22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

75. mál, hæstiréttur

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Það hafa komið fram nokkrar brtt. við frv. þetta frá því að það var til 2. umr. hér.

Hv. 11. landsk. mælti sérstaklega með brtt. frá sér og þeim hv. þm. Mýr. og 6. landsk., þess efnis, að fellt verði niður skilyrðið um 1. einkunn til þess að geta orðið málflutningsmenn við hæstarétt. Ég get nú ekki glatt hv. flm. með því, að ég telji rétt að samþ. þessa brtt. þeirra. Það, sem fyrir mér vakir, er það, að ég tel ekki rétt, að málflutningsmannastéttin verði illa stödd fjárhagslega, en að svo myndi verða, leikur enginn vafi á, ef hún yrði aukin jafngífurlega og verða myndi, ef allir 2. eink. menn gætu fengið leyfi til þess að flytja mál fyrir réttinum. Eins og nú standa sakir eru nógu margir, sem fást til þess að flytja mál fyrir hæstarétti, og er þeirra hluta vegna því engin þörf að hleypa 2. einkunnar mönnum að. Og það þeim mun síður, þegar þess er gætt, hvernig stendur á nú, að málflutningsmenn hafa yfirleitt misst mikið af tekjum sínum vegna gjaldeyrishamlanna, þar sem þeir fá nú því nær engar innheimtur.

Væri nú horfið að því ráði að breyta þessu umrædda ákvæði hæstaréttarlaganna, sem brtt. á þskj. 231 fer fram á, þá myndu áreiðanlega 6 lögfræðingar, sem ég þekki, bætast í hóp hæstaréttarmálflutningsmannanna. Annars er það nú svo með þessa 2. eink. menn, að sumir þeirra geta verið góðir, en yfirleitt eru þeir mjög misjafnir. Svo misjafnir, að ég leyfi mér mjög að efast um hæfileika sumra þeirra til þess að flytja mál, en þar með er ekki sagt, að þeir hinir sömu séu kannske ónýtari að ná sér í mál til flutnings en þeir, sem betri eru. Mér þykir ekkert undarlegt, þó hv. 11. landsk. leggi töluverða áherzlu á að fá þetta ákvæði um 1. eink. afnumið úr hæstaréttarlögunum, þar sem hann mun hafa tekið að sér að fylgja því fram hér í þinginu. En ég vil bara ekki, að slíkt komi honum, sem mun vera 1. eink. maður, eða öðrum ungum og efnilegum lögfræðingum í koll, og legg því eindregið á móti brtt. hans og þeirra félaga.

Hann sagði, hv. þm., að 1. eink. menn væru ekki yfirleitt látnir ganga fyrir embættum. En þetta er ekki rétt, því að fyrir sumum embættum er beinlínis sett sem skilyrði, að þau geti ekki fengið nema 1. eink. menn.

Þá vil ég leyfa mér að benda þessum hv. þm. á, að það er ekki hægt að bera saman skilyrðin fyrir því að verða hæstaréttarmálaflutningsmaður eða hæstaréttardómari. Ég álít, að skilyrðin fyrir því að geta orðið hæstaréttardómari megi vera miklu minni heldur en til að verða málflutningsmaður. Í hæstarétt komast ekki nema sárfáir menn, en ótakmarkað í hinn hópinn. En ég vil ekki fara að skapa nein varasöm ákvæði í lögum aðeins vegna þess, að meðal einhverra 2. einkunnarmanna kynnu að finnast menn, sem væri ranglátt að útiloka. Það hefir verið gerð dálítil tilraun til þess að bæta úr þessu með brtt. frá hv. 8. landsk. og hv. þm. Snæf., um að veita megi þeim 2. einkunnar mönnum, sem sýnt hafa sérstaka hæfileika sem lögfræðingar, leyfi til þess að þreyta prófraun. Ég held, að það sé réttara, a. m. k. á þessu stigi málsins, að láta það nægja, að þeir menn, sem hafa hæfileika og dugnað og fullnægja að öðru leyti þessum skilyrðum, megi vera jafngildir 1. einkunnar mönnum til hæstaréttarmálaflutningsmannsstarfsins.

Ég vil aðeins geta þess, að hv. þm. minntist á prestana. Hann sagði, að það væri ekki sett að skilyrði með þá, hvort þeir væru 1. eða 2. einkunnar menn. Ég vil benda hv. þm. á, að það er ekki hægt að bera saman presta og málaflutningsmenn, vegna þess að prestarnir eru kosnir af söfnuðinum. Það kemur undir hinum almennu eiginleikum prestsins, hvort söfnuðunum lízt svo vel á hann, að söfnuðurinn vilji kjósa hann. Prófraun sú, sem hæstaréttarmálaflutningsmenn hafa orðið að ganga undir í hæstarétti, getur ekki verið sambærileg við þetta. Þar hefir aðeins verið um það að ræða, hvort viðkomandi maður hafi flutt svo vel fjögur mál, að dómararnir áliti hann hæfan til þess að halda áfram að flytja mál.

Ég get sagt það, þó að það komi í bága við ræðu hv. 11. landsk., að mér hefir verið sagt það af lögfræðingi, að það séu til málaflutningsmenn við hæstarétt nú, sem hafa fengið 2. einkunn og í raun og veru hafa ekki unnið til þess með prófraun að komast þangað, vegna þess að þeir munu hafa fengið hjálp við undirbúning málsins, sem gerði það að verkum, að dómararnir gátu ekki neitað þeim.

Þannig er hægt að fara að fyrir hvern mann, sem vill þreyta prófraun, jafnvel þó að hann eigi að taka dómarapróf. Er þetta ein af ástæðunum fyrir því, að ég hefi fulla ástæðu til að leggjast á móti því, að dómarapróf sé lengur haft í lögum.

Þá ætla ég að snúa mér að brtt. hv. 2. landsk., sem gerir ráð fyrir því, að í hæstarétti skuli oftast eiga setu 5 dómarar. Þar er þó látið koma undir konunglega tilskipun, hvort svo eigi að vera eða ekki. Ég vil ekki beinlínis mótmæla því, að þetta geti í ýmsum tilfellum verið heppilegt, að hafa 5 dómendur. En ég held, að það ákvæði brtt., að dómurum skuli ekki verða fjölgað fyrr en fé er veitt til þess í fjárl., muni verða til þess, sérstaklega á þeim tímum, sem nú eru og búast má við, að verði framvegis, að hv. þm. verði tregir til þess að velta þetta fé. Þetta verður því aðeins dauður bókstafur. Það er nokkurnveginn víst, að ef fjvn. og hæstv. fjmrh. eru í vandræðum með peninga, mundu þau alls ekki finna upp á því að gera það, sem engin lagaskylda býður þeim að gera. Ég held því, eins og gengið er frá brtt., að hér sé um algerlega þarflausa till. að ræða, sem ekki muni a. m. k. í náinni framtíð koma til greina að framkvæma. Þar að auki er þetta að mínu áliti vafasamt, beinlínis með lögum að fjölga dómendum upp í 5. Það er vitanlegt, að í fimmtardómsfrv. 1932, sem ég hafði allmikil afskipti af, vildi ég ganga inn á, að lagakennarar háskólans ættu sæti í dóminum í viðlögum, þegar mikils þætti við þurfa. En við 2. umr. þessa máls, er hér liggur fyrir, var felld till. um að fjölga í dóminum. Ég mun því ekki ganga inn á brtt. hv. 2. landsk., heldur tel ég réttara að láta við það sitja, að dómendurnir séu þrír. En það er eitt, sem þarf að gera, og þarf að ganga fyrir fjölgun dómara í hæstarétti, og það er að bæta kjör hæstaréttardómaranna. Eins og nú standa sakir er mikill fjöldi lögfræðinga, sem hefir miklu betri launakjör heldur en hæstaréttardómararnir sjálfir. Það sér því hver maður, að sá, sem þarf á peningum að halda vegna erfiðra heimilisástæðna, mun ekki vilja setja fjárhag sinn í hættu með því að setjast í helgan stein í hæstarétt. Þetta mundi sennilega ekki koma síður í ljós, ef ætti að fjölga dómendunum upp í 5. Ég vil því ráða hv. þd. til þess að láta við það sitja að hafa 3 dómendur, en reyna sem fyrst að bæta launakjör þeirra, svo að þjóðin þurfi ekki að bera neinn vansa af því, að til þessa starfa veljist menn, sem þurfa að vera á hnotskóg allan starfstímann eftir bitbeinum. Þetta er miklu meira aðalatriði fyrir mér heldur en hvort dómendurnir eru 3 eða 5. Oft er það, að færri menn finna betri ráð heldur en fleiri, þó að stundum komi fyrir, að betur sjái fleiri augu en færri. En það er tvímælalaus skylda Alþingis að búa þannig að þeim mönnum, sem setu eiga í æðsta dómstóli landsins, að það sé engin hætta á, að hinir hæfustu menn geti ekki af fjárhagslegum ástæðum tekið að sér það starf.

Þá hefir hv. 2. landsk. borið fram brtt. við 2. málsgr. 3. gr., um að þóknun til starfsmanna réttarins skuli ákveðin í fjárlögum. Ég þyrfti að fá frekari skýringu á þessari brtt. áður en ég tek afstöðu til hennar. Það má skilja hana þannig, að það sé heimilt að láta hæstarétti í té, að undanteknum ritara, sem er skylt að láta í té, alla þá starfskrafta, sem þörf er á. Þá má skilja þetta sumpart þannig, að með þessu ákvæði í fjárl. sé það bundið, hvað mikla aðstoð megi veita hæstarétti og að skylt sé að fara eftir því. Nú getur auðeldlega í sumum árum verið meiri þörf á aukavinnu en öðrum, og þá getur verið, að fjárl. geri ekki ráð fyrir meiri fjárveitingu en í almennu ári. En ef þetta er meint þannig, að í fjárl. komi áætlunarákvæði um þóknun til þessara starfsmanna, sem dómararnir gætu skipt á milli, eftir því hvaða starf er lagt fram, þá hefi ég ekkert við till. að athuga. En ef það er meiningin að binda hæstarétt með því að velja honum þá hjálp, sem þörf er á til þess að starf ritara geti orðið sómasamlega unnið, þá get ég ekki fylgt till.

Ég vil fylgja frv. eins og það er, og ég vil, að dómurunum sé a. m. k. í þessu tilfelli sýnt það traust, að þeir megi ákveða þóknun til starfsmanna sinna, annara en ritara.

Það hefir nýlega verið sagt, að ég væri ógætinn með að óvirða hæstarétt. Ég hefi þó a. m. k. í þessu atriði gengið skemmra en aðrir. Ég vil nú að lokum segja, að það er alls ekki meining mín, hvorki gagnvart þeim hæstarétti, sem nú situr, eða þeim, sem áður var, að óvirða hann eða hans gerðir. Ég neyddist til þess í einu máli, bara með rökum, að gera aths. við ýmislegt, sem málið snerti. Var það einkum, að tveir af dómurunum voru að mínu áliti þannig settir, að það mátti búast við, að rétturinn hlyti meiri óvirðingu af því, að þeir dæmdu ákveðið mál, heldur en að þeir gerðu það ekki. Ég vildi aðeins benda á þetta atriði, en hitt hefir mér aldrei komið til hugar, að treysta ekki dómurum réttarins til þess að ákveða þóknun til starfsmanna sinna. Ég kæri mig ekkert um að kasta steini að hæstarétti og vantreysta honum í því smæsta. En þeir, sem vantreysta honum í því smæsta, hljóta að vantreysta honum í því stærsta.