05.03.1935
Neðri deild: 20. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

Fyrirspurn um stjórnarráðstafanir

Ólafur Thors:

Mig langar til, utan dagskrár, að beina fyrirspurn til hæstv. stj., en þar sem enginn hæstv. ráðh. er viðstaddur, vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að mér gefist kostur á að leggja þessa fyrirspurn fyrir hæstv. stj., og þá sérstaklega hæstv. atvmrh.

Ég hefi sérstaklega óskað eftir tækifæri til að beina máli mínu til hæstv. atvmrh., en hann hefir ekki sézt hér í þingsalnum, enda mun hann hafa mörgum störfum að gegna. En ég vil nota tækifærið nú, úr því að hæstv. forsrh. og fjmrh. eru komnir á fund, til að vekja eftirtekt á því, að þegar síðasta Alþingi afgreiddi eitt af aðalmálum þess þings, frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, bar meiri hl. sjútvn. fram svofellda rökst. dagskrá:

„Þar eð fyrir liggja umsagnir frá bankastjórum Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands h/f um, að eigi þurfi að óttast stöðvun á útgerð landsmanna eða eigendaskipti umfram venju, vegna skulda, fyrir næstu vertíð, og ennfremur að skuldaskil kæmu eigi heldur til framkvæmda fyrir vertíðina, þó frv. næði fram að ganga, og í trausti þess, að ríkisstjórnin leggi fyrir næsta þing framhaldandi tillögur um viðreisn sjávarútvegsins, þar á meðal tillögur um aðstoð ríkisins til skuldaskila vélbátaútvegsins, er fram fari á næsta ári, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það er vitanlegt, að þó að þessi dagskrártill. hljóði fyrst og fremst um skuldaskilasjóð, þá er hér líka átt við frv. mþn. í sjútv.málum um fiskiveiðasjóð, sem lagt var fram þá á þingi.

Nú eru liðnar þrjár vikur af þingi, en enn hefir ekkert frétzt um, að hæstv. stj. hafi nokkuð gert til að efna heit þau, er hann gaf á síðasta þingi. Hún lofaði að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. um úrlausn þessa vandamáls sjávarútvegsins. Ég skora hér með á þá hæstv. ráðh., sem hér eru viðstaddir, að gefa upplýsingar um, hvar komið sé þessum málum. Ég vona, að þeir geti sagt, að innan skamms verði lögð hér fram frv. í líkingu við það, sem vakti fyrir mþn. í sjútv.málum. Ef ekki er hægt að fá skýr svör, sem gefa tryggingu fyrir, að slík frv. verði lögð fram og að þau verði fullnægjandi, neyðumst við sjálfstæðismenn til að taka upp okkar fyrri frv. og knýja þau fram hér á Alþingi.