17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

Afgreiðsla þingmála

Forseti (JörB):

Ég hefi ekki á móti því, þó þm. kalli eftir málum. En þeir hafa ekki kvartað yfir því, að ekki væri nóg á dagskrá, og heldur hefir mér þótt sem þm. væru ókyrrir í sætum sínum. Það er guðvelkomið að taka fleiri mál á dagskrá, en hvort þau fá afgreiðslu, er á valdi þm. sjálfra, en ekki nema að litlu leyti á valdi forseta. Ýms af þessum málum eru stórmál og nauðsynjamál, sem varða þjóðina miklu, og svo er um þau, sem verið er að afgreiða og taka upp fundartímann. Sum hafa fallið út af dagskrá nú um stund, eins og t. d. mál það, sem hv. þm. N.Þ. var að kalla eftir. Önnur hafa alls ekki verið tekin á dagskrá, sökum þess að meira kapp hefir verið lagt á afgreiðslu annara mála. En sé hv. þm. hugarhaldið og vilji þeir þreyta næturfundi, skal ekki standa í mér; en ég geri þá kröfu til þeirra, að þeir séu stöðugri í deildinni og komi ekki hér rétt eins og þegar kría sezt á stein.