27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég er ekki við því búinn að kryfja til mergjar upplýsingar hv. 5. þm. Reykv. um mismun á innkaupum frá útlöndum fyrir togara og vélbáta. Ég mun að sjálfsögðu kynna mér þetta, og hefi ég svo ekki fleira um það að segja.

Orð hv. þm. um það, að stj. vildi styðja vélbátana í því skyni að útrýma togurunum, eru að minni hyggju alveg út í bláinn sögð, því að mér er ekki kunnugt um neinar ráðstafanir, sem ríkisstj. sé að gera eða hafi gert, sem að þessu gætu miðað. Það, sem hér er um að ræða, er þetta: Hvað miklu er hægt að verja til að styðja útgerðina, og hvernig er bezt að haga þeirri hjálp, sem hægt er að veita?

Hv. þm. Snæf. sagði, að sér væri það mikil ánægja, að stj. hafði tekið hér upp till. sinna flokksmanna, og ef honum er einhver hugarbót í því, þá skal ég ekki vera að spilla þeirri gleði hans eða óróa hans sálarástand í því efni.

Hv. 6. þm. Reykv. fullyrti, að ekki væri rétt að bera saman lausaskuldir togara og vélbáta. af því að skuldir togara vegna kaupa á salti og kolum væru víxilskuldir. Mér er ekki vel kunnugt um þetta. Ég hygg þó, að í mörgum tilfellum sé það svo með vélbátaútveginn, að þeir fái olíu og salt að láni gegn ábyrgð bankanna, svo að þar sé svipað ástatt fyrir þeim og togurunum.