22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

75. mál, hæstiréttur

Gunnar Thoroddsen [óyfirl.]:

Í 3. kafla hæstaréttarlaganna, sem er um málflutningsmenn fyrir hæstarétti, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Dómsmálaráðherra getur veitt hverjum þeim, sem er 25 ára gamall, hefir ríkisborgararétt, er fjár síns ráðandi, hefir óflekkað mannorð, leyfi til málflutningsstarfa í hæstarétti, ef hann hefir: 1) Lokið lagaprófi með 1. einkunn. 2) Gegnt málflutningsstörfum að afloknu prófi í 3 ár, annaðhvort á eigin hönd eða í skrifstofu hæstaréttarmálaflutningsmanns sem fulltrúi hans, eða um jafnlangan tíma gegnt embætti eða stöðu, sem lagapróf þarf til. 3) Sýnt með málflutningi 4 mála, og sé eitt þeirra að minnsta kosti opinbert mál, að hann sé að dómi hæstaréttar hæfur til að vera hæstaréttarmálaflutningsmaður“.

Við hv. þm. Mýr. og hv. 6. landsk. höfum borið fram brtt. á þskj. 231 þess efnis, að skilyrðið fyrir lögfræðinga að hafa fengið 1. einkunn við embættispróf, til þess að geta fengið leyfi til að flytja mál fyrir hæstarétti, verði fellt niður. Við teljum þetta ákvæði ranglátt, og því beri að fella það úr lögum. Ástæðan fyrir því, að þetta var á sínum tíma sett inn í lögin, mun fyrst og fremst hafa verið sú, að fá sem bezta málflutningsmenn að réttinum, og ennfremur mun það hafa átt að vera til þess að auka áhuga stúdenta þeirra, sem lögfræðinám stunda, að stunda námið sem bezt og fá sem hæst próf. Þetta eru vitanlega ástæður út af fyrir sig, en það vegur svo margt á móti því að láta þær ráða um svona mikið, að það verður að teljast óhæfilegt ranglæti.

Það er vitanlegt, að við próf ræður heppni of miklu. Góðir námsmenn, sem vel eru að sér, geta komið upp í einhverju smávægi, sem þeir hafa hlaupið yfir að lesa. Sumir geta verið „nervösir“ og tapað sér þeirra hluta vegna, svo þeir fái þess vegna lægri einkunn en þeir í raun og veru eiga skilið. Að láta menn vera alla æfi sína að vinna upp gamlar prófsyndir er ekki rétt, og úr því ranglæti verður að bæta. Það er vitanlegt, að hér á landi eru nokkrir ágætir málflutningsmenn, sem ekki fá að flytja mál við hæstarétt vegna þessara gömlu prófsynda. Það er og þeim mun ranglátara, þegar þess er gætt, að málflutningsmönnum með 2. einkunn var og er leyft að flytja mál fyrir hæstarétti, sem áður höfðu starfað við landsyfirréttinn. Margir þeirra hafa reynzt mjög prýðilega, og eru sumir þeirra jafnvel taldir með beztu málflutningsmönnum við réttinn. Hliðstæð ákvæði þessu þekkjast hvergi gagnvart öðrum stéttum. Guðfræðingar geta t. d. orðið prestar, prófastar og jafnvel biskupar, þó að þeir hafi ekki hlotið nema 2. einkunn við embættispróf, eða aðeins skriðið í gegnum prófin. Sama máli gegnir um læknana. Þeir geta orðið læknar í hverri grein, sem þeim sýnist, og jafnvel prófessorar, hvað sem einkunninni líður. Og sé litið til lögfræðingastéttarinnar sjálfrar, þá er hvergi neitt sambærilegt þessu. Lögfræðingar með 2. einkunn geta komizt í hin ábyrgðarmestu og vandasömustu embætti. Þeir geta orðið bæjarfógetar, sýslumenn og jafnvel dómarar við hæstarétt sjálfan, a. m. k. samkv. frv. því, sem nú er hér til umr. Þegar þetta er nú eins og ég hefi lýst því, hvaða meining er þá í því að halda í þetta úrelta ákvæði gagnvart málflutningsmönnum fyrir hæstarétti?

Það skyldi nú enginn skilja orð mín svo, að ég vilji ekki leggja áherzlu á, að menn fái sem bezt próf, jafnt í lögfræði sem öðrum fræðigreinum, en þetta ákvæði í hæstaréttarlögunum gagnvart málflutningsmönnunum tel ég hafa mjög litla þýðingu til þess að vekja áhuga manna við nám. Við flm. brtt. á þskj. 231 leggjum það til, að þeir, sem hlotið hafi 2. eink. til embættisprófs, þurfi að gegna í 6 ár þeim störfum, sem sett eru sem skilyrði fyrir því að geta orðið málflutningsmenn við hæstarétt. Og ennfremur er enn í gildi ákvæðið um flutning 4 mála við réttinn, sömuleiðis sem skilyrði fyrir því að mega flytja mál fyrir réttinum. Þetta hvorttveggja ætti því að vera nægileg trygging fyrir því, að ekki fengju aðrir en góðir og æfðir lögfræðingar réttindi til þess að flytja mál fyrir réttinum.

Þetta ákvæði um 1. einkunn sem skilyrði fyrir því að geta orðið málflutningsmenn við hæstarétt mun vera einsdæmi í löggjöf annara þjóða. Það mun vera tekið upp í hæstaréttarlögin hér úr dönskum lögum. En nú eru Danir sem óðast að falla frá þessu. Þeir leyfa t. d. málflutningsmönnum við landsyfirréttinn að fylgja málum sínum til hæstaréttar, alveg burt séð frá því, hvort þeir hafi 1. einkunn eða ekki.

Á fundi málflutningsmanna, sem haldinn var hér 18. þ. m., var samþ. að skora á Alþingi að fella þetta umrædda ákvæði úr lögum hæstaréttar. Ég hefi þegar tekið fram, að mér finnst þegar kominn tími til þess, og trúi ekki öðru en hv. dm. séu mér yfirleitt sammála um, að svo sé, og samþ. því brtt. mína.

Hv. 1. landsk. var að tala um, að ekki væri viðeigandi að vera að rýra hæstarétt með því að kvika frá þessum skilyrðum, sem sett eru fyrir því að geta orðið málflutningsmaður við hæstarétt. Mér finnst annað eins og þetta koma úr hörðustu átt, þegar það kemur frá þessum hv. þm., þar sem hann er flm. að frv., sem heimilar að taka menn með 2. einkunn fyrir dómara í réttinn sjálfan.

Hvað snertir brtt. hv. 2. landsk. um að fjölga dómendunum í hæstarétti, vil ég taka það fram, að ég tel rétt að fjölga þeim upp í 5, því að ég álít, að með því sé réttaröryggi landsmanna betur borgið. Ég myndi því fylgja brtt. um að fjölga þeim úr 3 upp í 5, en ekki með því skilyrði, að fjölgunin komi fyrst til framkvæmda, þegar fé er veitt í því skyni í fjárl. Hinu vil ég aftur mótmæla harðlega, sem þessi hv. þm. sagði, að þetta ákvæði myndi verða til þess að auka aðhald að dómendum þeim, sem fyrir væru í réttinum, og til þess væri það líka nauðsynlegt. Þessu mótmæli ég harðlega, og vil taka það fram um leið, að enda þótt ég gæti verið með því nú þegar að fjölga hæstaréttardómendunum í 5, þá felst ekki í því neitt vantraust á réttinum. Síður en svo.