, þá ber að líta mjög á það. Mér er einnig sagt, að togararnir skili hlutfallslega miklu meiri afla, miðað við kaup á erlendum nauðsynjum, sem notaðar eru við rekstur þeirra, en nokkur önnur útgerðartæki. Má ekki einnig líta á þetta atriði? Mér er spurn, ef þetta, eða eitthvað svipað því og ég var að tala um, er framundan, er það þá ekki gersamlega vonlaust verk og að byrja á öfugum enda, að ætla sér að halda uppi stærsta hlutanum af lökustu framleiðslutækjunum, sem landsmenn eiga? En að því virðist mér þetta frv. stefna: Að styðja lakasta hlutann af lökustu framleiðslutækjunum í þessari atvinnugrein. Ef þetta er svo, þá er sýnilega unnið fyrir gíg, gersamlega fyrir gíg. Ef aftur á móti svo fer, fyrir atbeina ríkisvaldsins, að samkeppni verður á milli þessara tegunda atvinnutækja, togara, línuveiðara og stærri mótorbáta annarsvegar, og hinsvegar smámótorbáta, um það, hverjir skuli halda velli sem hæfastir til framleiðslunnar, og ef ríkisvaldið verður til þess að styðja lakari hlutann til samkeppni við betri hluta útgerðarinnar, þá er auðséð, að af því leiðir þjóðarböl. Ef þessi kostur er upp tekinn, þá er stefnt í fullkomið óefni. En ég verð að segja það, án þess að ég hafi þekkingu til þess að fullyrða nokkuð um það, að ég tel með þessu frv. stefnt í alveg öfuga átt við það, sem ættí að vera, miðað við það, að þessir umræddu örðugleikar séu framundan. Ég skil það ósköp vel, að hæstv. stj., sem kallar sig „stj. hinna vinnandi stétta“, verði fyrst litið á það, eins og hæstv. atvmrh. gerir, að togararnir séu eign stórútgerðarmannanna, það séu fátækir farmenn og fiskimenn, sem eigi þessi lélegustu útgerðartæki í landinu og séu að sligast undir þeim og þurfi að fá bætta aðstöðu. Ég skil þetta vel út frá því sem „stj. hinna vinnandi stétta“ hugsar í þjóðfélagsmálum, en við verðum að líta á málið frá stærra sjónarmiði, þegar um er að ræða eins stórt vandamál og þetta því að það er alveg óframkvæmanlegt verk að ætla sér að styðja þá, sem lakasta hafa aðstöðuna til þess að geta haldið áfram framleiðslunni Hér dugir ekkert góður vilji. Við skulum líka líta á þann möguleika, að stórútgerðin legðist niður. Hæstv. atvmrh. sagði, að ekki kæmi til mála að styðja fyrirtæki stórútgerðarmanna, sem dregið hefðu fé út úr framleiðslunni og væru enda ríkir. Hann átti þar við þá, sem standa að togaraútgerð landsmanna. Þetta eru vafasöm orð, og mér skilst þau þurfi meiri yfirvegunar en rétt að kasta þeim þannig fram. Getur hæstv. ráðh. ekki hugsað sér það, að stuðningur við lakasta hluta útgerðarinnar, ef mótorbátaútgerðin er það, geti orðið til þess, að þessi lökustu útgerðartæki verði innan skamms eini bátakostur landsmanna? Getur ráðh. ekki hugsað sér, að eftir þann stuðning taki landsmenn sjálfir ekki þátt í veiðunum á aðalveiðistöðvunum í kringum landið? Og að þar með leggist niður sú veiði landsmanna, sem árum saman hefir verið aflað og flutt út á íslenzkum skipum til annara landa, og seld þar við góðu eða sæmilega góðu verði strax? Getur hann ekki, hæstv. ráðh., hugsað sér, að þá sé að því komið, sem mönnum hefir undanfarið virzt stefna að, að þetta land sé meir verstöð erlendra manna en landsmanna sjálfra? Þykir ekki atvmrh. skarð fyrir skildi, ef svo fer? Og þá sérstaklega, ef það er fyrir örugga aðstoð ríkisvaldsins, að landsmenn eru ekki færir um það lengur að reka þessa stóru „produktion“, sem bæði ríkið og megnið af einstaklingunum í landinu hefir notið svo ótæpt? Þykir ráðh. ekki skarð fyrir skildi, ef veiðiskip landsmanna verða eign erlendra þjóða?

Þetta er nú það, sem ég hafði að segja. Ég held, að það verði að líta á þetta stóra vandamál á eitthvað svipaðan hátt og ég hefi gert hér. Ég held, að þetta kák, sem nefnt er í þessu frv., sem hér er til umr., verði ekki til neins annars en erfiðleika fyrir alla þá, sem að því standa.