27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Hæstv. ráðh. mótmælti því, sem ég sagði, að með þessari ráðstöfun væri hætta á, að togaraútvegi landsmanna gæti orðið lokið áður en langt um liði. Hann sagði, að tilgangurinn væri að sjálfsögðu ekki sá með þessum ráðstöfunum. Ég þykist líka vita það. En hitt er öllum ljóst, að ef ekki er hægt að selja meira en t. d. 2/3 eða aðeins helming af aflamagni landsmanna næstu árin og ríkisvaldið styður mótorbátaútgerðina til að geta selt það, sem þeir afla, en togaraflotinn fær engan stuðning, þá er togaraútveginum stefnt í hættu. Ef ríkisvaldið ætlar að styðja þannig einn hluta útgerðarinnar, en skiptir sér ekkert af hinum, þá fullyrði ég, að togararnir, þó það séu betri framleiðslutækin, standist ekki framar samkeppnina. Og þá hefir ríkisvaldið lagt grundvöll að því, að togaraflotinn getur ekki lengur haldið áfram að ganga. Hlýtur því að reka að því, ef ríkisvaldið heldur áfram á þessari braut, að togaraútgerðin líði undir lok. Hæstv. ráðh. gerði enga tilraun til að hugleiða þetta atriði, heldur hamraði alltaf á því, að þetta væri ekki tilgangurinn, og meinti væntanlega, að þessi afleiðing af ráðstöfunum ríkisvaldsins gæti ekki átt sér stað. En ég skil ekki, að neinum geti verið það hulið öðrum en hæstv. ráðh., að þetta verður afleiðingin, ef taka á mótorbátana á arma ríkissjóðs, en láta betri framleiðslutækin hverfa út úr samkeppninni. Óhjákvæmilega yrði þetta afleiðingin.

Hitt er ekki nægilegt, að láta það í ljós hér úr ráðherrastóli, að vélbátaútgerðin sé frekar verð stuðnings, því að fleiri menn hafi framfærslu af mótorbátum en togurum. Þetta getur verið sjónarmið góðviljaðs manns gagnvart þeim, sem erfitt eiga, en það er ekki nægilega vítt sjónarmið fyrir ráðh., sem á að leysa úr yfirvofandi vanda alls þjóðfélagsins.

Ég skil, að þær muni vera ástæðurnar til þessara ráðstafana, að í hópi vélbátaeigenda eru m. a. samvinnuútgerðarfélög, sem hæstv. ráðh. þykir líka þörf að styrkja, enda munu þau um alla framtíð þurfa styrks með. En þetta sjónarmið dugir heldur ekki fyrir atvmrh., sem á að gera ráðstafanir fyrir alla þjóðina.

Ég fullyrði það og er samfærður um, að þessar ráðstafanir eru fallnar til þess að útrýma togaraútgerð landsmanna, og þá mun mörgum þykja kollhúfulegt um að litast, þegar landsmenn geta ekki lengur sjálfir tekið þátt í veiðum á sínum ríkustu miðum.