01.04.1935
Efri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

75. mál, hæstiréttur

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Mér finnst ekki alveg óviðeigandi áður en þessu máli er lokið hér í d., að ég segi um það nokkur orð einmitt við suma hv. andstæðinga, sem hér eru, vegna þess að þetta mál í nokkuð stærra formi var hér til umr. í d. fyrir nokkrum árum fyrir mína tilstuðlan. Sá hluti, sem hér er til meðferðar, eru þau atriði, sem þá var barizt fyrir og mest voru aðkallandi.

Að því leyti sem hv. 1. þm. Skagf. minntist á minni háttar formsatriði viðvíkjandi frv., þá leiðir það af sjálfu sér, að þar sem hér er aðeins um bráðabirgðabreyt. að ræða og gert er ráð fyrir, að innan mjög skamms tíma komi aftur ýmsar minni umbætur á frv., þá er fyrir þreyttan að þola að bíða eftir því. Það, sem stj. þótti réttilega við eiga, var að taka kjarna deilumálsins frá 1930—1932 og bera það undir þingið eins og það nú er skipað.

Mig furðar á því, að hv. 1. þm. Skagf. skuli hafa komið fram með sum af þeim rökum, sem hann bæði við þessa umr. og við 2. umr. hefir hreyft, sem sé það, að með þessum breyt. væri verið að gera hæstarétt meira pólitískan heldur en hann hefði verið, þar sem það sé ekki rétturinn sjálfur, sem velji varadómara, heldur dómsmrh. Ég vil skjóta því til hv. þm., að ef hann hefði samþ. frv. 1932, þar sem þetta var ekki, heldur ákvæði, sem hann nú mundi telja réttara, þá hefði hann getað sparað sér þetta óánægjuefni. En af því hann, eins og margir fleiri, var lokaður fyrir hinni stóru nauðsyn að breyta hæstarétti, þá sýnist mér hann ekki geta verið mjög undrandi yfir því, þó umbótakröfur á dómstólunum gangi lengra eftir því sem þjóðin er orðin langþreyttari á því formi, sem valið var 1919 og flokkur hv. 1. þm. Skagf. hefir beitt sér mest fyrir að halda uppi.

Ég ætla ennfremur að benda á það, að enginn maður stendur í raun og veru verr að vígi að tala um þetta atriði, útnefningu pólitískra samherja, heldur en einmitt þessi hv. þm. Það er svo kunnugt, að það þarf ekki um það að tala, en þó verður rétt að tæpa á því, að hv. 1. þm. Skagf. braut þetta sjálfur svo freklega sem framast var unnt, þegar hann valdi sinn nánasta samherja, sinn stuðningsmann á þingi, sem nýbúinn var að hjálpa honum til þess að komast í ráðherrastólinn, í þetta embætti. Þessi maður hafði verið meðráðunautur hans flokks í æsingunum 1931, og þó þetta hafi annars verið merkilegur maður, þá líta allir á hans juridisku skýringar 1931 sem botnlausa vitleysu, sem aldrei eru skoðaðar öðruvísi heldur en flokksplagg, gert af greindum manni fyrir þann flokk, sem hann þá barðist með. Þetta var þá sú aðferð, sem þessi hv. þm. hafði sjálfur, þegar hann var ráðh. og valdi í réttinn. Aftur á móti hafði ég áður en stjórnarskipti urðu leitað til tveggja manna, sem eru utan við alla pólitík, þeirra Ólafs Lárussonar og Sveinbjörns Jónssonar, og reynt að fá þá í réttinn, en hvorugur þeirra óskaði eftir því af ástæðum, sem voru persónulegar fyrir þá. Á þessu sest, hvort það hafi verið meiri ásókn af hálfu framsóknarmanna um að velja pólítíska menn í réttinn heldur en af hálfu þessa hv. þm., því ég hygg, að erfitt sé að tilgreina 2 menn í Reykjavík, sem hafa rétt til að taka þetta embætti, sem eru lausari við það að vera pólitískir baráttumenn heldur en þessir 2 menn, sem ég leitaði til og áreiðanlega mundu hafa prýtt réttinn, ef það hefði hentað þeim að skipta um lífsstöðu. Ef hv. þm. efast um, að þetta sé rétt frá skýrt hjá mér, þá getur hann spurt þessa 2 menn um þetta, og ég hygg, að ég hafi ennþá bréf frá Ólafi Lárussyni, þar sem hann færir fram rök fyrir því, að hann geti ekki tekið þetta embætti að sér, þó hann hinsvegar gæti verið varadómari.

Það er líka annað, sem ég vildi beina til hv. 1. þm. Skagf. Þegar hann kom í stjórnina 1931, þá var Ólafur Lárusson varadómari. Segjum svo, að það hafi verið erfitt að finna ópólitíska menn til þess að taka starfið að sér; ég var nú búinn að reyna við þessa 2 menn, en á hinn bóginn var mér það ljóst, að Ólafur Lárusson var ekki sérstaklega frá því að gegna þessu starfi. Hann gerði mikinn mun á því að vera fyrst og fremst prófessor og grípa við og við inn í hæstarétt, eða vera hæstaréttardómari og skilja við háskólann. En hversvegna er það þá, að um leið og íhaldsmenn fá völdin reka þeir að þarflausu burt þann mann, sem gat sameinað þetta? Hvers vegna reka þeir hann burt? Aðeins til þess að koma að manni, sem nýbúinn var að vera meðráðunautur í því vafasamasta pólitíska máli, sem hér hefir komið fyrir. — Ég hefi aðeins tekið þetta dæmi til þess að sýna hv. þd., hvernig aðstaða þessa hv. þm. og hans flokks er í þessu máli. Hún er sú, að þeir hafa viljað hafa réttinn alveg pólitískan fyrir sig, hreinan stéttardómstól fyrir sig. Þannig er dómstóllinn búinn út frá byrjun. Það var Jón Magnússon, samherji hv. 1. þm. Skagf., sem fól Einari Arnórssyni, flokksbróður sínum, að búa til frv. 1919, sem studdist við hæstarétt Dana að mestu leyti, en ekkert var leitað til annara landa. Inn í þennan dóm setti svo Jón Magnússon 5 menn, sem allt voru pólitískir jábræður hans. Það var náttúrlega ekkert því til fyrirstöðu að láta dómaraprófið, sem nú er lagt svo mikið upp úr koma til greina gagnvart þessum mönnum. Það þurfti ekki að setja það í l., að þeir fyrstu skyldu vera undanþegnir því. Var það til þess, að Jón Magnússon gæti valið sína skoðanabræður í réttinn? Það væri þá í stuttu máli nákvæmlega sama og segja: Jón Magnússon skal veita embætti hæstaréttar um alla eilífð.

En vitanlega var þetta hyggileg flokkspólitík hjá Jóni Magnússyni. Hann réð dóminum, en reyndi undir klóku formi að láta sýnast sem þetta væri réttlæti. Þeir pólitíkusar, sem við þetta fengust, hafa sennilega ekki vitað, að þetta var eins dæmi, að í því eina landi öðru, þar sem þetta fyrirkomulag var, var komin áköf opposition á móti því. Þeir vissu ekki, að í Noregi var þetta allt öðruvísi, og í Svíþjóð er aðeins leitað tillagna réttarins um það, hverjir eigi að skipa réttinn.

Mér finnst, að þessi flokkur, sem hefir haft dómstólinn eins og sitt uppeldisbarn, ætti að viðurkenna, að þetta var ákaflega góð flokkspólitík á sínum tíma. En það hefir verið erfitt að verja, að það væri flokkspólitík, því að rökin eru á móti. Og þess vegna hafa þeir alltaf reynt að fara á bak við þetta eins og einskonar tjald, að rétturinn væri bezt settur með því, að sá andi, sem mótaði hann upprunalega, fengi alltaf að ráða þar.

Þegar Lárus H. Bjarnason var farinn úr réttinum og ég hafði stungið upp á við annan af dómurunum tveim hlutlausum mönnum, Ólafi prófessor Lárussyni og öðrum til — og var þó ekki hægt að segja, að það væri mikil vinátta milli þeirra og mín —, þá valdi dómarinn hvorugan þessara manna, heldur einn af mest lituðu andófsmönnum minnar stjórnar. Þetta benti mér á, að þessi maður, sem er annar af tveim gömlu mönnunum í hæstarétti, væri ekki fíkinn í að fara út fyrir þann vettvang, sem Jón Magnússon setti. Hann virtist hallast að því eingöngu að tilnefna í réttinn pólitíska menn úr sínum flokki. Þó að ýmsir flokksmenn hans, eins og t. d. hv. 1. þm. Skagf., hefðu sætt sig við að fá Ólaf Lárusson, þá vildi nú þessi dómari fá pólitískan samherja sinn.

Í öðru lagi: Þetta er því alveg tilgangslaust fyrir hv. 1. þm. Skagf., að vera að halda því fram, að það sé nokkurt hlutleysi í þessu efni frá hans flokki. Það er hans flokkur, sem hefir skapað réttinn svona, og það er sá flokkur, sem hefir barizt á móti hverri breyt. á réttinum, svo að það hefir verið talin goðgá, að þangað bærist nokkrir nýir straumar.

Morgunblaðið (sem er það eina stöðuga í flokki hv. þm., það eina, sem verulega er hægt fyrir okkur andstæðingana að reiða okkur á og meta, því að það svíkur aldrei sinn málstað, svo að þegar flokkurinn tekur á sig dulklæði, þá þarf ekki annað en að sjá afstöðuna til Morgunblaðsins) hefir nú sagt, út af smámeiðyrðamáli, sem komið hefir fram í vetur gegn því, að nú ætti að fara að breyta réttinum til þess að þeir gætu tapað málinu. Þetta er eitt dæmi um ágæta hreinskilni Morgunblaðsins, því að nú sá það, að því og flokknum gat stafað hætta af svo venjulegu meiðyrðamáli, sem vanalega tapast. Nú sá þessi ágæti útvörður flokksins, að það var ekki víst, að það yrðu til eilífðar þeirra flokksmenn í réttinum, svo að nú var hætta á ferðinni. Það hefir víst verið óvart, að blaðið kæmi þessu upp, en þetta er ekki þýðingarminna fyrir það.

Ég ætla lítið að tala um opinberu atkvgr. Það leiðir af sjálfu sér, að það getur ekki verið heilbrigt, að dómararnir feli sig hver bak við annan. Það er eðlilegt, að þjóðin, sem á dómstólinn, vilji fá að víta, hvernig atkvgr. og rök falla í þessum úrslitadómi landsmanna. Sýnir því fátt betur en andstaðan gegn þessari réttarbót, hvernig íhaldið vill hafa dómstólinn. Og er þá eðlilegt, að ósigurinn, sem hv. 1. þm. Skagf. býst við fyrir sig og samherja sína, þyki þeim tilfinnanlegur, sem barizt hafa á móti hverri nauðsynlegri breyt. og hverri sjálfsagðri menningarumbót á réttinum, því að opinbera atkvgr. þýðir bara það, að rétturinn eigi þann menningarbrag og haldi uppi þeim málstað, að hann þori að kannast við niðurstöður dóma sinna og þurfi ekki að leyna þeim. En hjá þessum mönnum á þetta að vera einhver útkantur á flokksdómstóli, svo að ekki er óeðlilegt, þó að þurfi skúmaskotsaðferðir.

Mér virðist það ekki óviðeigandi, um leið og þetta mál fer nú út úr d. og verður samþ., þó að ég, sem hefi gert meira en aðrir menn til að vekja athygli þjóðarinnar á því, að þessi dómstóll þyrfti breyt. við, reki hér dálítið sögu þessa máls. Fyrsta ástæðan til þess, að ég fór að kynna mér það, var sú, að Björn Kristjánsson gerði árás á Sambandið og gerði skipulagða tilraun til þess að eyðileggja kaupfriðinn í landinu í fyrstu kreppunni eftir stríðið. Lá þá fyrir svo glöggt dæmi um róg á milli verzlana, að það hefir aldrei legið í augum uppi, hvernig rétt væri að dæma í máli, ef ekki þá í máli Sambandsins. En svo þvældist þetta mörg ár fyrir hæstarétti að afgr. málið. Og meðan það var á döfinni, þá veiktist málafærslumaðurinn Björn Kalman af lömunarveiki og gat ekki almennilega haldið sína lokaræðu. En þá voru vissir menn í dóminum svo ósvífnir, að þeir kostuðu allri velsæmi og „chikaneruðu“ þennan heilsulitla málafærslumann og réðust beinlínis á hann eins og á pólitískum fundi. Svo var Björn Kristjánsson dæmdur til að greiða 100 kr. sekt, eins og í venjulegu meiðyrðamáli. En sekt hæstaréttar var svo greinileg þarna, að það var enginn maður í landinu í vafa um, að þetta væri rangur dómur.

Svo vill til, að það er til hér í d. í sama flokki og hv. 1. þm. Skagf. einn af málafærslumönnum þessa bæjar, sem ekki málar hlutina svo skörpum litum og ég mun gera, en dró þó ekki í efa, þegar hann tók að sér mál Tryggva Þórhallssonar, þegar Garðar Gíslason stefndi honum, að Tryggvi hlyti að verða sýknaður, því að sakargiftir voru óendanlega litlar. En hvað gerist? Hæstiréttur snýr við blaðinu á nokkrum mánuðum, sem liggja milli dóma. Hann segir: Það þarf ekki að sannast, að fyrirtæki hafi orðið fyrir skaða, heldur nægir að sanna, að það hefði getað orðið fyrir skaða. Þessi lögfræðingur, samherji hv. 1. þm. Skagf., var hissa á þessari logik. En það skipti ekki svo miklu máli. Þjóðin öll var vöknuð til vitundar um það, hvernig þessi tvo mál voru rekin. Eftir að þessir tveir dómar voru fallnir, þá var hverju mannsbarni ljóst, hvernig hæstiréttur var, að hann var flokksdómstóll. Mönnum var þetta ljóst eftir málið gegn Birni Kristjánssyni, en mönnum varð það enn ljósara eftir 5000 kr. skaðabæturnar til Garðars Gíslasonar. Eftir þessa tvo dóma var það aðeins tímaspursmál, hvenær frjálslyndir menn í landinu segðu: hingað og ekki lengra.

Upp úr þessu var svo farið að vinna að endurbótum á hæstarétti á árunum 1929—1932. Og þetta mál er nú útrætt fyrir löngu. Það er mest fyrir siðasakir, að verið er að deila um það hér. Málstaður hæstaréttar er tapaður fyrir löngu á hans eigin verkum.

Á þeirri vinnu, sem hafin var 1929—1932 til endurbæta á hæstarétti, hefir n., sem nú starfar að réttarfarsmálum, byggt tillögur sínar, og á áliti hennar verða byggðar áframhaldandi endurbætur á réttinum, sem ekki hefir þótt taka að koma fram með hér.

Það er rétt að segja frá því, að þegar flokki hv. 1. þm. Skagf. hafði tekizt að ná einum manni úr Framsfl., Jóni í Stóradal, á sitt band, og þegar Jón kom með fleyg inn í fimmtardómsfrv. hér í d., sem vitanlega varð til að eyða málinu í það sinn, þá kom gamli maðurinn, Björn Kristjánsson, hingað í þingið, settist hér í d., tók þskj., þar sem þessi svikari Framsfl. hafði sett fram till. sínar, og sagði, að þetta væri merkilegasta þskj., sem komið hefði fram lengi. (MG: Það hefir kannske verið rétt hjá honum?). Frá hans sjónarmiði sennilega, og það hefði verið vanþakklæti annað, því að hæstiréttur hafði verið honum góður og þeim, sem lifðu eins og hann. Það fór því ekki leynt, hvernig flokksbræður hv. 1. þm. Skagf. litu á þetta mál. Þeir litu á það sem sigur að geta haldið hæstarétti óbreyttum, eins og þeim tókst á þinginu 1932. Ég veit ekki, hvort þeim þykir það eins þýðingarmikið nú, þó að þeir hafi reyndar fengið marga hlægilega dóma á síðustu árum.

Ég kem nú að dóminum í kollumálinu, sem er einn af síðustu stórfrægu dómum hæstaréttar. En ég ætla þó áður að benda á, að það, sem næst hinum einhliða pólitíska blæ á réttinum hefir verið hans aðalgalli, sem sé það, hvað hann hefir verið gamaldags og menningarlega ófullkominn, verður skiljanlegt af því, hvernig hann var skipaður. Það voru menn úr þeim hópi stúdenta, sem útskrifuðust kringum 1885, lásu síðan í Danmörku, komu svo hér heim og urðu embættismenn í Suðurgötu, fóru ekkert út úr landinu, en einangruðu sig og slitnuðu úr öllu lífrænu sambandi við atvinnulíf þjóðarinnar og þær breyt., sem urðu hér eftir aldamótin. Þeir fóru, eins og ég sagði, lítið úr landi og voru þá líka miður hæfir til að gera sig skiljanlega á alþjóðamálum, ekki af því að þeir væru ógreindari en aðrir menn, heldur af því, að þeir voru aldir upp á þeim tíma, þegar málaþekking var miklu minni en nú er, þegar þessir menn höfðu yfirleitt minna tækifæri til utanfara heldur en dósentar við háskólann hafa nú, sem ekki láta þó vel yfir sinni aðbúð. Í stað þess, að það hefði verið hin fyllsta nauðsyn fyrir dómara hæstaréttar, að þeir hefðu farið utan til næstu landa og reynt þannig að bæta úr einangrun sinni, þá höfðu þeir einhvern veginn ekki auga fyrir því, þessir gömlu menn, og þeir urðu jafnvel mjög framandi fyrir breytingunum hér innanlands. Einn dómari hæstaréttar let sér t. d. um munn fara, að æskilegt væri að geta tekið hausinn af Alþýðuflokksforingjunum. Það er óhugsandi, að sá maður hafi botnað í, að verkalýðsstéttin er ekki alveg þýðingarlaus faktor í þjóðfélaginu, ekki böl eða skaðleg eins og eiturgas. Svona nokkuð segja þó dómarar líklega ekki, nema þegar þeir eru reiðir, en reiðir menn segja heldur ekki svona, nema það hafi sinn undirbúning í hugarfari þeirra. Þessir menn, sem Jón Magnússon hafði valið í réttinn, höfðu aldrei kynnzt nema því gamla. Það var þeim því ekki sjálfrátt, þó að þeir yrðu einangraðir. Það getur verið, að þeir dæmi dóm eins og kollumálið í alvöru eða góðri trú, en þeir sjá þá bara ekki grínið í þessu, þó að aðrir sjái það. Og þó er það ef til vill heiðarlegri dómur en margir aðrir dómar réttarins, enda þótt hann muni vera einna hlægilegastur. Ég býst við, að málafærslumönnum réttarins sé orðið þetta ljóst. Þeir fylgjast nú orðið með í straumum atvinnulífsins, og þeim hefir hlotið að finnast það áberandi, hvað sumir dómararnir eru orðnir utan við lífið. það er því algerður misskilningur hjá hv. 1. þm. Skagf. að halda, að við, sem óskum eftir breyt. á hæstarétti, séum að hugsa um að koma upp flokksdómstól, er eigi að notast sem einhver kvalamaskína á Sjálfstfl.

Þar sem ég hefi beitt mér fyrir, að þessar umbætur kæmust á, og hefi leitað til manna, sem ekki eru flokksmenn mínir, heldur frekar flokksmenn hv. 1. þm. Skagf., þá sýnir það, að það er ekki tilgangur Framsfl. að fá flokksmenn sína í dóminn. Og ég hefi ekki ástæðu til að halda, að núv. stj. hugsi þetta frá svo þröngu sjónarmiði, að það sé tilgangur hennar. Það, sem gat verið snyrtileg framsýni hjá Jóni Magnússyni 1918, er ekki víst, að sé það nú. Þjóðin kærir sig ekki um flokksdómstól, heldur vill hún réttlátan og menntaðan dómstól. Og lífrænir flokkar hafa ekkert við slíkt áhald að gera, sem hv. 1. þm. Skagf. vill hafa hæstarétt. Þó að ég gagnrýni skipun þá á réttinum, sem hv. 1. þm. Skagf. gerði 1932, rétt eftir að hann var orðinn dómsmrh., þá er það ekki af því, að ég sjái nokkurn hlut því til fyrirstöðu, að hann skipaði flokksbróður sinn í þetta embætti, heldur hefi ég gagnrýnt hitt, að hann valdi einhvern pólitískasta flokksbróður sinn, sem hægt var að finna og gat komið til greina. Ég álít þar fyrir, að þetta hafi verið einn bezti flokksbróðir hv. þm., þó hann ynni sér lítinn lögfræðisóma í þingrofsvikunni og eigi lítið hrós fyrir þá framkomu. Ég sé ekkert á móti því að inn í réttinn kæmi framsóknarmaður eða sósíalisti, en ég er bara alveg viss um, að núv. stj. leitar ekki að pólitískustu mönnunum í sínum flokki í þessa stöðu, eins og hv. 1. þm. Skagf. gerði.

Áður en ég lýk við þennan kafla í ræðu minni skal ég víkja að því, að ein af þeim umbótum, sem ég vildi gera, var að hækka laun hæstaréttardómara. Ég hefi fallið frá því, sú barátta var þrálát og dálítið langt undan landi, þar sem ekki er rétt að stuðla að því, að gamlir menn lifi þarna á óeðlilega háum lífeyri. Ég viðurkenni, að dómurunum hefir verið breytni sín að ýmsu leyti ósjálfráð. Það hefir aldrei verið sýnd viðleitni í þá átt af hv. 1. þm. Skagf. eða liðsmönnum hans, að þessir menn gætu haldið lífsfjöri fengið tækifæri til að sjá sig um o. s. frv. Af því hefði getað orðið sú breyt. á hæstarétti, að hann hefði orðið þjóðardómstóll, en hætt að vera flokkspólitískt áhald. Nú er reynt að búa svo um hnútana, að með yngsta dómaranum komi yngri menn, sem kynni sér réttarfar erlendis, og skal ég ekki telja eftir það fé, sem þarf til að viðhalda og auka slíka kynningu.

Ég ætla að minnast á annað mál, sem er að vísu óskylt, en þó nokkuð hliðstætt. Það dettur engum manni í hug, sem vit hefir á bókmenntum, að sr. Matthías hefði getað ort svo sem hann gerði fram á elliár, ef hann hefði alltaf verið kyrr á Akureyri og messað þar yfir sínum fáu sálum. Það dettur engum í hug, að við eignumst eins frægan mann og Matthías var, og jafnáhrifamikinn, nema hann fái tækifæri til að sjá sig um. Ég álít þess vegna, að sú bráðabirgðabreyt., sem hæstv. ríkisstj. fer fram á að verði gerð, muni nú ná samþykki hér í deildinni, af því að hér er nú enginn Jón í Stóradal til að halda í það gamla. (MG: Það eru aðrir ekki betri). Enginn, sem hefir staðið jafnfast á móti því eða lagzt dýpra. Ég lít á þetta sem bráðabirgðabreyt., aðeins byrjun á starfi því, sem á að vera lokið innan ekki langs tíma, að rétta fyrirkomulagið og fullkomna eftir stefnu fólksins eða meiri hl. þjóðarinnar og menningarástandið. Hefir verið reynt að bæta úr verstu ágöllunum á réttinum með frv. þessu.

Ég ætla mér ekki að blanda mér inn í deilu þeirra hv. 1. um. Skagf. og hæstv. dómsmrh. út af því stóra atriði um varadómarakvaðningu, en mér finnst, að eitt af því, sem n. ætti að taka til athugunar sem fyrst, sé uppástunga hæstv. dómsmrh., sem var hæfilegt svar við aths. hv. 1. þm. Skagf., eins og hans fordæmi hefir verið. Þetta frv. gengur aðeins út á það að gera réttinn skýrari og varna því, að málin dragist óhæfilega lengi í meðferð réttarins, en allt þetta o. fl. kemur væntanlega til athugunar hjá þeirri n., sem fjallar um breyt. á réttarfarslöggjöfinni.

Mér finnst það eiga við í þessari umr. að minnast á niðurstöður réttarins í málinu um fuglinn, æðarkolluna, sem aldrei hefir fæðzt og aldrei dáið (MJ: Dó hann ekki af slysi?), því að hann var aldrei annað en skáldskapur, sem hefir gripið inn í okkar líf. Þá er þetta mál samt stórmerkilegt, sérstaklega þegar litið er aftur í tímann um nokkur ár og athugaðar myndir úr réttarfarssögunni. Ef hv. 1. þm. Skagf. athugar það, að þegar honum hafði tekizt með aðstoð samherja sinna að stöðva umbæturnar á hæstarétti, þá kemst hann í ríkisstj. til að setjast á fjársvikamálin við Íslandsbanka. Hann skilur ekki, að þjóðin er enn að greiða fyrir þá glæpi, en ýmsir flokksbræður hans skilja það eins vel og hinir, sem styðja núv. stj., af því að þeir finna það, þeir sjá það á víxlunum sínum og vöxtunum, er þeir greiða af lánum sínum. Ef við athugum, hvað gerðist við myndun fyrrv. sambræðslustj., hver var tilgangur og árangur hennar, þá sjáum við, að hún hefir tekið lán, smálán til að eyða á fáeinum dögum, lán, sem borgað var upp við sameiningu lánanna nú fyrir nokkrum dögum. Hún gat, þessi sambræðslustj., auk þess að viðhalda sukkinu, stöðvað umbæturnar á hæstarétti og veitt þar stöður eftir pólitískum lit. Hún gat stöðvað stærstu glæpamálin og viðhaldið og aukið réttarfarsspillinguna. Þannig var stefna og starf þessarar sambræðslustj., sem m. a. var tekinn í merkisprestur utan af landi, sem átti að vera saklaus. (MG: var hann það ekki?). Jú. það getur verið, en hann spilltist a. m. k. fljótt af samvistunum við þennan hv. þm. í ríkisstj. við munum eftir ofsókninni á hendur Einari á Ægi, sem stóð yfir í mörg ár og endaði á þá hlægilegu leið, að hann var farinn að taka skipin út við ströndina með berum höndunum, skipin, sem landhelgisgæzlan hafði tapað upp að ströndinni.

Það er hægt að taka mál eins og ofsóknina á hendur forstjóra áfengisverzlunarinnar, sem ofsóttur var um langt skeið og borinn þjófnaðarsökum. Gekk það svo langt, að íhaldið kallaði hann um skeið „rummunginn“ í blöðum sínum. Átti hann að hafa stolið frá fyrirtækinu og lagt í flokkssjóð.

Það eru til fleiri mál, sem íhaldið hefir eytt í feiknakrafti, mál, sem sumir íhaldsmenn hafa reynt að kæfa, af því þeir hafa séð, að þau voru flokknum til skammar. Það hefir komið í ljós, að duglegir menn hafa verið ofsóttir og hundeltir eins og villidýr, og jafnvel verið eytt til þess stórfé úr ríkissjóði, eins og t. d. um ofsóknamálið á hendur Pálma Loftssyni, sem var sakaður um að hafa ranga bókfærslu. En sakargiftir þær og rök, sem þessir góðu herrar komu með, voru þær t. d., að í hverju vörpukasti veiddust a. m. k. 500 þorskar, eftir að hafa eytt miklu fé til að ganga gegnum bækurnar og leita að rökunum, þá kom þessi gáfulega röksemd. Bækurnar sýndu, hvað „trollin“ höfðu verið mörg, og svo var reiknað. Þessi reikningur kostaði mikið fé, mörg þús. kr., en enginn fiskur fannst, sem Pálmi hefði stolið. Þessir menn urðu þarna hafðir að „gríni“, og þetta varð þeirra hneyksli, mannanna, sem ekki vildu breyta hæstarétti.

Þá kemur upp fuglsmálið gegn nóv. dómsmrh., mál þar sem búið var að ráða ljúgvitni til að sanna, að dómsmrh. hefði skotið „kollu“. En það vildi bara svo illa til, að vitnin voru alltaf tvísaga, — af því þeir voru að ljúga, bar þeim aldrei saman. Eitt vitnið sagði, að kolluna hefði rekið út á sjó, annað, að hún hefði borizt upp í fjöru, eitt að hún hefði verið blóðug, og annað, að svo hefði ekki verið, o. s. frv. (MJ: voru þetta þá ekki margar kollur?). Þessi málarekstur er alveg einstæður og einkennilegur að því leyti, að hann er útbúinn eins og góður sjónleikur. Ef þetta hefði verið maður, sem ekki var lögfræðingur en gat þó verið jafnvitur og menntaður, t. d. heimspekingur, þá er ekki víst, að hann hefði séð veilurnar, en af því hér átti hlut að máli vanur lögfræðingur og æfður í réttarhöldum, þá sá hann veiku punktana í vitnisburðinum og gat tætt þá sundur. Þeir, sem höfðu hugsað sér að misnota réttinn á þennan hátt, voru því afaróheppnir. Þegar svo þetta mál kemur fyrir hæstarétt, þá sannast, að það er fyrnt, þó svo að um sök hefði verið að ræða, sem alls ekki var.

Ef dómararnir hefðu verið kunnugir úti í heimi og þekkt eitthvað meira en blettinn kringum Suðurgötu, hefði þeim ekki dottið í hug að kveða upp efnisúrskurð í máli, sem var fyrnt. En þeir finna ekki til þess, að þeir eru að gera grín að sjálfum sér og þjóðinni, því þá hefðu þeir aldrei tekið málið upp til dóms. Í fyrsta lagi vegna þess, að upplýst var, að það var fyrnt. Í öðru lagi vegna málatilbúnings, og í þriðja lagi vegna þess, að í slíku máli á ekki að kveða upp dómsúrskurð, en þeir gátu ekki látið hjá líða að kveða hann upp og segja álit sitt, þó málið væri fyrnt. Þeir fara þessa leið eins og ákaflega ómenntaðir og blindaðir menn af flokksofstæki, til að fá einhverja ástæðu til að gefa Mbl. rétt í því, að kollan hefði verið drepin. Það var óhugsandi, að annað fólk en þeir, sem standa að „Stormi“, hefðu gaman af slíkum dómi. Málið var útkljáð um land allt, og það get ég sagt sjálfstæðismönnum til heiðurs og lesendum Mbl., að þeir voru orðnir leiðir á þessu máli og höfðu fyrirlitningu á því. En nú er það svo, að maðurinn, sem átti að drepa, hann fer með undirréttardóminn blaðskellandi í framboð norður í Strandasýslu-hérað, þar sem hann hafði aldrei komið áður. Og þar fellir hann einn vinsælasta og rótgrónasta þm. landsins, sem búinn var að hafa þar þingsetu í 10 ár fyrir kjördæmið. Svona var mikil og almenn óbeitin, sem menn höfðu á dómnum og ofsóknum þessum. Það hefði engum manni verið fært að fella Tryggva Þórhallsson, nema hann hefði eitthvað slíkt á bak við. (MJ: Kollurnar höfðu ekki atkvæðisrétt!). Það voru allir búnir að sjá, nema íhaldskollurnar hér í Rvík, að þetta var óþverramál, og það veit hv. 1. þm. Reykv., fyrrum dósent — ef ég má kalla hann svo — ósköp vel, að þjóðin var búin að dæma sinn dóm, og hún sá, að hér var farið yfir línuna. Hún skildi, að þetta var ofsóknarmál, og eitthvert illartaðasta mál, sem hér hefir verið útbúið. Og það er ekki eingöngu þetta, sem hefir gerzt, að sá, sem var ofsóttur á þennan ósvífna hátt, hefir fellt Tryggva Þórhallsson, og að hann er nú orðinn dómsmrh. landsins, heldur hefir þjóðin líka ákveðið — eftir að Arnljótur litli er búinn að leiða ljúgvitnin og eftir að hæstiréttur hefir sýnt sýna hlið —, að hér þarf að sjá að sér. Þjóðin hefir séð, og hæstiréttur er búinn að sýna það, að Jón sál. Magnússon var skarpskyggn 1919, þegar hann bjó til flokksáhaldið, hann hefir sýnt það, þegar hann fór að gera Stormi og þess háttar fólki þá ánægju að segja, að kollan hafi verið drepin. Ég hefði nú haldið, að þeim væri nóg að sýna karlmennsku sína með því að standa kröftuglega með sínum málstað á kjördegi, en þeir bættu við því eina hugsanlega til að gera réttinn hlægilegan. Eða svo er það a. m. k. frá mínu sjónarmiði, þar sem þeir segja, að kollan hafi verið drepin og það sé óviljaverk, vitnin höfðu sýnt, að málið var allt tilbúningur, og loks var málið fyrnt, svo ekki var hægt að kveða upp dóminn. við verðum að gera okkur ljóst, að þetta er fullkomið grínmál, og með þessu er hæstiréttur að leggja síðasta blómið á leiðið sitt. við lítum svo á, að málið sé fyrnt, segja dómararnir, en við lítum svo á og göngum í þeirri trú inn í eilífðina, að hann hafi drepið kolluna, en það hafi verið óviljaverk. Hvað veit rétturinn um það, hvort það var óviljaverk? Hver veit það, ef ég geng hér út við Austurvöll og hleypti af byssu út í loftið og hitti fugl, — hver getur sagt um, hvort það er óviljaverk eða ekki, að ég drap fuglinn? Annaðhvort hefir hæstv. forsrh. sigtað á kolluna eins og góður veiðimaður og drepið hana, eða hitt, að hann hefir ekki gert það. Þetta munu allir skynsamir menn vera sammála um. Þess vegna er mjög undarlegur sá dómsúrskurður, að hún hafi dáið af voveiflegu skoti, en það hafi verið fyrnt. Til þess að hv. 1. þm. Skagf. skilji betur eða fái einhverja hugmynd um álit þjóðarinnar og hvaða spor þetta mál setur í meðvitund hennar, þá get ég sagt honum, að þetta hefir ekki tilætluð pólitísk áhrif, hans flokki til framdráttar, og a. m. k. hefir yngsta dómaranum verið ljóst, að málið var fyrnt, og það hefði honum sem fyrrv. dómsmrh. líka átt að vera ljóst. Almenningur skilur það, að meiri hl. réttarins reyndi að teygja sig eins langt og hann gat til að sanna sökina, en hann gat það ekki. Hún hafði því illa þessi eitraða ör hv. fyrrv. dómsmrh., þó hátt væri skotið, en þetta ætlast þjóðin ekki til, að hæstiréttur geri. Það er öllum ljóst, sem einhverja nasasjón hafa af menningu hér og erlendis, að þörf er á að bæta hæstarétt, og að þessar breyt. miða að því að sneiða af stærstu gallana. Ég vona, að núv. stj. takist að velja nýja menn í réttinn, sem ekki eru lakari en þeir 2 menn, sem ég ætlaði að fá í réttinn fyrir fáum árum, en vildu ekki taka það þá, — að henni takist að velja menn, sem tekst að hefja réttinn úr því álitsleysi, sem þessir gömlu menn hafa skapað. Ég skal enn taka það fram, að þeir hlutir eru þeim ekki að öllu sjálfráðir. Þeir eru innilokaðir, hafa því stirðnað upp af elli og einangrun umhverfisins. En það skiptir nú ekki svo miklu máli, því sú þjóð, sem nú lifir og starfar, ætlar ekki að láta dæma fleiri kolludóma.