19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

75. mál, hæstiréttur

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hv. dómsmrh. spurði, hvort ég gæti upplýst, að nokkur hefði fallið við hæstaréttarpróf. Mér er ekki kunnugt um, að svo sé. En ég skil ekki, hvernig það ætti að sanna, að hæstaréttarprófið hafi ekki náð tilgangi sínum. Hann gæti eins spurt: Er nokkur vissa fyrir, að lögfræðingar með I. einkunn séu betri hæfileikum búnir en þeir, sem fengið hafa II. einkunn?

Það, sem mestu máli skiptir, er þetta, að ekki er hægt að ætlast til, að í l. standi ákvæði um það, að menn geti orðið hæstaréttardómarar án prófs, þó að þeir verði að ganga undir próf til þess að geta orðið málaflutningsmenn.

Hann sagði, að þessu prófi hefði aldrei verið beitt. Þetta er ekki nema hálfur sannleikurinn. Að því hefir ekki verið beitt, stafar af því, að ekki hefir verið skipaður nema einn maður í þetta embætti síðan ákvæðið var tekið í l. Þessi maður var Einar Arnórsson. En þá lá fyrir hjá dómurum hæstaréttar og þáv. dómsmrh. yfirlýsing um það, að þessi maður hefði þegar dæmt í svo mörgum málum, að það væri næg sönnun fyrir hæfileikum hans.

Hv. þm. Barð. sagði það rangt með farið hjá mér, að hann hefði viðhaft níð um hæstaréttardómara. Ég sé nú ekki, að hægt sé að níða dómara með öðru meira en því að segja, að hann hafi kveðið upp rangan dóm, af því að hann hafi verið vinur sakbornings.