19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

75. mál, hæstiréttur

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Hv. dómsmrh. sagði, eins og áður, að af því að dómarapróf hefði ekki verið notað hingað til, þá væri það ekki einungis óþarft, heldur líka skaðlegt. Og ef það væri einungis óþarft, þá þyrfti auðvitað ekki að leggja slíka áherzlu á að nema það úr gildi. En hann gat hvorugt sannað, enda er í hæsta lagi hægt að segja um þetta ákvæði, að það hafi ekki, enn sem komið er, verið notað. En það getur ekkert sannað um þýðingarleysi eða skaðsemi ákvæðisins. Hv. dómsmrh. veit, að sérstakar ástæður liggja til þess, að það hefir ekki komið til framkvæmda, og þessar ástaður voru þær, að í réttinn voru sjálfskipaðir menn, sem voru sjálfprófaðir. Þá var ekki um aðra dómara að ræða, og þó að þeir hefðu átt að taka próf, þá voru þeir þegar búnir að standast það próf, eins og Einar Arnórsson. Þetta sannar því ekkert. Hingað til hefir ekki þurft á ákvæðinu að halda, en nú þarf á því að halda, því að það kemur að notum sem slagbrandur fyrir þá, sem vilja setja sína menn í réttinn án tillits til alls annars. Þessir menn geta að vísu sagt, að aðrir myndu gera það sama, ef þeir væru í stj. En nú eru það þeir, sem á réttinn hafa ráðizt, en ekki sjálfstæðismenn.

Hæstv. ráðh. sagði, að þeir, sem réttinn skipa, væru sömu pólitískrar skoðunar og við. Ég veit ekki vel um það. En dæmi þeir rétta dóma — og það er ekki langt síðan hæstv. dómsmrh. myndi sjálfur hafa viðurkennt, að dómur þeirra væri réttur —, hvað hefir hann þá við þetta að athuga?

Hann segir, að enginn sé án pólitískrar skoðunar. En hann blandar því saman við það, að taka opinberlega þátt í pólitík. Hlýtur hann þó að sjá, að það er tvennt ólíkt, hvort þessum dómendum er meinað að hafa pólitíska skoðun eða varnað að vasast í pólitík opinberlega.

Hv. þm. Barð. þarf ég ekki mörgu að svara. Ég minntist á dóm hans að gefnu tilefni frá honum sjálfum. Hans mál virtist vera einskonar eintal sálarinnar, harmagrátur hrelldrar samvizku, sem ég mun ekki blanda mér inn í.