11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

75. mál, hæstiréttur

Flm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og sest á grg. frv. er það samið af lögfræðinganefnd þeirri, sem skipuð var eftir þáltill. síðasta Alþingis. Í henni áttu sæti við flm. frv. og Einar Arnórsson hæstaréttardómari. Nefndin er í öllum aðalatriðum sammála um frv., en Einar Arnórsson hefir þó gert ágreining um tvo atriði. Hann er þannig mótfallinn c-lið 2. gr., sem felur það í sér, að hið svo kallaða dómarapróf verði fellt niður. Prófi þessu hefir aldrei verið beitt hér á landi, og mun enda hvergi tíðkast nema í Danmörku. Hafa margir jafnan verið því andvígir að hafa slíkt ákvæði í lögum. En þótt E. A. sé andvígur niðurfellingu dómaraprófsins, telur hann samt d-lið 2. gr. vera til mikilla bóta, en þar er svo ákveðið, að dómsmrh. skuli leita umsagnar hæstaréttar um skipun dómara í réttinn, enda ætti það að jafngilda hinu umþráttaða dómaraprófi.

Ég vil geta þess um leið, að ef c-liður verður felldur, þá er sjálfsagt að fella d-lið líka, því að það getur ekki samrímazt, að dómarar gefi prófvottorð og að ráðh. sé skylt að leita umsagnar þeirra. — Þá er E. A. ósammála okkur flm. um það atriði 1. gr., að ráðh. skuli velja mann í dóminn að fengnum tillögum hans, ef einhver hæstaréttardómara forfallast. Við flm. álítum, að dómsmrh., sem er yfirmaður lögfræðingastéttarinnar, og þá einnig hæstaréttar, eigi líka að hafa skipunarvald þar. Það er alveg óhæfa, þegar um mál sem þetta er að ræða, að dæma út frá því pólitíska ástandi, sem er á hverjum tíma, í stað þess að fara eftir því, sem réttast er. Ef andstaðan gegn þessu byggist á því, hvaða flokkar fara nú með völd, er því til að svara, að það er með öllu óvíst, að svo verði framvegis um aldur og æfi, og gæti það þá komið þeim í koll, ef þeir eða ráðherrar þeirra misbeittu valdi sínu í þessu efni. — Að öðru leyti eru nm. sammála um efni frv.

Efni frv. er þegar rætt og kunnugt hér á þingi. Þótt nokkur ný atriði komi fyrir í því, er það í höfuðatriðum sama efnis og frv. um fimmtardóm, sem var næstum afgr. á þingi 1932, er það strandaði á lítilli brtt., og frv. um æðsta dóm, sem lá fyrir þinginu 1933. Það er álit mitt, að eins og nú er frá frv. gengið, hljóti allir að vera sammála um það, að því sé í hóf stillt, og dómnum með því komið í það horf, sem er í samræmi við réttarmeðvitund þjóðarinnar. Pólítísk hlutdrægni á ekki að geta komið hér til greina.

Af nýmælum í frv. má geta þess, að í stað þess, að áður var valið milli háskólaprófessoranna með hlutkesti, ef hæstaréttardómari víkur sæti, á samkv. frv. dómsmrh. að geta valið úr stærra hópi, svo sem hæstaréttarmálaflutningsmönnum og héraðsdómurum og öðrum, sem geta orðið hæstaréttardómarar. Ég álít rétt að stækka þennan hóp, enda getur vel staðið svo á, að enginn lagaprófessoranna hafi aðstöðu til að taka sæti í dómnum.

Þá teljum við og réttara að ákveða þóknun handa dómurum, er taka sæti í réttinum til bráðabirgða, fyrir hvert einstakt mál, í stað þess að nú er sama þóknun fyrir hvert mál, hvort sem það er stórt eða lítið.

Í 2. gr. er svo ákveðið, að veita megi manni með 2. einkunn dómaraembætti, ef hæstiréttur mælir með því. Þessi till. er shlj. till., sem við Einar Arnórsson bárum fram á þingi 1932 og þá var samþ., enda er það ekki sanngjarnt að vera svo strangur við 2. einkunnar menn, hversu mikla hæfileika sem þeir annars sýna og hversu vel sem þeir rækja störf sín, að þeir geti ekki átt kost á að fá dómaraembætti eins og þessir svo kölluðu 1. einkunnar menn, sem oft reynast ekkert betur eftir að þeir hafa tekið próf.

Þá hefir nokkuð verið fjölgað í þeim flokki manna, sem geta komið til greina sem hæstaréttardómarar. Því er haldið eins og er í núgildandi l., að kennarar við háskólann og hæstaréttarmálaflm. skuli hafa verið skemmst 3 ár í því starfi. En svo er bætt við fulltrúum þeirra dómenda, sem mesta dóma hafa með höndum, eins og fulltrúum lögmanns og lögreglustjórans í Reykjavík, þessara embættismanna, sem nær eingöngu fást við dóma. Þar sem mest af málum, sem koma fyrir hér á landi, ganga fyrir rétti hér í Reykjavík, þá er það augljóst, að þessir menn hafa sérstaka æfingu í meðferð dóma, og þar sem heimtaður er 5 ára starfstími, og maður gerir ráð fyrir, að leitað yrði álits hlutaðeigandi embættismanns um það, hvernig fulltrúinn hefði staðið í stöðu sinni, þá má ætla, að þarna geti verið um hæf dómaraefni að ræða. Þá er það ennfremur nýmæli, að sá geti orðið hæstaréttardómari, sem sýnt hefir verulega yfirburði í lögfræði með fræðimennsku eða á einhvern annan hátt.

Aðalbreyt., sem þetta frv. gerir ráð fyrir á hæstaréttarl., er fólgin í ákvæðinu um opinbera atkvgr. í dómnum og að allur almenningur geti átt kost á að vita, hvernig dómarar hafa greitt atkv. um mál, því það er samkv. þessu frv. skylt að birta öll ágreiningsatriði, sem fyrir koma. — Ég held, að það sé ekki mikið deiluefni nú orðið, að það sé rétt að taka upp opinbera atkvgr. í æðsta dómi. Bæði mun það vera ósk almennings að fá að vita um það, hvernig einstakir dómarar hafa greitt atkv., og í öðru lagi getur það haft fræðilega þýðingu, en tjón getur ekkert af því stafað. Sem sagt, í mínum augum er þetta mál núna þannig út búið, að það ætti ekki að geta orðið að neinum pólitískum ásteytingarsteini.