11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

75. mál, hæstiréttur

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég mun ekki við þessa umr. tefja mikið fyrir þessu máli. En ég get ekki stillt mig um að láta undrun mína í ljós yfir því, að sú lögfræðinganefnd, sem skipuð hefir verið af ríkisstj. samkv. ályktun síðasta Alþ., skuli sérstaklega hafa tekið út úr það mái, sem hér liggur fyrir, l. um hæstarétt. Ég er hissa á því vegna þess, að með þeirri röksemdafærslu, sem hæstv. forsrh. færði fram fyrir nauðsyninni á skipun slíkrar n.; var það einmitt rækilega tekið fram af honum, að það væri meðferð einkamála og opinberra mála í héraði, sem þessi n. ætti að rannsaka og koma með frv. um. Og það var það, sem áreiðanlega vakti fyrir síðasta Alþ., með því að samþ. þá till., sem þá lá fyrir. — Það getur ekki verið ágreiningur um það, að sú löggjöf, sem fjallar um meðferð mála, er fullkomnust að því er snertir hæstarétt. Og ég er þeirrar skoðunar, að þetta frv. hefði því átt frekast að bíða af öllum þeim till., sem þessi n. væntanlega kemur fram með. — ég get ekki heldur neitað því, að þetta frv. stingur dálítið í stúf við þær yfirlýsingar, sem gefnar voru á síðasta Alþ. af hæstv. dómsmrh. og þeim hv. þm., sem þá töluðu á móti frv. um opinberan ákæranda, sem hv. 11. landsk. bar fram. Þá var því borið við, að vegna þess að fyrir lægi að koma fram með till. um meðferð mála yfirleitt, einkamála og opinberra mála í héraði, og þá vitanlega í hæstarétti líka, þá bæri ekki að taka það mál sérstaklega út úr. Nú er þeim hv. þm., sem þetta frv. flytja, kunnugt um það, að frv. um opinberan ákæranda, sem fellt var á síðasta Alþ., snerti nær eingöngu meðferð mála fyrir hæstarétti. Það eru þess vegna slegin úr höndum þessara hv. þm. og hæstv. forsrh. þau rök, sem hann í fyrra færði fram fyrir því, að að ekki bæri að samþ. frv. um opinberan ákæranda. Þessir góðu flokksbræður hans hafa nú sýnt honum fram á, að hann hafði þá rangt fyrir sér, þegar hann taldi ekki nauðsynlegt að samþ. það frv., heldur vildi, að það kæmi fram í þeirri heildarlöggjöf, sem síðar yrði sett.

þegar það er athugað, að einmitt löggjöfin um hæstarétt er að því er snertir allt réttarfar fullkomnust, þá er það ljóst, að þetta frv. er ekki komið fram vegna þeirrar bráðu nauðsynjar, sem er á því að breyta réttarfarslöggjöfinni yfirleitt, heldur er það annað, sem hér liggur á bak við flutning þessa máls, sem sé það, sem áður hefir komið fram hjá þeim flokki, sem stendur á bak við samning þessa frv., að draga hæstarétt undir yfirráð pólitísks ráðh. Það er þess vegna hreinasta blekking hjá hv. 1. flm. þessa máls, þegar hann segir, að aðalbreyt. þessa frv. sé það, að atkvgr. dómenda sé opinber. Það út af fyrir sig er aukaatriði, vegna þess að ágreiningsatriði dómenda er skv. þeim l., sem nú gilda, heimilt að birta og munu iðulega hafa verið birt í hæstaréttartíðindum. Aðalatriði þessa frv. er því ekki það, að atkvgr. skuli vera opinber; aðalatriðið er vitanlega það, að dómsmrh. getur skv. þessu frv. haft frjálsari hendur að því er snertir skipun dómara, bæði fastra dómara og í einstök mál. Mér er í rauninni alls ekki ljóst, hvers vegna flm. þessa frv. gera greinarmun á því, hvort settur er dómari í einstakt mál eða áframhaldandi vegna þess að dómari forfallast eða víkur sæti af öðrum ástæðum. Hv. 1. flm. sagði, að þetta ákvæði væri sett til þess að ekki væri lengur bundið við það, að prófessorar háskólans tækju við, ef losnaði sæti í hæstarétti, heldur gæti dómsmrh. vikið út fyrir þann ramma og sett annan lögfræðing, sem að öðru leyti fullnægði ákvæðum þessara l. til þess að vera dómari í hæstarétti. Ég fæ ekki skilið þetta, vegna þess, að ef það er nauðsynlegt að fara út fyrir þennan ramma í einstökum málum, eins og segir í 3. málsgr. 1. gr., því skyldi það þá ekki vera nauðsynlegt líka, ef um áframhaldandi laust embætti í hæstarétti væri að ræða? Það eru áreiðanlega minni líkur til þess, að nauðsynlegt sé að leita út fyrir lagadeild háskólans, þar sem eru 3 prófessorar, til þess að fá þá setta til að dæma í einu einstöku máli heldur en til þess að sitja áframhaldandi sem dómari, þar til annar er skipaður. Þetta er ekki sett til annars en þess að hafa það opið, ef fyrir kemur eitthvert pólitískt mál, sem þeir flokkar, sem að flutningi þessa máls standa, vilja hafa íhlutunarrétt um, hver niðurstaðan verður, að fara megi út fyrir lagadeild háskólans til þess að skipa dómara í það mál, ef dómari á annað borð víkur sæti í hæstarétti. — ég fæ ekki heldur séð neina nauðsyn á því, að dómsmrh. skuli endilega þurfa að hafa vald á því, hverjir af prófessorum lagadeildar skuli taka sæti í hæstarétti í hvert einstakt skipti. Ég fæ ekki betur séð en að það fari vel á því eins og verið hefir, að þar ráði hlutkesti um. Ég geri ráð fyrir, að í flestum tilfellum séu prófessorar háskólans vel hæfir menn og góðir lögfræðingar, og þess vegna ætti það að vera sama, hver þeirra það væri, sem tæki sæti í hæstarétti, þegar svo bæri undír. — Það er eitt atriði enn, sem gengur í þá átt að veita pólitískum ráðh. möguleika á því að gera upp á milli lögfræðinga að þessu leyti til. Í 1. gr. frv. segir, að dómsmrh. eigi að velja einhvern lögfræðing, eins og þar er nánar tiltekið, „að fengnum till. dómsins“ til þess að taka sæti í hæstarétti. Nú vildi ég gjarnan fá það fram hjá hv. flm. og einnig hæstv. dómsmrh., hvort þetta: „að fengum till. dómsins“, eiga að þýða það, að ekki sé heimilt að setja mann sem dómara í hæstarétt, ef það er ekki í samræmi við þessar till. dómsins. Ég veit það, að hæstv. dómsmrh. mun ljúft að segja sína skoðun á þessu, vegna þess að hann hefir hangið í svipuðu orðatiltæki og fengið dómara til þess að fallast á þá skoðun sína, að svipað orðatiltæki að því er snerti skipun lögregluþjóna hér í Rvík þýddi það, að ekki væri hægt að skipa lögregluþjóna á móti till. lögreglustjóra. Ég vil fá það skýrt fram hjá hæstv. dómsmrh., hvort hann vill skilja þetta ákvæði á þann veg, að ekki sé hægt að skipa dómara í hæstarétt á moti þeim till., sem dómurinn hefir sjálfur komið fram með. — Einnig vil ég í þessu sambandi spyrja hv. 1. flm. og hæstv. dómsmrh., hvort d-liður 2. gr. frv. eigi að skiljast þannig, að ef hæstiréttur leggur á móti ákveðnum manni sem föstum dómara, þá sé dómsmrh. bundinn við það og hafi ekki leyfi til þess að skipa manninn. Ef svo er, þá er í rauninni ekki fellt niður það dómarapróf, sem áður var í l., vegna þess, að þá gildir sú umsögn, sem dómurinn getur. En ef ekki er skylt að fara eftir þessari umsögn hæstaréttar, þá fæ ég ekki séð neina nauðsyn á að leita hennar. Það getur að vísu verið svo í einstaka tilfellum, að dómsmrh. fari eftir slíkri umsögn hæstaréttar, þó hann væri ekki bundinn við hana, en ég geri þó fastlega ráð fyrir því, að ef svo fer, að dómsmrh. setur mann í hæstarétt í þeim tilgangi, að hann skuli síðar verða skipaður dómari, þá muni hann ekki kippa manninum þaðan burtu þrátt fyrir andmæli dómsins, það mun áreiðanlega verða þannig í framkvæmdinni. Ég fæ ekki séð, hver nauðsyn ber til þess að svipta ákvæðinu um dómaraprófið burt úr l. Af hverju má ekki viðkomandi maður sýna það með samningi dóms eða ákveðnum málafjölda, að hann sé fær um að kveða upp dóma? Við skulum taka hér t. d. mann, sem hefir verið skrifstofustjóri í dómsmrn. Hann hefir e. t. v. ekki kveðið upp neinn dóm, en hann hefir látið uppi álit sitt um ýmsa dóma. Ég sé því ekki, að það sé nein trygging fyrir því, að þessi maður sé út af fyrir sig hæfur til þess að semja dóma frá upphafi, jafnvel þó hann gæti sem góður lögfræðingur látið uppi álit sitt um það, hvort ákveðinn dómur væri réttur eða ekki, eða hvort hann sem skrifstofustjóri dómsmrn. teldi rétt að áfrýja áákveðnum dómi eða ekki. Ég hugsa, að ekki geti verið ágreiningur um það milli lögfræðinga, að það er sitt hvað að flytja mál og dæma í máli. Maður, sem hefir verið hæstaréttarmálaflm. nógu lengi til þess að geta orðið hætaréttardómari, getur verið góður lögfræðingur, en það er ekki sönnun fyrir því, að hann sé góður dómari. Og hvers vegna má þá ekki tryggja það, að hæfur dómari fáist, með því að viðkomandi maður skuli ganga undir próf og hinir dómararnir segja til um það, hvort þeir áliti hann hæfan í þetta starf eða ekki? ég álít, að eins og löggjafarvaldinu ber skv. ákvæðum stjórnarskrárinnar að hafa alla starfsmenn hæstaréttar eins óháða umboðsvaldinu eins og mögulegt er, þá sé það hreint brot á þeim anda, sem í viðkomandi gr. stjskr. felst, að veita dómsmrh. þetta vald.

Það er eitt ákvæði, sem ég sé, að ekki er tekið í þessi l., sem þó var sett í fimmtardómsfrv., það, að fimm dómendur skyldu vera í hæstarétti. Þessi lögfræðinganefnd hefir komið með ýms ákvæði til þess að draga úr öryggi því, sem borgararnir eiga kröfu til gagnvart dómsvaldinu, en hún hefir ekki komið með eitt einasta ákvæði, sem eykur það. Ef hv. nm. hefðu komið fram með ákvæði um að fjölga dómendum úr 3 og upp í 5, þá hefði það verið til bóta, og ég vona, að hv. flm., sem báðir eiga sæti í allshn. — en þangað fer málið væntanlega — muni vilja taka upp brtt., sem gengur í þá átt.

Ég skal svo ekki tefja meira fyrir þessu máli, en ég vil endurtaka það, að mér þykir það illa af stað farið af þessari lögfræðinganefnd, sem skipuð var til þess að undirbúa sérstaklega alla málsmeðferð í héraði, að hún skuli ekki hafa komið fram með neitt frv. um það, sem hún var skipuð til, en finna hjá sér skyldu til þess að draga úr því réttaröryggi, sem við þó eigum nú við að búa.