30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

75. mál, hæstiréttur

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Þessar umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, hafa snúizt að miklu leyti um sömu atriði og deilt var um í Nd. Hér er að vísu deilt um formsatriði frv., en ég mun ekki fara út í að ræða þau, vegna þess að hv. 2. þm. S.-M. og hv. 4. landsk. hafa haldið þannig á þeirri hlið málsins, að ég sé ekki ástæðu til að bæta við það. Aðeins skal ég geta þess, að það er sjálfsagt að breyta greinatölunni eftir því, sem nauðsyn krefur. Það verður aldrei álitið rangt að gera það.

Hinu, að verið sé með þessu frv. að gera dómsvaldið háð pólitísku valdi, vildi ég svara örfáum orðum. Það er verið að tala um, að með þessum l. sé verið að gera dómsvaldið háðara umboðsvaldinu hér heldur en annarsstaðar, og að við stöndum, vegna þessara ákvæða, neðar en aðrar þjóðir viðvíkjandi skipun þessa æðsta dómstóls í landinu. Þetta er algerlega rangt með farið. Hv. 1. þm. Skagf. hlýtur að vita það, að þessi fyrirhugaða skipun á kjöri hæstaréttardómara er, samkv. upplýsingum frá sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, með nákvæmlega sömu tilhögun og á sér stað í hverju einasta landi Evrópu, sem sendiherrann gat gefið upplýsingar um, nema í Danmörku. M. a. í Svíþjóð mæla l. um þetta efni svo fyrir, að þessum málum skuli skipað nákvæmlega eins og hér er gert ráð fyrir, að dómsmrh. skuli skipa dómara í æðsta dómstól landsins, að fengnum till. þess dómstóls. Því að þótt hér sé talað um, að konungur skipi dómara, þá er það vitanlega gert fyrst og fremst á ábyrgð ráðh., svo að skipun dómsvaldsins, þó að hún verði færð í þetta horf, er nákvæmlega sú sama eins og annarsstaðar í álfunni, að Danmörku einni undanskilinni. Þetta er það sanna í málinu. Vitanlega er dómsvaldið ekki háðara umboðsvaldinu, þó að ráðh. skipi dómara án dómaraprófs. Það veit hver maður og skilur, og hv. 1. þm. Skagf. líka, að dómsvald undirdómaranna í landinu er á engan hátt háðara umboðsvaldinu, þó að þeir dómarar hafi verið skipaðir af ráðh., án þess að legið hafi fyrir till. frá dómstólunum um, að þeir skyldu skipaðir. Þegar þeir dómarar hafa verið skipaðir, eru þeir eftir það algerlega óháðir umboðsvaldinu, svo að það getur ekkert við þeim hreyft. Það má því alls ekki eiga sér stað, að það sé látið ómótmælt, þegar verið er að halda því fram, að verið sé að stefna að því að skerða dómsvaldið með þessu fyrirhugaða fyrirkomulagi. Þetta fyrirkomulag, sem verið er hér að taka upp, er sama fyrirkomulag og nær alstaðar gildir í álfunni. Ákvæðið um opinbera atkvgr. er ákvæði, sem Norðmenn leggja mjög mikið upp úr víðvíkjandi sínum hæstarétti.

Þá kvað hv. 1. þm. Skagf. mikið öryggi fólgið í dómaraprófinu. Á það hefir verið bent, og viðurkennt af honum, að dómarapróf var eðlilega ekki notað, þegar fyrst var skipað í réttinn. Allir þeir dómarar, sem setið hafa í hæstarétti okkar í 16 ár, eru þess vegna, að einum undanskildum, sem kalla má, að tekið hafi próf, skipaðir próflaust í hæstarétt af pólitískum ráðh. Það hefir þess vegna gilt í þessu atriði það fyrirkomulag um skipun hæstaréttar, sem á að taka upp með þessari lagasetningu.

Ef athugað er annarsvegar, hve mikla áherzlu hv. 1. um. Skagf. leggur á gildi dómaraprófsins og hinsvegar, að hann telur hæstarétt hafa verið vel skipaðan síðustu 16 árin, og það vitanlega án dómafaprófs, þá virðist mér rök þessa hv. þm. um þetta atriði velta um sjálf sig. Hæstiréttur hefir verið skipaður af pólitískum ráðh. án prófs, og þannig hefir hann starfað til þessa, svona mætavel.

Um Einar Arnórsson próf. hefir því verið haldið fram, að hann hafi ekki þurft að taka dómarapróf, af því að hann hefði verið búinn að dæma í svo mörgum málum, svo að það hefði verið sama sem próf.

Því hefir verið haldið fram, að með dómara prófi væri fengið nokkurt öryggi fyrir því, að ekki væri tekið tillit til stjórnmálaskoðana um skipun dómara í hæstarétt. Ég get aldrei látið þessu ómótmælt, þegar ég heyri það, að dómarar, sem sitja í hæstarétti, eða hvar svo sem þeir sitja, og ekki koma nálægt stjórnmálum, séu yfirleitt skoðanalausir um stjórnmál. Reynslan er sú, að næstum hver einasti maður í þessu landi, sem kominn er til vits og ára og er jafnvel gefinn og hæstaréttardómari á að vera, hefir myndað sér ákveðna skoðun í stjórnmálum. Og ég vil segja, að þeir menn, sem ekki koma nálægt stjórnmálum með sínar skoðanir, heldur byrgja þær inni, séu oft miklu æstari en þeir, sem standa í stjórnmálabaráttunni og koma í „kontakt“ við andstæðinga, eins og t. d. hér á þingi, og finna góðar hliðar á þeim. Þess vegna geta þær tillögur og þessi próf engu síður orðið lituð af stjórnmálaskoðunum, þó tillögurnar komi frá hæstarétti, heldur en þó þær kæmu frá dómsmrh. Þessu atriði má ekki gleyma, þegar rætt er um þetta mál. Það er atriði, sem ekki má gleyma, að þessir menn eru menn eins og stjórnmálamenn, alveg á sama hátt. Það hefir líka verið bent á, að engar reglur væru til um það í hæstaréttarlögunum, hvernig þessu dómaraprófi skal hagað undir vissum kringumstæðum. Auk þess má benda á, að ef svo færi, að tveir menn færu úr réttinum fyrir aldurs sakir, sem ekki væru lengur fyrir um að taka þátt í störfum réttarins, vegna þess hvað þeir væru orðnir andlega sljóir, þá ættu þessir menn að dæma um, hverjir séu hæfir til þess að taka við af þeim, áður en þeir færu sjálfir úr réttinum. Því hefir að vísu verið haldið fram, að varadómararnir, prófessorar lagadeildar háskólans, mundu taka sæti í stað þessara dómara, og þeir ættu að dæma um það með hinum dómurunum, sem eftir sitja, hverjir væru hæfir til þess að taka sæti í dóminum eftir þá, sem færu úr honum, en gallinn er bara sá, að það er ekki einn einasti stafur í hæstaréttarlögunum, sem bendir til þess, að þau beri að skýra þannig. Þá minntist hv. 1. þm. Skagf. á það, að það væri rangt hjá þeim, sem héldu því fram, að dómstólarnir réðu því, hverjir yrðu dómarar, og sýndi hann fram á það, sem er vitanlega rétt, að dómsmrh. og dómarar þyrftu að vera á einu máli, en þótt hv. þm. héldi þessu fram og færði fram þau rök, að þar af leiðandi réðu dómendurnir því ekki, hverjir yrðu dómarar í hæstarétti (MG: Ekki fremur en ráðh.), þá verður það öðruvísi í framkvæmdinni, eins og ég skal sýna fram á.

Dómarar hafa neitunarvald. Þeir gera tillögur um það, að afloknu prófi, hver sé hæfur til þess að verða hæstaréttardómari. Eins og lögin eru nú, má dómsmrh. ekki veita embættið öðrum en þeim, sem hæstiréttur hefir lagt til, að verði skipaður. Það eina, sem hann getur gert, er að skipa engan dómara í réttinn, en setja mann inn í hann til bráðabirgða meðan samkomulag næst ekki. Þannig geta hæstaréttardómarar haldið dómsmrh. frá því að skipa dómara í réttinn ár eftir ár, unz sá dómsmrh. kemst til valda, sem er sammála réttinum um það, hver skuli hljóta embættið. Þannig verður þetta í framkvæmdinni, þótt það sé að vísu rétt samkv. orðaleik hv. 1. þm. Skagf., að það þurfi að vera samkomulag milli dómsmrh. og dómendanna í hæstarétti. Það er því raunverulega hæstiréttur, sem ræður því, hverjir verða skipaðir sem dómarar í réttinn, því að hann hefir neitunarvald og getur staðið á móti, ef honum sýnist, þangað til sá dómsmrh. kemur, sem er honum sammála um veitingu embættisins.

Ég hefi þá leiðrétt það, sem mér þótti ástæða til að leiðrétta. Ég býst ekki við að ég sjái ástæðu til að taka aftur til máls um þessi helztu atriði, sem deilt er um viðvíkjandi dómaraprófinu, en um þau atriði hefir verið talað mjög greinilega í hv. Nd.