11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

75. mál, hæstiréttur

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég beindi þeirri fyrirspurn áðan til hv. 1. flm. þessa frv. og hæstv. dómsmrh., hvernig þeir skildu þetta orðalag og ákvæði í 1. gr. frv. Ég spurði ekki vegna þess, að ég þættist ekki viss um, hvernig þeir skildu það og myndu skýra, en ég vildi fá því slegið föstu, svo svar þeirra lægi fyrir. Ég taldi hyggilegt af hæstv. dómsmrh. að láta hv. 1. flm. svara fyrst, því það var vitanlega hægara að svara á eftir, en þeir hafa báðir svarað.

Ráðh. neitaði að taka við nokkrum lögregluþjónum, sem bæjarstjórn Rvíkur skipaði án hans meðmæla eða tillagna, þegar hæstv. ráðh. var lögreglustj. Bendir það til þess, að hann taki bókstaflega tilskipunina frá 1872. Ef á að taka þetta bókstaflega um óbrotna lögregluþjóna, að neita að taka við þeim, ætli þá sé síður ástæða í hæstarétti að velja þá færustu menn, sem völ er á? (Forsrh.: Þetta skiptir ekki máli um rétt ráðh.). Ef nauðsynlegt er að beita ákvæðum þessum sem lögreglustjóri, þá ætti það ekki síður að vera nauðsynlegt um jafnmikilsverð mál og setningu hæstaréttardómara, að þar sitji jafnan hinir hæfustu menn. Um tilnefningu ráðh. í dómarasæti tók hæstv. ráðh. það fram, að tilsvarandi ákvæði væri hvergi í erlendri löggjöf hliðstæðri, nema hjá Dönum. (Forsrh.: Þetta er alrangt). En ef honum finnst Danir vera til eftirbreytni, því þá ekki að taka það til fyrirmyndar sem gott er? Mér skilst, að sú eftirbreytni sé skynsamlegri. Hæstv. dómsmrh. sagði, að það mundi erfitt að ganga framhjá vel rökstuddum tillögum hæstaréttar. Það má vel vera, að hæstv. dómsmrh. finnist svo. Ég skal ekki um það segja, en eins og hæstv. ráðh. tók líka fram, þá er það matsatriði. Ég býst við, að hann teldi till. hæstaréttardómaranna vel rökstuddar ef hann sjálfur vildi, koma ákveðnum manni í sætið, og er þá ekkert vafamál, að ráðherravaldinu yrði beitt, og ekki álitamál, á hvern hátt, því að ráðh. á hér að dæma um sín eigin rök annarsvegar.

Hæstv. ráðh. sagði, að próf dómaranna væri dauður bókstafur, það hefði ekki verið notað í 15 ár, sem hæstiréttur væri búinn að starfa. Eftir orðum hans var ómögulegt að skilja annað en þetta væri næstum daglegur viðburður. En síðan stofnaður var hæstiréttur, hefir aðeins verið skipaður 1 dómari — Einar Arnórsson. — Og ég get haft það eftir hvar sem er og staðið við það, að þegar þáv. dómsmrh., Magnús Guðmundsson, skipaði hann í þetta embætti, eftir ábendingu hæstaréttardómaranna, þá sagðist hann álíta, að próf væri með öllu óþarft, þar sem þessi maður hefði þegar sýnt hæfileika og yfirburði í dómsuppkvaðningu, hann hefði dæmt svo marga dóma og hefði það mikla dómarareynslu að baki. Þessi rök þessa hæstv. ráðh. eru því ákaflega velgalítil, að ég ekki kveði sterkara að orði.

Ég þarf ekki að svara hv. 1. flm. mörgum orðum. Honum þótti undarlegt, að ég skyldi vilja, að lögfræðinganefndin hefði fyrst tekið fyrir þær umbætur á réttarfarslöggjöfinni, er snerta meðferð einkamála í héraði. Hann taldi rétt að taka fyrst hæstarétt, því til hvers væri að taka meðferð einkamála í héraði, ef ekki væri nægilegt öryggi í hæstarétti. Hann var að tala um ró í kringum réttinn og frið, sem ætti að vera, en sjálfur gefur hann í skyn, að ekkert öryggi sé í hæstarétti, eða ég get a. m. k. ekki séð, hvernig hægt er að gefa meiri vantraustyfirlýsingu en hann og hans flokksbræður hafa gefið hæstarétti. Slík orð um hæstaréttardóma, sem Framsókn og Alþfl. hafa notað, hefir Sjálfstfl. aldrei látið falla eða viðhaft. (Forsrh.: En prófessoradómurinn?). Það getur greint á um einstaka dóma, en ekki um skipun réttarins.

Það er alveg víst, að lögfræðinganefndin var skipuð til þess að undirbúa sérstaklega breyt. á l. um meðferð einkamála í héraði, sem eru orðin gömul og úrelt á marga lund og þarf að koma í nýtt og betra horf. En það var ekki þörf á að rjúka til og endurskoða lögin um hæstarétt, sem ekki eru eldri en frá 1919, og þá sniðin eftir lögum um hæstarétt Dana, sem ekki er vitað, að hafi verið breytt síðan til nokkurra muna. Það má vel vera, að nefndin hafi ekki getað á svo stuttum tíma undirbúið þá löggjöf, en hægt hefði verið að flytja frv. um opinberan ákæranda, vegna þess að hann verður til, hvort sem skipaðir verða kviðdómar eða ekki, og það þurfti ekki að vera nema lítið frv. og þurfti ekki að koma í bága við önnur lög, hvenær sem þau yrðu sett.

Ég fæ ekki séð, að það komi af neinum þráa, þó menn vilji halda við það, að dómaraprófin haldist. Ég veit ekki betur en að hæstv. ráðh. hafi gengið undir embættispróf, — og mundi hann telja það heppilegra, að menn fengju embætti, ef þeir hefðu setið á skólabekkjunum svo eða svo lengi án þess að taka nokkurn tíma próf?

Það má þá alveg eins fella niður þau ákvæði, að sá, er verða vill málaflutningsmaður fyrir hæstarétti, þurfi að taka sitt próf, eða hafa fengið I. eink. Ég fæ ekki séð annað en það væri fyllilega réttlátt og samræmi í því, að svo væri gert, en þó er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég sé ekki neina ástæðu til þess, að málaflutningsmaður við réttinn þurfi að taka strangara próf eða gerðar séu hærri kröfur til hans en dómaranna. (BJ: Kannske við verðum sammála?). Við verðum ekki sammála, vegna þess að hv. flm. vill ekki, að fulltrúar lögmanns, ráðuneytis eða lögreglustjóra, sem hafa starfað í 5 ár eða lengur, þurfi að dæma 4 mál, áður en þeir geti fengið dómararéttindi, en þeir verða að sækja eða verja 4 mál fyrir hæstarétti til að geta öðlazt réttindi sem hæstaréttarmálaflutningsmenn. Ég fæ ekki séð, hvers vegna á að gera strangari kröfur til þeirra sem málaflutningsmanna en dómara, og það nær vitanlega engri átt, að slík ákvæði sem þessi séu þannig. Það ber öllum saman um, að það sé minni vandi og minni raun að flytja mál fyrir rétti en að sitja í réttinum sem dómari. Það er þess vegna enginn þrái, sem hér liggur á bak við, heldur aðeins skylda, sem hlýtur að hvíla á löggjafanum, að setja sem ströngust ákvæði um það, hvernig menn geti orðið dómarar.

Það er algerlega rangt hjá hv. flm., að ég hafi verið að vega harðlega að Einari Arnórssyni hæstaréttardómara. Í fyrsta lagi er það ljóst af því, að í þeim tveimur höfuðatriðum, sem ég hefi gert að umtalsefni, hefir þessi maður sérstöðu, eins og kemur fram í grg. frv., og eins og hv. frsm. tók sjálfur fram í framsöguræðu sinni. Ég er því Einari Arnórssyni sammála, en ekki að ráðast á hann. Auk þess hefir hvor okkar sem er leyfi til þess að hafa okkar skoðun um einstök atriði. Og þó að ég virði mikils skoðanir Einars Arnórssonar, þá fæ ég ekki séð, að ég mætti ekki líta öðruvísi á lögfræðileg atriði en hann.

Bæði hv. flm. og hæstv. dómsmrh. hafa stöðugt verið að halda því fram, að ákvæðið um opinbera atkvgr. væri höfuðatriði í þessu máli. Nú vil ég benda hv. þm. á það, að eins og þetta ákvæði er í frv., þá er það gerólíkt því, sem áður var í fimmtardómsfrv. Ég vil líka benda á það, að eins og gr., sem um þetta fjallar, er orðuð, þá er nákvæmlega tekin upp starfsaðferð hæstaréttar við uppkvaðningu dóma. Ég veit ekki betur en að það sé regla, að dómarar komi saman að loknum málflutningi til að ræða málið, en einn sé kjörinn til að koma með dómsákvæðið, sem gengur skriflega á milli dómaranna, og þar á skrifa þeir, hvort þeir séu samþykkir eða ekki. Það eina, sem skilur, er það, að samkv. frv. skal birta atkv. þess, sem er ekki samþykkur, en í l. er það aðeins heimild, en hver sem vill getur birt sitt atkv., og hv. flm. veit, að þetta sérákvæði hefir í mörgum dómum verið birt, eins og hver og einn getur sannfært sig um með því að fletta upp í hæstaréttartíðindunum. Þetta er því vissulega ekkert höfuðatriði. Að allt eigi að gerast fyrir opnum dyrum, er heldur ekkert nema slagorð, því að allir dómarar hæstaréttar eru fyrir opnum dyrum að þessu leyti til.

Hv. þm. endaði ræðu sína á því, að lögfræðingan. hefði ekki viljað fjölga dómurunum upp í fimm, af því að það hefði í fór með sér svo mikil aukin útgjöld og þeir væru því mótfallnir að stofna slík ný embætti. Það gengur alveg fram af mér, þegar maður úr þessum flokki er að tala um, að hann vilji ekki stofna ný embætti, hann sem er nú á launum vegna bitlings, sem stj. hefir útbúið með þessari lögfræðingan. Svo rís hann upp og segir, að hér megi ekki stofna ný embætti. (BJ: Ég þigg engin laun). Það verður gaman að sjá þann landsreikning, sem sýnir það, nema hann sé þá eins og hv. þm. S.-Þ., að gefa ríkissjóði hluta af launum sínum. Ég held, að þessir hv. þm. ættu ekki að tala hér um með vandlætingu, þeir sem hafa stofnað tugi nýrra embætta, sem eru öll eða flestöll óþarfari en fjölgun dómara í hæstarétti. Þeir munu ekki fá ámæli alþjóðar, þó að þeir yrðu þess valdandi, að ríkissjóður yrði að borga nokkrum þúsundum meira í þessu skyni til þessara viðbótardómara, sem ættu að vera í sambandi við prófessora háskólans. Ef þeir hefðu fært það fram sem rök, að það væri óþarfi að hafa dómarana fimm, þá væru það rök út af fyrir sig, en hitt eru engin rök hjá þeim, að þeir vilji ekki stofna ný embætti, því að þá fyrst verða þeir sér til athlægis.