25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég hefði ekki beðið um orðið, ef hæstv. atvmrh. hefði ekki vikið þeim orðum persónulega að mér og meðflm. mínum, að það frv., sem við nú í annað sinn flytjum fram á hinu háa Alþ., væri ekki af heilum huga flutt. Mér þykir nú hæstv. atvmrh. vera farinn að grýta fullhart úr glerhúsinu og mun kvitta fyrir það með nokkrum orðum áður en ég sezt. En af því að hæstv. forseti leyfði mér að gera þessa aths., vil ég gera aths. við nokkur fleiri atriði, sem sumpart er ranglega farið með hjá hæstv. ráðh., og sumpart rangar ályktanir af mínum orðum.

Hæstv. atvmrh. hefir ekki enn gert hreint fyrir sínum dyrum og svarað því afdráttarlaust, hvort hann álítur, að sú 11/2 millj., sem ætluð er til skuldaskila útgerðarinnar samkv. frumv. hans, muni nægja til að rétta hag útgerðarinnar, svo að hún sem atvinnuvegur muni reisast úr þeim fjárhagslega kút, sem hún nú er í, með þessari 11/2 millj. Ég hefi litið svo á, að þetta væri mál, sem varðaði alþjóð, og því ætti fyrst og fremst að athuga, hvort þessi atvinnuvegur í heild sinni væri í hættu staddur, hvort horfur séu á því, að hann svíki undan athafnalífi þjóðarinnar og skapi þar með starfleysi, og haga svo aðgerðunum eftir því, hvort komizt yrði að þessari niðurstöðu.

Við, sem fluttum frumv. í fyrra — og flytjum það aftur nú —, álítum, að þessi hætta sé fyrir dyrum, og því beri að hefjast handa. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að ef atvinnuvegur er svo hætt staddur, að hann er rekinn með tapi og liggur við borð, að það dragi úr honum að miklum mun eða dragist svo saman, að ekki verði nema arðminni hluti hans í gangi, þá er sjálfsagt í fyrsta lagi að athuga, hvaða þunga sé hægt að velta af atvinnugreininni. Ég hygg, ef hæstv. atvmrh. væri staddur á sökkvandi fleytu á óstæðu vatni, að honum yrði það fyrst fyrir að athuga, hvort ekki væri hægt að létta fleytuna með því að kasta einhverju út — þ. e. a. s. öðru en sjálfum sér. Á útgerðinni hafa hvílt geysiþungir skattar um undanfarin ár, skattar, sem nema nálega 1 millj. árlega. Það er óhugsandi, að maður með skynsemd hæstv. atvmrh. sjái ekki, að það, sem fyrst ber að gera, er að velta af þessum óbærilega þunga steini, sem lagður er á herðar þeirra manna, sem menn héldu, að hann nú ætti að hugsa um. Þó hæstv. atvmrh. látist ekki sjá þetta og hlaupi í króka og lykkjur undan sannleikanum, sem er ekkert annað en það, að fá þessum beinu útgjöldum af lett. Hitt er svo aukaatriði og sérmál útgerðarinnar, að hún verji þessu fé til þess að mynda fyrir sig skuldaskilasjóð.

Hæstv. ráðh. sagði nú, að það væri okkar skuld, sjálfstæðismanna, að þetta mál hefði ekki verið leyst þegar á þinginu í fyrra. Ég veit það, að það er okkar skuld, að ekki var hægt að kæfa þetta mál gersamlega, eins og hæstv. ráðh. gerði hinar ítrekuðustu tilraunir til og hans flokkur. En af því að hann hafði nokkru meiri sóma að gæta og skyldu að rækja en margir hans flokksmanna, þá fór hann hæflega í málið, tók þann kostinn að þvælast fyrir viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Það varð til þess, að málið fékk ekki afgreiðslu. Ekkert hamlaði meir afgreiðslu málsins en það, að hans flokksmenn vildu ekki, að það yrði leyst. Og þegar hann vek því að mér, að þetta frv. okkar sjálfstæðismanna sé ekki flutt af heilum hug, þá spyr ég: Af hverju skipaði hann n. til að rannsaka þessi mál milli þinga? Hvernig heldur hann, að þeir menn skilji sitt hlutverk, sem skipaðir eru til að athuga þessi mál? Heldur hann, að þeir skilji það þannig, að þeir eigi að svíkjast frá því og segja sem svo, að allt geti lafað svona, ef þeir álíta, að eitthvað verði að gerast? Nei, okkar frv. er flutt af sannfæringu þess, að þeirra aðgerða sé mikil nauðsyn, sem það fer fram á.

En ég get sagt hæstv. ráðh. það, að það er sannfæring mín, að hans frv. sé ekki flutt af heilum hug. Það er honum áreiðanlega ljóst sjálfum, að þessi 11/2 millj. nægir hvergi nærri til þess að koma þessum mikla atvinnurekstri á öruggan fjárhagslegan grundvöll. Og ég efast ekki um, að frv. hans og hans fylgismanna er ætlað til þess að blekkja einhvern hluta — a. m. k. — af útgerðarmönnum og þeim öðrum, sem lifa óbeint á útgerð, í þessum sökum, og látast vera viðgjarnlegur í þeirra garð. En tilgangurinn er að flýja frá málinu sjálfu og kannske líka að nota þessa skoplegu upphæð sem ég vil kalla — til þess að kaupa sér fylgi eins og óbeinlínis að níðast á öðrum, eins og hefir einkennt svo nákvæmlega feril þessara flokka, sem nú ráða hér á þingi, í meðferð þess fjár, sem er almennings eign, sem er ríkissjóðm. Hann hefir verið notaður til pólitískra kaupa annarsvegar og til áníðslu á andstæðinga hinsvegar. Og þessi smáupphæð er einmitt svona sniðin rétt til þessa. Það er gersamlega óhugsandi, að hún geti orðið útveginum að verulegu liði, ef ætti að jafna henni niður óhlutdrægt. Ég veit ósköp vel, að hæstv. atvmrh. hefir vissar afsakanir. Hann hefir staðið í fylkingarbrjósti þess flokks, sem í fjölda, fjölda mörg ár hefir stundað það að rífa niður atvinnuvegi landsmanna og egna upp það fólk, sem tekur sinn arð beint í verkalaunum, gegn þeim, sem standa fyrir atvinnurekstri til lands og sjávar. Þessi niðurrifsstarfsemi er búin að móta svo hugarfar bæði hans og annara þeirra manna, sem í þeirri fylkingu hafa staðið, að þeir kunna ekki að hugsa á þann hátt, sem þeir menn verða að hugsa, sem ætla sér að styðja og byggja upp atvinnuvegina í landinu. Og það er þess vegna að mínu áliti allt að því hneyksli, að maður úr þeim herbúðum sé orðinn að atvmrh. í landinu.

Ég skal svo ekki eyða meira púðri á þennan ráðh. En hjá hæstv. fjmrh. þarf ég að leiðrétta nokkrar rangfærslur, með leyfi hæstv. forseta. Ég veit ekki, hvort hann er þarna inni í lambakrónni, — vona, að svo sé, en ég skal reyna að haga orðum mínum svo, að ekki sé beinlínis særandi fyrir hann. Hann kvað vera alrangt með farið hjá mér, að Framsfl. hefði farið með fjármálastj. í 8 ár, — hann hefði farið með fjármálastj. í 41/2 ár með sósíalistum, en 31/2 með stuðningi sjálfstæðismanna. Þess vegna sagði hann, að sjálfstæðismenn beri vitanlega ábyrgð á fjármálastj. landsins. Þessum hæstv. ráðh. er vel kunnugt um það, að sjálfstæðismenn hafa aldrei síðan 1927 ráðið neinu um fjármálastj. landsins. Hitt er honum jafnkunnugt, að þeir hafa mótmælt svo að segja hverju einasta atriði, sem hefir sýnt sig að vera misráðið hjá stj. Þetta hafa þeir gert líka þann tíma, sem þeir áttu einn ráðh. í stj., að svo miklu leyti sem átti við. En eins og ég tók fram á laugardaginn, þá er ekki hægt að neita, að það er mjög mikill munur á fjárstj. þau árin, sem framsóknarmenn höfðu ekki kröfur sósíalista til fjárausturs yfir sér, en það var einmitt það árabilið, sem sjálfstæðismenn áttu ráðh. í stj. En hann var vitanlega í minni hl., og hans hlutverk var allt annað. Hann var blátt áfram til sátta í kjördæmamálinu. Hæstv. ráðh. lét sér um munn fara aðra eins fjarstæðu og þá, að sjálfstæðismenn hefðu aldrei haft serstöðu um fjármálastj. ríkisins. Ég veit ekki, hvaðan hann heldur, að hlustendur sínir séu komnir! Líklega úr ennþá þykkri hól en hann sjálfur! Það veit hvert mannsbarn í landinu, að í 8 ár hafa langmestar pólitískar deilur í landinu staðið milli sjálfstæðismanna annarsvegar og framsóknarmanna hinsvegar um fjármálastj. í landinu. — Þessu máli sínu til stuðnings sagði ráðh., að sjálfstæðismenn hefðu samþ. allar lántökur erlendis, sem farið hafa fram. Ég vil nú spyrja þennan hæstv. ráðh.: Hvernig heldur hann, að sé hægt að komast hjá því, þegar búið er að eyða fénu, að samþ. að gera samninga um það? hað veit ráðh., að þegar framsóknarstj. var búin að éta út þúsundir og milljónir á milljónir ofan, þá kom hún alveg eins og til okkar nú fyrsta dag þessa þings og bað um að samþ. í guðanna bænum með afbrigðum frá þingsköpum 12 millj. kr. lán. Hvar eru þær nú? Þær eru upp étnar. Það er ekki ný lántaka, heldur að lán sé ekki kræft fyrirvaralaust. Það eru sjálfstæðismenn, sem verða að samþ., að fyrir hengingarvíxla, sem framsóknarstj. hefir tekið, sé hægt að ganga að ríkinu hvenær sem er. Það var ekkert annað en að gera samninga um þessa hengingarvíxla, sem fjármálaóstjórnin hafði leitt yfir okkur.

Ég vildi mótmæla þessu um leið og ég gekk, að við sjálfstæðismenn hefðum ekki haft sérstöðu um fjárstj. ríkisins, því að við höfðum fyrst og fremst sérstöðu þar.

Það var ekki lítill gorgeir í hæstv. ráðh., þegar hann var að segja, að það varðaði engan mann um það, hvort mér væri ekki launungarmál á þessu eða hinu. En ég segi, að það varðar landslýðinn miklu, hvers vegna frá hendi fjmrh. er launung í þessu máli. Ég vil hér með skora á hann að birta öll skeyti, sem farið hafa milli hans og annara aðilja, og allar yfirlýsingar frá honum út af þessu máli, og síðan skulum við ekki tala frekar um, hverjum er launung. Mér er ekki launung á neinu, sem mér við kemur í stjórnmálum, enda er það smærra. En ég vildi, að ráðh. væri ekki launung á því, sem hann hefir gert. Og ef hann vill ekki birta plögg viðvíkjandi þessu máli, þá munu margir álykta — og sennilega með réttu —, að þar sé eitthvað, sem fela þurfi.