30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

75. mál, hæstiréttur

Ingvar Pálmason:

Ég gæti vel fallið frá orðinu, því að það er lítið, sem okkur ber á milli um formshlið málsins, hv. 1. þm. Skagf. og mér. Mér hefir orðið það á að taka upp aðra gr. heldur en hann í sinni ræðu. Mér finnst það breyta mjög litlu, vegna þess að sú breyt. á greinatölunni, sem hér um ræðir, hefir komið fram löngu áður í frv. Þetta er því ekkert annað en að hengja sig í smámuni, því að það sjá allir, að greinatalan í þessu frv. getur ekki breytt greinatölu laganna, sem um þetta efni gilda. þess vegna hljóta allar tilvitnanir í l. frá 1919 um hæstarétt að standa í frv., en þar sem um nýjar greinir er að ræða, þá er það aðeins röðunin, sem kemur til greina, og það er ekkert annað en verk, sem hver og einn verður að leysa af hendi, sem fellir lögin inn í greinatöluna. Ég man ekki betur en að svipað tilfelli hafi komið fyrir hér á þingi fyrr, og að þingið hafi litið á það sem prentvillu, sem yrði leiðrétt í prentuninni. Þetta getur ekki talizt sá formgalli, að ekki megi afgr. frv. fyrir því, þótt greinatalan kunni eitthvað að breytast.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að svara hv. 1. þm. Skagf. Mér skildist hann leggja sömu merkingu í það og ég, að eftir að búið væri að veita fé í fjárl. til þess að fimm dómarar yrðu skipaðir í réttinum, þá væri sú skipun orðin lögfest og henni yrði ekki breytt nema með lagabreytingu.