19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

75. mál, hæstiréttur

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Sk. er nú búinn að halda hér nokkuð langa ræðu. En sá galli var á ræðu hans, að hún kom ákaflega lítið nálægt málinu, sem var verið að ræða, reyndar ofurlítið í lokin, en framan af voru það bara „filosofiskar“ aths. út í loftið.

Mér er náttúrlega alveg sama, hvað þessi hv. þm. vill deila harðlega á flokksbróður sinn. hæstaréttardómara Einar Arnórsson. En hann var með í samningu þessa frv., og við meðnm. hans gengum yfirleitt inn á þær till., sem hann kom með. Það voru bara tvö atriði, sem hann samþ. ekki, eins og ég hefi tekið fram hreinlega í ræðu minni. Þau álít ég smávægileg og að það stafi af einhverjum pólitískum þráa í þessum flokki, sem hv. þm. V.-Sk. tilheyrir, að hann vildi ekki ganga inn á nein rök um þessi atriði.

Hv. þm. talaði um lýðræðismenn, einveldismenn og ofbeldismenn. Ég skal ekki segja um það, hverjir mundu reynast mestir ofbeldismenn hér á landi, ef þeir færu með stj. landsins. En hitt get ég sagt með góðri samvizku, að ég veit ekki til annars en að þeir flokkar, sem með völdin fara nú, ráði málum sínum á þingræðislegan hátt, með því að nota meirihlutavald sitt til að koma fram málum, sem þeir álíta rétt að koma fram, en um ofbeldi eða einræðisstefnu hefir alls ekki verið að ræða. Ég undrast, að heyra þetta tal af vörum jafngreinds manns og hv. þm. V.-Sk., þótt þingræðisflokkar beiti þingræðisvaldi sínu til að ráða málum. Það er ekki annað en hver einasti flokkur, sem hefir völd, mundi gera, flokkur hv. þm. V.-Sk. alveg eins og aðrir. Hann myndi ekki taka tillit til andstöðuflokka sinna — að svo miklu leyti sem hann áliti það ekki rétt. Og hv. þm. hefir enga ástæðu til að halda fram, að við álítum það ekki rétt, sem við höfum gert —, að við höfum viljað gera það fyrir þjóðina, en alls ekki fyrir okkur sjálfa.

Hann var eitthvað að tala um lögfræðinganefndina, og virtist kenna nokkurs kala til hennar. Ég veit ekki, hvort það stendur þannig á, að honum hafi fundizt réttara að setja sig í þá n. heldur en hæstaréttardómarann Einar Arnórsson. Ekki hefi ég neitt lítið álit á þessum hv. þm., en ég efast um, að hann sé betri maður til þessa starfa en dómarinn. Svo að það er alveg á röngum stað sagt að kvarta undan því, að Sjálfstfl. hafi ekki haft gildan fulltrúa í n. Hann hafði einhvern bezta lögfræðing landsins. (MG: Er hann betri en hv. þm. Barð?). Já, miklu, miklu betur að sér í lögfræðilegum málum en ég. Það dettur mér ekki hug að bera saman.

Hann var að tala um, hvernig lögfræðinganefndin væri til komin. Ég veit ekki betur en skipun hennar sé samþ. af þm. allra flokka. Það kom fram þál., sem var breytt eftir till. hv. 1. þm. Skagf. og samþ. þannig. Það var auðvitað rétt breyt., sem hann kom með, en ég sá ekki, að nokkur mótmælti. Það getur verið, að hv. þm. sé óánægður með það, hvernig í n. var skipað. Ég skal a. m. k. að því er mig snertir ekkert mótmæla, að það hefði kannske verið hægt að fá betri mann og færari en mig til þess. En ég ætla samt að reyna að starfa eftir því, sem mér er mögulegt. Getur verið, að mínir hæfileikar séu ekki nægilega miklir til þess. Og eins og ég er búinn að segja hv. þm., þá dettur mér ekki í hug að bera mig saman við fulltrúa Sjálfstfl., því að hann er langfærastur af okkur öllum, og þurfum við mörg ár til þess að hafa tærnar þar, sem hann hefir hælana. Hitt getur verið, að við höfum pólitískar skoðanir fyllilega sambærilegar við hans.

Hv. þm. taldi, að ekki væri sérstaklega aðkallandi þörf að breyta hæstarétti. Ég get sagt það, hvers vegna við viljum breyta honum. Það er vegna þess, að við höfðum ekki tíma til að undirbúa aðra gerbreytingu á réttarfari landsins. Við tókum hæstarétt af því, að l. um hann eru þannig úr garði gerð, að auðvelt er að breyta þeim. Ég efast ekki um, að hv. þm. hefði farið alveg á sama hátt, að hann hefði reynt að grípa til að breyta því, sem fljótlegast var að breyta og sjálfsagðast, úr því að tími var til þess.

Óþarft er hjá hv. þm. að kvarta yfir, að við viljum ekki verja þetta frv. Þar er engin gr., sem ég er ekki tilbúinn að verja og aðrir samherjar, og hv. þm. má ekki ganga að því gruflandi, að það er sama, hvað hann segir um þetta frv., ég mun alltaf sjá svo til, að hann fái góð og gild svör. Ég álít þetta mál undirbúið af eins mikilli hreinskilni og einlægni og þekkingu eins og við höfum til að bera. Hitt getur verið, að það hafi einhvern galla.

En svo að ég víki að einstökum atriðum, þá skal ég fyrst játa, að ég hefi mikla trú á opinberri atkvgr. Ég álít, að hún sé aðhald fyrir dómarann. Og ég ætla að nefna eitt dæmi, sem mér er dálítið nærstatt, dóminn í bæjarfógetamálinu, þar sem Lárus H. Bjarnason gerði ágreiningsatriði, en let ekki birta það og lofaði engum manni að sjá það. Það var stórpólitískt mál, sem menn greindust um í flokka í landinu, og því sérstaklega óheppilegt, að dómari í hæstarétti skyldi geta skotið sér undan því að segja, hvað hann vildi.

Ég get sagt, hvað ég álít, að hann hafi sagt. Páll Einarsson var herbergisfélagi fógetans og bekkjarbróðir í Kaupmannahöfn, og var kunningsskapur þeirra sem bezt má verða. Eggert Briem mun og standa honum mjög nærri. þriðji maðurinn var — að því er vitað var — ekki vinur hans. Þess vegna verðum við, sem utan við stöndum og viljum gera okkur grein fyrir, hvað ágreiningsatriðið hafi að þýða, að draga okkar ályktanir af þessum aðstæðum. Og ég vil segja, að það sé — og ég veit það er rétt —, Lárus Bjarnason mundi aldrei hafa gert ágreining í þessu máli með þeim dómurum öðrum, sem voru, til vægðar, því að þá hefðu hinir ekki verið á móti, því er þetta alveg rökrétt ályktun, af því að það var vitað, að hann var minnstur vinur þess ákærða af þeim, sem dóminn sátu. Ég veit, að hv. þm. V.-Sk. gengur alveg inn á þennan hugsanagang. Það þýðir ekki, þó að það væri borið út, að hann hafi ætlað að gera ágreining út af refsingunni. Nei, það var sökin. (Forseti: Ég vil biðja ræðumann að blanda sem minnst inn í ræðu sína niðurstöðum, sem rétturinn hefir komizt að). Þetta kemur beinlínis málinu við. (Forseti: Það er óþarft að leiða þetta mál inn í umr.). Já, hæstv. forseti getur hagað sér eins og honum sýnist. Það er enginn vafi, að það er rangt, þegar sonur hins sakfellda heldur fram, að það hafi verið út af sektarákvæðinu, sem dómara deildi á. Deilan hefir verið um sökina, hvort dæma ætti eins og ég dæmdi, — að það væri saknæmt atferli að fara í banka og sparisjóði og taka peninga úr bókum erfingja og halda þeim á vöxtum fyrir sjálfan sig svo og svo mörg ár. Það er það, sem þeir hafa deilt um. Og það er það, sem gerði, að ég ákaflega þvert um geð mitt, varð að dæma manninn.

Ég er bara í þessu tilfelli að benda á dæmi þess, að það hefir komið dálítið leiðinlega niður, þegar einn af dómurum hæstaréttar hefir ekki þorað að birta ágreiningsatriði, sem hann gerði. Það er dautt í bókum hæstaréttar, og menn hafa ekki leyfi til að birta það. En menn hafa a. m. k. leyfi til að draga ályktun og taka tillit til þess, hvernig aðstæðurnar voru.

Hv. þm. sagði, að það væru fyrirfram ákveðin forlög þessa frv. Hvað veit hann um það? Heldur hann sig svo kunnugan innan hinna svokölluðu „rauðu flokka“, að hann viti um það? Hann veit ekkert. Þetta er bara fullyrðing út í loftið. Annað mál er það, að við fylgismenn frv. viljum gjarnan, að frv. nái fram að ganga sem allra fyrst, því að við álítum þannig gengið frá því, að það sé þess vert að samþ. það.

Eins og eðlilegt er af manni úr Sjálfstfl, varð hv. þm. tíðrætt um dómaraprófið og taldi ákaflega illa farið, ef það yrði fellt niður. Við erum alveg á gagnstæðri skoðun um þetta. — Ég álít, að hæstiréttur eigi ekki heldur neitt einræði um það, hvernig á að fylla dóminn, þegar einstakir dómarar forfallast. Ég álít algerlega forkastanlegt, að dómari, sem fyrir aldurs sakir er orðinn óhæfur til að dæma í almennum málum, dæmi, hver hæfur sé til að koma í dóminn. Ég álít, að hæstiréttur eigi ekkert að hafa um þetta mál að segja, heldur eigi það að heyra undir þann mann, sem fer með æðsta valdið í þessum málum, og það alveg án tillits til þess, hvaða stjórnmálaflokki hann kann að fylgja. Það verður finnst mér alveg að eiga það undir drengskap hans, að hann fari samvizkusamlega með þetta vald. Ég fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til þess að svipta dómsmrh. þessu valdi, þar sem hann skipar í öll dómaraembætti landsins.

Hvað snertir ákvæðið um dómaraprófið, þá vil ég benda hv. þm. á, að slíkt þekkist hvergi nema í dönskum og íslenzkum lögum. Er því ótrúlegt, að skilnaðarmaðurinn gamli, hv. þm. V.-Sk., vilji halda þessari fyrirmynd frá Danmörku. Annars er ég sannfærður um, að það er ekki nema af gömlum þráa hjá sjálfstæðismönnum, að þeir vilja endilega halda í þetta úrelta ákvæði um dómaraprófið.

Ég skal þá með fáum orðum snúa mér að þeim brtt., sem komið hafa fram við frv. þetta frá hv. minni hl. allshn. Hin fyrsta er sú, að hafa tvo aukadómendur auk aðaldómendanna, og að þá skuli velja úr lagadeild háskólans. Við þessu hefi ég ekki mikið að segja. Þetta er gamalt ákvæði, sem við framsóknarmenn vildum koma inn í lögin 1932, en fengum eigi fram sakir andstöðu sjálfstæðismanna. Ég held þó, að það sé óþarfi að fara að setja þetta ákvæði inn í lögin nú, vil fyrst sjá a. m. k. hvernig rétturinn klárar sig eftir þessa góðu breyt., sem gerð verður á honum nú, áður en ég tel rétt að fara að íþyngja ríkissjóði með auknum útgjöldum vegna þessara hluta.

Þá er annað atriði, sem ég tel mjög vafasamt, en það er, að forfallist einhver hæstaréttardómarinn eða víki sæti, þá skuli dómurinn velja einhvern af kennurum lagadeildar háskólans eða einhvern meðal málaflutningsmanna, sem fullnægir þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir það að mega taka sæti í dómnum. Inn á þessa brtt. gef ég ekki gengið, því að ég lít svo á, að okkar aðferð, að láta dómsmrh., sem er æðsti maður dómsmálanna í landinu, ráða því í hverju tilfelli, hverja hann velur úr hópi þeirra manna, sem réttindi eiga að fá samkv. frv. okkar til þess að vera dómarar í hæstarétti. Mín skoðun er því sú, að dómsmrh. eigi að vera, eins og hann er nú, æðsti maður dómsmálanna í landinu, og því sé ekki rétt að vera að draga undan valdssviði hans að velja dómara í hæstarétt, þegar þannig stendur á sem hér hefir verið lýst, frekar en aðra embættismenn landsins. Það, sem því hér er um að ræða, er ekkert annað en pólitísk bóla frá hendi sjálfstæðismanna. Þeir óttast nfl., að núv. dómsmrh. verði þeim ekki þægur ljár í þúfu hvað þetta snertir; þeir búast við, að hann muni fylgja fullkomnu réttlæti í þessu, eins og að hann hefir líka gert, og því er í b-lið sömu gr. sett ákvæði um, að það gildi einnig um 1. einkunnarmenn, að þeir þurfi að hafa sýnt yfirburði í fræðimennsku í sinni fræðigrein, eða á annan hátt, ef þeir hafa ekki þau hin önnur skilyrði, sem sett eru fyrir því að geta orðið dómari í hæstarétti. En þetta vilja þeir hv. minnihl.menn fella burt, og það tel ég misráðið, því að þess er t. d. ekki krafizt, að hæstiréttur mæli með 1. einkunnarmönnum, sem þó er gert að skyldu, að sé jafnan gert í öllum málum.

Þá er 3. brtt., sem er við 2. gr. frv. Ég held, að hún sé á misskilningi byggð. Í a-lið 2. gr. frv. segir svo, að þeir, sem hlotið hafi 2. einkunn við lagapróf, geti fengið rétt til dómaraembættis við hæstarétt, ef rétturinn mælir með þeim og þeir hafi sýnt sérstaka hæfileika sem fræðimenn í lögum eða lögfræðilegum störfum. Það nær vitanlega ekki nokkurri átt að setja þetta skilyrði gagnvart 2. einkunnarmönnum, ef það á ekki að ná til 1. eink. manna.

Þá vill hv. minni hl. láta d-lið 2. gr. frv. falla burt. Ég skil hreint ekki, hvers vegna þessir ágætu lögfræðingar vilja ekki fá umsögn hæstaréttar áður en dómaraembætti er veitt.

Fjórða brtt. er við 6. gr. Hún er á rökum byggð; það gleymdist að taka þetta upp í frv. Fyrir þessa lagfæringu vil ég þakka hv. minni hl. — Þá get ég sömuleiðis gengið inn á 5. og 6. brtt. Þær tel ég frekar til bóta.

Þá tel ég mig hafa tekið fram aðalatriði þessa máls, og læt við það standa, fyrst um sinn að minnsta kosti.