25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Út af ummælum hv. 5. þm. Reykv. um það, að sjálfsagt sé að styðja þá grein útvegsins, sem sýnir besta afkomu, en háskalegt hinsvegar, sérstaklega fyrir skipulagsmenn, sé að nota getu ríkissjóðs til þess að styðja aðrar greinir, sem sýna verri afkomumöguleika, vil ég benda á, að samkv. skýrslu mþn. í sjávarútvegsmálum, sem ég efast ekki um, að hann telji mjög ábyggilegt plagg, hefir niðurstaðan á rekstri þeirra skipa, sem rekstrarafkomuskýrslur ná yfir — þar vanta því miður ekki fá skip —, verið sem ber segir:

Á vélbátaútveginum hefir orðið samanlagt tap 2 millj. 100 þús. kr., 4 flokkum vélbáta á þorsk- og síldveiðum. En tapið á línubátunum og togurum, sem hv. þm. telur, að beri sig bezt, er talið 6,5 millj. kr., eða meira en þreföld upphæð tapsins á vélbátunum. Þetta sýnir a. m. k., að það var ákaflega lausleg ágiskun á ferð eða lítt upp byggð fullyrðing, eins og fleira hjá þessum hv. þm. Ef miðað er við rekstrarafkomu sjávarútvegsins — (SK: Hvaða arð báru þessar tegundir útvegs fólkinu, sem að honum vann?). Það er þessi þm. búinn að reikna meir en ég , því að hann hefir ekki gert annað síðustu tvö árin en það. En niðurstaðan úr skýrslu mþn. sýnir þveröfugt við það, sem hv. þm. lét í ljós. Ég skal ekki fullyrða, hversu vel þetta er upp byggt. Vitanlegt er, að allmikið vantar í skýrsluna. En þetta er niðurstaðan, sem hún sýnir. Aflamagnið á þessum flota samanlögðum er að ég hygg heldur meira en á botnvörpuskipaflotanum, jafnvel þótt línuveiðarar séu taldir með, og þetta er niðurstaðan.

Þá bar hv. þm. brigður á það hjá mér, að af lausu skuldunum stafaði vélbátum meiri hætta en togurum. Ég hefi ekki aðrar öruggari heimildir en þessa skýrslu. En samkv. henni eru verzlunarskuldir hjá vélbátum, sem allt eru lausaskuldir — línuveiðarar eru taldir með að einhverju leyti —, 4 millj. 310 þús. kr., en tilsvarandi lausar skuldir hjá togurum taldar 1 millj. 387 þús. kr., eða tæpur 1/3 af skuldaupphæð vélbátanna.

Þá taldi hv. þm. einnig sýnt og sannað, að togarar borguðu sig bezt fjárhagslega að því leyti, að tiltölulega minna færi úr landi við rekstur þeirra en vélbáta. Ég er nú svo alveg nýlega búinn að fá í hendur skýrslu mþn. og því ekki búinn að kynna mér nægilega niðurstöður. En ég sé það þó, sem ég vissi áður, að það er miklu meiri hluti af aflamagni vélbátaútvegsins heldur en togaraútvegsins, sem gengur beint til skipsmanna. Ég mun taka þetta nokkru nánar upp til 3. umr. og benda á það þá. En ég hygg, að þessar tilvitnanir úr skýrslu n. megi sýna hv. þm. fram á, að því fer ákaflega fjarri, að vélbátar séu sá hluti útvegsins, sem sízt sé ástæða til að veita nokkurn stuðning. Sérstaklega þegar þess er gætt, að sá stuðningur, sem gert er ráð fyrir, nemur fullum 75% af þeim töpum, sem skýrslan sýnir, að hann hafi beðið á árunum 1929—1932, það tímabil, sem rannsóknin nær yfir.

En að því er hinar tegundir útvegsins snertir er um svo geysiháar upphæðir að ræða, að það mundi reyna stórkostlega miklu meir á greiðslugetu ríkisins, ef ætti að taka þær með. Og þeim stafar miklu minni hætta yfir höfuð af lausu skuldunum heldur en vélbátunum.

Út af ummælum hv. 6. þm. Reykv. (SK) skal ég segja það, að hann má kalla það hneyksli, ef honum er það hugarléttir, að ég sé ráðh. Ég veit, að honum væri hugstæðara að vera það sjálfur, en kjósendurnir vildu ekki leyfa það, og hann verður að sakast um það við þá. Hann kvað skoplegt að láta sér detta í hug að koma sjávarútveginum á öruggan grundvöll með 11/2 millj. kr. Hann má hafa hvaða orð, sem hann vill, um þetta. En það hefir verið sýnt fram á — og ekki reynt að hrekja —, að þeirri grein útvegsins, sem frv. á að ná til, má veita ákaflega mikilsverðan stuðning með þessari fjárhæð. Hitt er rétt — og ég tek undir það með hv. 5. þm. Reykv. —, að það er barnaskapur og ekkert annað að láta sér detta í hug, að með afslætti og samningum um skuldir sé hægt að tryggja afkomu sjávarútvegsins. Það má létta í bili, ef með öðrum ráðstöfunum er hægt að tryggja rekstrarafkomuna í framtíðinni. En skuldaskilin ein út af fyrir sig eru aðeins einn þátturinn í því starfi, og ekki sá þátturinn, sem mestu máli skiptir.

Hv. 6. þm. Reykv. kvað það bersýnilegt, að ekkert vit né skynsemi gæti verið í því að halda áfram að taka útfiutningsgjald af sjávarútveginum, eins og högum hans er komið. Þegar einhver væri að sligast undir þunga, þá væri byrjað á að velta honum af, svo að maðurinn gæti gengið uppréttur. Þetta vill hann gera við útveginn á þann hátt, að taka sem útflutningsgjaldinu nemur úr ríkissjóði og leggja í skuldaskilasjóð, en útvegurinn á eftir sem áður að halda áfram að greiða útflutningsgjald í ríkissjóð. Þetta minnir mig á þá erfiðu list, sem sum börn halda sig geta gert, bæði að éta kökuna sína og eiga hana.