22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

75. mál, hæstiréttur

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Þegar mál þetta var til 2. umr., færði ég nokkur rök fyrir því, að löggjafinn hefði árið 1919 reynt að ganga þannig frá hæstarétti, að hann væri sem óháðastur umboðsvaldinu og að við réttinn störfuðu aðeins hæfustu menn. Ég tel, að tvö ákvæði í því frv., sem nú hefir verið samþ. til 3. umr., séu fremur til þess að rýra sjálfstæði réttarins. Ég tel, að þau séu til þess, að dómsmrh. fái aukið vald yfir dómnum, sem þó ekki var tilætlunin, þegar lögin voru upphaflega sett.

Það hefir ætið verið mín skoðun, að það ættu að sitja 5 dómendur í hæstarétti. Við 2. umr. þessa máls bar ég og hv. þm. Snæf. fram till. þess efnis, að í stærri málum sætu 5 dómarar. Tveir af dómurunum áttu að vera prófessorar lagadeildar háskólans. Þetta átti ekki að vera nema bráðabirgðaákvæði, því að þegar fjárhagur ríkisins leyfði, átti að skipa 5 fasta dómara. Þessi brtt. var felld. Nú hefir hv. 2. landsk. borið fram brtt., þar sem hann gerir ráð fyrir, að skipaðir verði 5 fastir dómarar, þó ekki fyrr en til þess verður veitt fé í fjárlögum. Einnig er ákvæði um það, að konunglega tilskipun þurfi til þess að kveða á um, hvenær skuli sitja 5 dómarar og hvenær 3. Ég tel, að þessi brtt. muni vera til bóta, og mun því greiða atkv. með henni. En hinsvegar vil ég taka fram, að eitt af þeim skilyrðum, sem þarf að fullnægja til þess að rétturinn sé sem óháðastur umboðsvaldinu, er, að þeir menn, sem í réttinum starfa, hafi þau laun að þeir geti lifað af þeim, til þess þeir þurfi ekki að leita út fyrir sitt starfssvið um atvinnu og þar með að nokkru leyti að gera sig háða ýmsum kringumstæðum, sem ekki kæmu til greina, ef laun þeirra væru nægileg. Ég hygg, að það sé enginn ágreiningur um, að hæstaréttardómararnir séu þeir embættismenn landsins, sem eiga að hafa góð laun. Um það mun tæpast vera ágreiningur, að þau laun, sem þeir hafa nú, séu óviðunandi lítil. Mér er óhætt að segja, að þegar þetta mál var til umr. í allshn., bar öllum nm. saman um það, að laun dómaranna væru of lág. Bæði ég og aðrir nm. mundu hafa borið fram brtt. til hækkunar á launum þeirra, ef ekki hefði komið tvennt til. Annarsvegar fjárhagur ríkisins og hinsvegar, að það liggur fyrir að ganga frá launum embættismanna yfirleitt, og því eðlilegt, að sú nefnd, sem um það fjallar, komi einnig til að ræða um þessi laun. Það verður einnig að hafa það í huga, þegar þingið setur inn í fjárl. laun til tveggja nýrra dómara, að það verði ekki beinlínis á kostnað þeirra, sem fyrir sitja.

Hv. 11. landsk. hefir ásamt tveimur öðrum hv. þm. borið fram brtt. á þskj. 231. þessi brtt. fer í þá átt að heimila lögfræðingum með 2. einkunn að vera hæstaréttarmálaflutningsmenn, ef þeir að öðru leyti uppfylla skilyrðin, hafa starfað í 6 ár, hafa lokið prófraun, hafa óflekkað mannorð o. s. frv. Hv. 11. landsk. fór um þetta mörgum orðum, og það, sem mér skildist vera aðalrök hjá honum, var í raun og veru það, að það væri sanngjarnt, að þessir menn fengju einnig möguleika til þess að starfa sem málaflutningsmenn við hæstarétt, því að þau tilfelli gætu verið til, að menn hefðu ekki náð 1. einkunn vegna óheppni í prófi. Ég játa, að það getur komið fyrir, en hinsvegar hygg ég, að það muni vera aðalreglan, að þeir lögfræðingar, sem fengið hafa 1. einkunn við próf, séu yfirleitt hæfari til málaflutnings heldur en hinir, þó að frá þessu skuli vitanlega gerð undantekning. En það atriði, sem hv. þm. nefndi, sem sé að nú störfuðu við hæstarétt menn, sem hefðu hlotið 2. einkunn, sannar ekkert í þá átt. Ég ætla ekki að gera neinn samanburð á málaflutningshæfileikum þeirra, sem við réttinn starfa. En ég vil benda á, að þeir menn, sem nú starfa við réttinn sem málaflutningsmenn og hafa 2. einkunn, gera það vegna þess, að þeir hafa áður en lögin um hæstarétt gengu í gildi fengið leyfi til að starfa sem málaflutningsmenn við landsyfirréttinn. Það var vitanlega ekki sanngjarnt að svipta þá menn möguleikum til að starfa sem hæstaréttarmálflutningsmenn, ef þeir höfðu áður leyfi til að starfa sem málaflutningsmenn við þann dómstól, sem áður var, sem sé landsyfirréttinn. Það hefir ætíð verið álitið, að það ætti ekki að semja lög á þann veg, að þau sviptu borgarana þeim réttindum, sem þeir hefðu samkv. eldri lögum. En það hefði vissulega orðið, ef þessir menn hefðu verið sviptir möguleikum til þess að starfa við hæstarétt. Auk þess má benda á, að þeir urðu vitanlega að taka það próf, sem skipað er í lögum. Þetta dæmi, sem hv. þm. nefndi, er því engin rök hér. Það er heldur ekki rétt hjá þessum hv. þm., að það sé ekki farið eftir því við embættaveitingar, hvort umsækjandinn hafi 1. eða 2. einkunn. Hv. þm. nefndi í þessu sambandi presta. En þeir koma þessu ekkert við, af því að þeir eru kosnir. En það mun aldrei gilda önnur regla en sú um embættaveitingar, að einkunnin sé látin ráða að öðru jöfnu. Það getur að vísu komið fyrir, að 2. einkunnar maðurinn sé svo miklu eldri og hafi sýnt sérstaka hæfileika, að það geti vegið upp einkunnamismuninn. En ef tveir jafngamlir menn sækja um embætti, annar með 1. einkunn og hinn með 2. einkunn og hvorugur hefir sýnt hæfileika öðrum framar í sínu starfi, þá mun sá með 1. einkunnina í öllum tilfellum sitja fyrir þeim með 2. einkunnina. Ég vil einnig leiðrétta það, sem hv. þm. Barð. sagði, að þetta gilti ekki um sýslumannaveitingar úti á landi, en það mun einmitt gilda þar.

Það er vitanlega atriði út af fyrir sig, hvort í hópi þeirra manna, sem hafa 2. einkunn, finnist menn, sem rækja sínar skyldur sem hæstaréttarmálaflm. eins og 1. einkunnar menn. Ég get játað, að þess kunni að finnast dæmi, en hitt mun þó vera reglan. Ég vil í þessu sambandi vísa til ræðu þess manns, sem þekkir þessi mál manna bezt, nefnilega dómsforseta Einars Arnórssonar. Hann segir í þingræðu 1932, að málflutningur ráði oft úrslitum mála fyrir hæstarétti. Því að það væri oft haldið þannig á góðum málstað, að hann fengi ekki notið sín, en aftur á móti vel haldið á hæpnum málstað. Málið gæti því legið þannig fyrir dómurunum, að þetta réði úrslitum. Það er því enginn vafi, ef þessi hv. þm. (BJ) vill ekki rýra hæstarétt á nokkurn hátt, má hann engu síður vera því fylgjandi, að sett séu þau skilyrði, að málaflutningsmenn við réttinn séu þeir hæfustu, sem völ er á. Og ég tel, að einkunnaatriðið sé einn þátturinn til þess að tryggja það. Auk þess má benda á hið almenna, sem snýr að háskólanum. Eitt af því, sem hefir verkað í þá átt, að lögfræðingar reyndu að tryggja sér fyrstu einkunn, var einmitt það, að þeir sáu, að þeir gátu ekki komizt að hæstarétti nema að hafa 1. einkunn. Það skal sýna sig, að þeir munu vera fjölmennari tiltölulega, sem hlotið hafa 1. einkunn eftir 1919 en fyrir. Það, sem því hefir valdið, er vitanlega þetta skilyrði í hæstaréttarlögunum. Ég held, að það sé full ástæða til þess með þessu atriði að reyna að ýta undir þá lögfræðinga, sem í háskólanum sitja, að ná sem beztu prófi. Því að yfirleitt er gott próf sönnun fyrir góðri þekkingu.

Svo er annað, sem ég get tekið undir með hv. þm. Barð., og það er, að sízt er ástæða til fyrir löggjafarvaldið að vera að ýta undir, að stétt manna, sem starfar við hæstarétt, verði svo fjölmenn, að þeir, sem við réttinn starfa, geti alls ekki lifað af því starfi. Það er vitanlega með þetta starf eins og önnur, að það má hafa þann hóp svo fjölmennan, sem að því vinnur, að þær tekjur, sem af því hlotnast, verði ekki nægar til þess að viðkomandi menn geti lifað af þeim. Í Danmörku munu ekki vera nema 20 hæstaréttarmálaflutningsmenn. En hér eru þeir 13 eða 14. Ef nú eiga að bætast við svo og svo margir málaflutningsmenn, verður það vitanlega til þess að draga frá möguleikum hinna, sem fyrir sitja. Hitt er að sjálfsögðu rétt, að dugnaður og hæfileikar skapa hlutaðeigandi málaflutningsmanni nóg að starfa. En hvað verður svo um hina? — Ég þarf ekki að benda á, að málaflutnings- og innheimtustörf eru mjög hættuleg í þessu efni. Þessir menn hafa oft mikið undir höndum af annara fé, og ef þeir geta ekki aflað sér sæmilegs lífsviðurværis, taka þeir þetta fé til sinna þarfa. Þannig hefir þetta oft og tíðum farið. Slíkir menn hafa oft grípið til þess óyndisúrræðis að nota sér annara fé, í von um að geta seinna borgað það með starfa sínum.

Ég hefi heyrt á ýmsum málaflutningsmönnum, að þeir standa í þeirri trú, að ef maður geti komizt að hæstarétti, þá séu honum tryggðar ágætar tekjur. Þetta er mesti misskilningur. Þetta próf myndi engan veginn verða nein trygging fyrir slíku. En vonin um þetta verður til þess, að menn gæta sín síður, og hingað til Rvíkur safnast fjöldi málaflutningsmanna. miklu fleiri en von er til, að haft geti hér ofan af fyrir sér. hér skapast þannig öreigastétt, sem er að því leyti verr sett en aðrar, að þessir menn eru oft búnir að notfæra sér annara fé, er þeir höfðu undir höndum.

Ég veit, að aðrar þjóðir, eins og Danir, Norðmenn og Svíar, líta svo á, að hæstaréttarmálaflutningsmenn séu menn, sem treysta megi í fjármálum sem öðru. En það væri bagalegt, ef það sýndi sig, að hér væri ekki hægt að bera fullt traust til þessarar stéttar.

Út af samþykkt þeirri, er gerð var í Málaflutningsmannafélagi Íslands, vil ég geta þess, að sú samþykkt var ekki einróma. Flestir, sem atkv. greiddu með henni, voru 2. einkunnar menn, en þeir vilja eðlilega öðlast þennan rétt, þótt það verði á kostnað annara. Því vil ég taka undir við hv. þm. Barð. um það, er hann sagði um þetta efni.

Ég hefi hinsvegar heyrt á ýmsum hv. þm., að þeim þykir það skortur á samræmi, ef í hæstaréttarl. eru ákvæði um, að maður með 2. einkunn geti alls ekki orðið hæstaréttardómari. Því höfum við hv. þm. Snæf. borið fram till. um, að tilsvarandi ákvæði séu sett í l. um 2. einkunnar menn. Ef slíkur maður hefir sýnt sérstaka hæfileika, á hann heimtingu á þessum rétti. Og hví skyldi ekki lagadeild háskólans vera fær um að dæma um þetta?

Þegar hv. þm. segir, að það sjáist ekki á brtt., hvort maðurinn eigi að fá prófskírteini, þó að hann hafi staðizt prófið, þá er það ekki annað en útúrsnúningur. Lögfræðingur, sem taka vill prófið, verður að fá til þess leyfi hjá dómsmrh. En ef hann hefir staðizt prófið, þarf ekki að taka það fram, að hann á heimtingu á réttinum. En brtt. gengur aðeins út á veitingu leyfis til að þreyta þessa raun.

Ég vil mælast til, að brtt. hv. 11. landsk. og þeirra verði felld„ því að hún miðar að því að rýra rétt, sem löggjöfin á að efla.