06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Kannske forseti vilji nú líka meina mér málfrelsis, af því ég er aðeins óvalinn þingmaður, en ekki ráðherra!

Mér þótti það sannast að segja undarlegur skrípaleikur, sem leikinn var hér af hæstv. ráðh., og þarf ekki mörgum orðum að því að eyða, sem hann sagði. Hann veit það sjálfur mjög vel, að 6% gjaldið var mjög óvinsælt, - svo óvinsælt, að hvorki hann sjálfur, hans flokkur né nokkur annar flokkur þorði að leggja það nema um það fengist samábyrgð allra flokka, og sú samábyrgð fékkst af því að þetta var álitið nauðsynjamál. En gjaldið hefir mælzt illa fyrir og er afaróvinsælt, og af því leiðir það, að hver sá flokkur sem gæti varpað yfir sig heiðrinum af því að hafa afnumið þetta gjald, mundi ná fyrir það miklum vinsældum. En þar sem gjaldið var sett á með samábyrgð allra flokka, bar einnig að létta því af á sama hátt. Hæstv. ráðh. veit og vissi það mjög vel, að Sjálfstfl. var það áhugamal að fá gjaldinu af létt, og að Sjálfstfl. á engu síður en aðrir flokkar frumkvæði að því, að það verði gert. En það var í alla staði eðlilegt og sjálfsagt, að flokkarnir hefðu samvinnu um þetta mál. Eins og flokkarnir stóðu saman um að taka á sig örðugleika og óvinsældir af að leggja þetta gjald á, var eðlilegt, að þeir stæðu einnig saman um hitt, að bera fram frv. um að létta af þessu gjaldi. Yfirlýsing hæstv. atvmrh. um ákvörðun hans og stjórnarflokkanna í þessu efni er ekki annað en tilraun til þess að ná sjálfum sér til handa pólitískri hylli út af þessu máli. Að þetta sé tilgangur hans, hefi ég fyrir mitt leyti ekki séð fyrr en hann lét útvarpa þessari yfirlýsingu sinni. Og ég vil segja hæstv. atvmrh. það, að honum er um megn að skammta okkur sjálfstæðismönnum minni rétt en öðrum flokkum um flutning tilkynninga í útvarpinu. Hæstv. ráðh. hefir engan annan eða meiri rétt til þess að nota útvarpið til þess að tilkynna þjóðinni sínar yfirlýsingar heldur en ég sem form. Sjálfstfl. hefi til þess á þann hátt að tilkynna þjóðinni mínar yfirlýsingar. Þó að hæstv. atvmrh. finni til tignar sinnar, þegar hann talar um annan rétt hinna „óvöldu þingmanna“, sem hann svo kallar, þá vil ég segja honum, að við sjálfstæðismenn lítum ekki með svo mikilli lotningu til ráðherratignar hans, að við viðurkennum, að hann hafi annan og meiri rétt til að tilkynna þjóðinni sínar ákvarðanir heldur en við sjálfstæðismenn okkar ákvarðanir gegnum útvarpið. Það er broslegt, að jafngreindur maður og hæstv. atvmrh. er skuli flaska á því að láta svo bera á yfirlæti sínu út af ráðherratigninni, að hann telji, að hann í þessu efni eigi meiri rétt heldur en Sjálfstfl.

Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur vel, af hverju óánægja okkar sjálfstæðismanna stafar í þessu efni, og líka vissulega, að hann játar í hjarta sínu, að sú óánægja sé eðlileg. Og hæstv. ráðh. veit vel, að þessar afsakanir, sem hann færði fram um það, að hann hafi birt þessa yfirlýsingu á Alþ. og síðar í útvarpinu, hreinsa hann ekki af vansæmd í þessu atriði. Nei! Þvert á móti. Þessi yfirlýsing, sem hann birti á Alþ. og í útvarpinu, var birt í þeim tilgangi, sem ég þegar hefi skýrt frá, og er slíkt ekki réttlætanlegt, svo að ég orði það ekki sterkara.

Ég vil svo aðeins út af ummælum, sem hæstv. atvmrh. lét falla í sambandi við flutning annars frv., sem hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. flytja, segja það, að það er rétt, sem hv. flm. vitna til í grg. frv. og hafa eftir mér. Ég var ekki búinn að tala um það við hæstv. ráðh., að svo eða svo miklum hluta af tekjum áfengisverzlunarinnar yrði varið til þess, sem þessu 6% gjaldi er nú varið til, heldur hitt, að 6% gjaldinu yrði létt af sjávarafurðum, og hæstv. ráðh. tók vel undir það. Ég talaði um þetta við hann löngu áður en hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. komu fram með frv. sitt. Það veit hæstv. ráðh. vel.

Ég vil svo að lokum biðja hæstv. ráðh. að vera minnugan þess í framtíðinni, að við sjálfstæðismenn munum ekki líta á okkur sem neina undirstétt, sem ekki hafi eins mikinn rétt á að birta þjóðinni sínar yfirlýsingar í útvarpinu eins og hæstv. ráðh. Í mínum augum hefir hæstv. atvmrh. ekkert vaxið af sínum ráðherradómi, nema síður sé.