01.04.1935
Efri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

75. mál, hæstiréttur

Magnús Guðmundsson:

Ég er óviss um, hvort ég þarf nokkuð að tala um það mál, sem hér er á dagskrá, a. m. k. talaði hv. þm. S.-Þ. hér um bil ekkert um það, og ég er að hugsa um að hafa sömu aðferð. En ég vildi mælast til þess, að þessi hv. þm. sitji kyrr í sæti sínu meðan ég svara honum og að hann hegði sér ekki eins og þúsund títuprjónar stæðu í óæðri endanum á honum á meðan ég svara honum. Það stendur þannig á, að ég þarf engu að svara hv. 2. þm. S.-M. öðru en því, að mér kemur undarlega fyrir, að hann skuli ekki vilja viðurkenna þessa yfirlýsingu hv. meiri hl. n., sem ég minntist á. Ég er viss um að hv. form. n., sem sagði þetta við mig, að það væri ekki til neins að bera fram neinar brtt., því frv. ætti að ganga fram breytingalaust, mun kannast við það, þó hv. 2. þm. S.-M. vilji það ekki. Að öðru leyti sagði hann, að ekki væri ástæða til að svara neinu af því, sem ég sagði. Það stendur þá ósvarað, og hv. þm. hefir bara talið, að hann hefði engin rök á móti því, sem ég hélt fram.

Þá er nú hv. þm. S.-Þ. kominn í .d. aftur. Hann fékk hér eitt af sínum gömlu kostum, sem eru nú upp á síðkastið að verða fremur fátíð. Hann talaði um alla heima og geima, m. a. mikið um gamla menn. Hann var að benda á dæmi um aðra menn, hvað þeir væru orðnir gamlir. En hvaða dóm hefir hann sjálfur nýlega fengið í þeim efnum. Það hefir nú komið fram einn ungur og efnilegur maður og sagt, að hv. þm. væri orðinn svo gamall, að hann ætti nú að fara að draga sig í hlé. Telur ekki hv. þm., að úr því fram er komin slík krafa, þá eigi hann þegar að verða við henni? Það er að sönnu rétt, að hann verður ekki talinn vera orðinn gamall fyrir aldur fram vegna kyrrsetu, eins og hann sagði um dómarana, því hann tollir hér aldrei á sama stað mínútunni lengur. Það er eins og hann gangi með alla þessa 1000 títuprjóna í rassinum á hverju augnabliki lífs síns. (JJ: Ég held, að ég hafi stungið einhverju af þeim í hv. 1. þm. Skagf.). Mér finnst ég vera nokkuð rólegur, en mig undrar, að hv. þm. skyldi geta sezt þarna niður og setið víst einar tvær mínútur, og ég ætla nú að prófa, hvað hann endist lengi. (JJ: Ef ræðan verður góð). Hún verður ágæt, en ég efast um, að hún verði svo kröftug, að hún yfirvinni þennan ólæknandi sjúkdóm, sem hv. þm. gengur með. (MJ: Hann játar a. m. k., að hann þurfi „stimulans“).

Hv. þm. byrjaði á því, að þessi breyt. á hæstaréttarlögunum væri partur af þeim breyt., sem hann hefði viljað koma á hér um árið. Fór hann mörgum orðum um þarf, hvað málið hefði verið rækilega athugað, og gaf fyrirheit um, að það mundu koma meiri breyt. seinna. Ég held, að það hefði verið hyggilegri vinnubrögð að láta þessar breyt. bíða og taka málið í einu til þeirrar gagngerðu meðferðar, sem hv. þm. álítur þörf á.

Ég gat ekki skilið hv. þm. öðruvísi en að hann væri mér sammála um, að breytingin á 2. gr. væri til ills, því hann sagði, að ég hefði komizt hjá því að samþ. hana, ef ég hefði samþ. frv. hans 1932, þegar Jón í Stóradal gerði uppreisnina móti þessum hv. þm. Hv. þm. S.-Þ. gaf, að því er mér skildist fyrirheit um, að þetta óhafandi ákvæði 2. gr. ætti að hverfa aftur við næstu endurskoðun á hæstaréttarlögunum. En hann sagðist vel skilja, að hæstv. dómsmrh. hefði viljað koma þessu inn í lögin til þess að hefna sín á mér, af því að ég setti Einar Arnórsson í réttinn. Þessi skipun Einars Arnórssonar í réttinn varð hv. þm. tilefni til langra umr. og það merkilegasta er það, að hann er í öðru orðinu alltaf að lasta mig fyrir hana, en í hinu orðinu viðurkennir hann, að þessi dómari sé ágætlega til starfsins fallinn. Og ef hann álítur það eitt aðalskilyrðið fyrir því að geta verið góður dómari, að hafa farið oft til útlanda, þá uppfyllir Einar Arnórsson það skilyrði, jafnvel eins vel og hv. þm. sjálfur, sem alltaf er blaðskellandi til útlanda. Annars skal ég taka það fram, þó óþarft sé, að ég átti ekki upptökin að skipun Einars Arnórssonar í hæstarétt, heldur rétturinn sjálfur. Rétturinn óskaði fyrst eftir Ólafi Lárussyni, sem hafði lengi verið í réttinum, en hann neitaði. Það kom fram í ræðu hv. þm., að hann hafði beðið Ólaf Lárusson að taka sæti í hæstarétti, og hann neitað honum líka. Ég skal ekkert segja um það, hvorn þessara manna rétturinn vildi heldur; til þess kom ekkert, úr því Ólafur neitaði, en að honum frágengnum var það Einar Arnórsson. Og álítur hv. þm. S.-Þ. að ég hefði átt að hafna Einari Arnórssyni af því hann er flokksbróðir minn. Önnur ástæða gat ekki verið fyrir hendi, úr því hann er ágætur dómari samkv. eigin játningu hv. þm. Nú hefi ég gaman af að sjá, þegar núv. valdhafar fara að skipa í réttinn, hvort þeir kasta sínum mönnum fyrir það eitt, að þeir eru flokksbræður þeirra. Það er held ég af öllum vitað um Einar Arnórsson, að það er enginn maður til á þessu landi, sem er eins vel menntaður lögfræðingur eins og hann, ekki einungis í íslenzkum lögum, heldur og í löggjöf annara þjóða, því hann hefir hvað eftir annað farið til útlanda til þess að setja sig inn í réttarfar og löggjöf erlendra þjóða. Þó hv. þm. S.-Þ. sé allur af vilja gerður til þess að skjóta að mér pólitískum örvum fyrir þessa veitingu, þá verða þær á hans boga algerlega bitlausar, því hann kemst ekki hjá því að viðurkenna í öðru orðinu hæfileika þessa manns og hæla honum fyrir dómarahæfileika hans. Svo var hv. þm. að finna Einari Arnórssyni til foráttu eitt lögfræðisverk, sem hann hefði unnið, lögskýringuna út af þingrofinu 1931. Sjálfur sagði hv. þm., að þetta væri vafasamasta pólitíska atriðið, sem komið hefði fyrir á seinni tímum. Ef svo er, þá held ég, að hv. þm. S.-Þ. sé ekki til þess borinn að taka sér einræðisvald um það, hvað sé rétt í því efni, því allir þekkja það, að hans dómgreind er gersamlega rugluð af pólitískum æsingi. Hann getur aldrei litið á nokkurt mál nema frá pólitísku sjónarmiði og gegnum sín eigin pólitísku gleraugu. Hann lítur á hvern mann eftir því, hvar hann stendur í pólitíkinni; ef hann er með honum, þá er hann ágætur, en sé hann á móti honum þá er hann alveg djöfullegur. Maður eins og Jón í Stóradal er þar gott dæmi. Hv. Um. dáði og dásamaði hann á alla lund meðan hann var í hans flokki, en nú síðan hann sneri baki við honum, telur hann Jón verri en fjandann sjálfan og að hann hafi fallið dýpra en nokkur annar, eftir því sem hv. þm. sagði í ræðu í dag. Maður, sem kveður upp slíka dægurdóma, á ekki skilið, að tillit sé til hans tekið. Sá, sem ekki kinokar sér við að fara þannig að, hann er ekki dómari, hann hefir ekki þann hæfileika, sem þarf til þess að líta óhlutdrægt á mál. Og hv. þm. S.-Þ. hefir aðeins eitt sjónarmið og það er: hvernig kemur mér þetta? Ef maður eða málefni er á móti honum, þá er það illt, — ef það er með honum, þá er það gott. Svona hefir þetta ætíð verið; hann er einsýnasti og hlutdrægasti maður, sem nokkru sinni hefir við stjórnmál átt hér á landi. Það situr því illa á honum að vera að bera hlutdrægni á aðra.

Hv. þm. sagði, að þegar ég hefði orðið dómsmrh. 1932, þá hefði ég byrjað með því að bola Ólafi Lárussyni út úr hæstarétti. Þetta er rangt. Ég skipti mér ekkert af því, beið bara eftir till. frá réttinum. Og mig minnir, að Ólafur Lárusson lýsti því yfir við réttinn, að hann óskaði eftir að vera laus þaðan, því hann þyrfti að fara að fást við annað starf, mjög umfangsmikið. Hygg ég, að hann hafi borið við lögbókarsamningarstarfinu.

Svo segist hv. þm. hafa farið til annars manns til þess að reyna að fá hann til þess að fara í réttinn, Sveinbjarnar Jónssonar, en hann vildi það ekki heldur. Var þá hv. þm. alveg uppgefinn við að fá mann í réttinn? Ég get vel ímyndað mér, að honum hafi ekki fundizt fýsilegt að fara til fleiri manna, eftir að hann var búinn að fá nei hjá þessum báðum; ég skil vel ástæðuna fyrir því.

Þá ræddi hv. þm. mjög mikið um skipun Jóns heitins Magnússonar í réttinn í byrjun, árið 1920, og lagðist þar svo freklega á náinn, að ég verð að reyna að taka dálítið málstað þessa ágæta, gamla starfsbróður míns, sem nú er látinn fyrir löngu. Ég vil í því sambandi benda á það, að þeir menn, sem hann skipaði í réttinn, voru fyrst og fremst þeir þrír menn, sem höfðu verið yfirdómarar áður. Ekki hafði hann ráðið, hverjir það voru. En hverjir voru það svo, sem hann setti að auki í réttinn? Það voru þeir Lárus H. Bjarnason og Páll Einarsson. Um þessa menn er það að segja, að þeir voru ekki flokksmenn Jóns Magnússonar, svo hv. þm. fer þar alveg með rangt mál. Það er vitanlegt, að árið 1913 skildu algerlega leiðir með þeim í pólitíkinni, Jóni Magnússyni og Lárusi H. Bjarnason. Páll Einarsson var aftur aldrei fylgismaður Jóns Magnússonar. Ég sé því ekki, að skipun Jóns Magnússonar í hæstarétt hafi haft nokkurn pólitískan blæ á sér. En ef þessir menn hefðu verið skipaðir í réttinn í pólitískum tilgangi, hvað sannaði það? Jón Magnússon gat ekki fengið till. annarsstaðar að, og það var ekki hægt að hafa dómarapróf, því það var verið að skapa réttinn að nýju. Upp af þessu segir hv. um. S.-Þ., að hafi sprottið pólitískur réttur. En því vill þá hv. þm. halda framvegis því fyrirkomulagi, sem hann sjálfur telur, að hafi gefizt svona illa? Hann segir, að þegar ráðh. hafa skipað í dóminn, þá hafi þeir gert það hlutdrægt, en þó vill hann, að ráðh. einir hafi vald til að velja dómara. Hvaða samræmi finnst nú hv. þm. í þessu? Svona fer nú fyrir honum, ef hann er flengdur með sínum eigin vopnum, sem hann ætlar að nota á okkur andstæðinga.

Þá talaði hv. þm. S.-Þ. mikið um Mbl., eins og hann er vanur, þegar hann fer í þennan æsing og heldur þessa ræðu, sem eiginlega er alltaf sú sama. Mbl. er hjá honum setið ofarlega á blaði. Nú sagði hann, að það stæði eins og klettur úr hafinu og væri, að mér skildist, bezta blað. En í ræðu hér í vetur, sem liggur óprentuð enn, man ég, að hv. þm. sagði, að Mbl. hefði snarsnúizt um sjálft sig á einum degi, af því að ég hefði borið eitthvað ofan í það austur í Ölfusi. Svona hagar nú hv. um. sér, talar eftir því, sem á honum liggur í hvert skipti, hvort sem nokkur fótur er fyrir því, sem hann segir, eða ekki.

Þá vík ég að ákvæðum frv. um ágreiningsatkvæði dómaranna. Ég hefi ekki haft neitt á móti þeim ákvæðum, en ég verð að leiðrétta dálítið það, sem hv. þm. sagði þar að lútandi. Hann hélt því fram, að það ætti að vera opinber atkvgr. í réttinum. Hvar stendur það í frv.? Hv. þm. verður að þegja og horfa í gaupnir sér, því það stendur hvergi þar. Það, sem stendur í frv., er það, að fyrst er leynileg ráðagerð á milli dómaranna, og ef þeir koma sér saman, þá búa þeir til sameiginlegan dóm, en séu þeir ekki sammála og skiptast í 2 eða 3 hluta, þá býr hver hluti til sinn dóm, sem síðan er birtur í dómasafninu. Það getur vel verið, að hv. þm., sem yfirleitt þekkir lítið inn í þessi mál, haldi, að ekki séu til skjalfest í hæstarétti þau ágreiningsatriði, sem þar hafa orðið. En þau eru auðvitað til. Það eina, sem nýtt er í þessum ákvæðum, er það, að birta á ágreiningsatriðin í dómasafninu. Við það hefi ég ekkert að athuga, og ég veit ekki til, að nokkur úr Sjálfstfl. hafi nokkuð haft við það að athuga. Það er því ekki til neins fyrir hv. þm. S.-Þ. að flagga með þessu sem einhverri stórfelldri siðabót í dómsmálum hér á landi.

Annars var þessi ræða hv. þm. S.-Þ. svo löng, að mér dettur ekki í hug að reyna að svara henni orði til orðs, enda var hún ekkert um það mál, sem fyrir liggur. En ég get ekki látið hjá líða að benda á, hversu ósvífinn hv. þm. getur leyft sér að vera í garð hæstaréttar, þegar hann heldur því fram, að rétturinn hafi á meðan á réttarhaldi stoð verið að „chikanere“ ákveðinn málaflutningsmann, af því að hann hafi fengið lömunarveikina og því átt erfitt með að flytja málið. Svona dónalega ósvífni hefi ég sjaldan heyrt borna fram á Alþingi. Ég veit ekki, hvað hv. þm. hefir fyrir sér í þessu. En það, sem ég get ímyndað mér, að hann hafi tekið fyrir „chikaneri“, er það, að dómararnir beina oft spurningum til málaflutningsmannanna, sem hver málaflutningsmaður verður að vera viðbúinn að svara. Það getur hugsazt, að í þessu tilfelli hafi málaflutningsmaðurinn átt erfiðara með að svara af því hann var veikur. En að rétturinn hafi borið fram spurningar til þess að „chikanere“, því vil ég mótmæla, því eftir minni þekkingu á hæstarétti hefði engum dómaranna getað dottið slíkt í hug. Hann segir, að dómur í máli Sambands ísl. Samvinnufélaga hafi orðið til þess, að hann tók sér fyrir hendur að endurskoða alla löggjöfina um hæstarétt og leggja til, að gerðar yrðu breytingar á henni, eins og hann fór fram á við þingið 1932. Ef þetta hefir verið ástæðan fyrir endurskoðun laganna. þá má segja, að ávöxturinn hafi verið svipaður tilefninu. Annars tíndi hv. þm. upp marga dóma, sem hann taldi sig ekki ánægðan með. þetta sýnir ekki annað en að sá dómari, sem dæmir eins og þessi hv. þm. vill, er í hans augum góður dómari, en sá dómari, sem dæmir ekki að hans skapi, er slæmur dómari. Þetta kemur líka alveg heim við hlutdrægni hans í skoðunum, svona almennt. Þessu til sönnunar má líka minna í það, að lögmaðurinn hér í Reykjavík, sem þessi hv. þm. einmitt skipaði í embættið, dæmdi eitt sinn dóm, sem hv. þm. var illa við, og þá rauk hann upp til handa og fóta og skrifaði óbótaskammir í blöð sín um dómarann. Ég segi því eins og er, að ég get ekkert tillit tekið til dóma og álits manns eins og hv. þm. S.-Þ., manns, sem ég um fleiri ár hefi þekkt hér á Alþingi og víðar að því að vera allra manna hlutdrægastur í dómum sínum um menn og málefni. Það er hreint og beint hlægilegt, að maður eins og þessi hv. þm., sem er miklu ófróðari í lögum en búast mætti við, skuli setja sig á þann háa hest að rjúka upp með rogaskammir um dómarana við hvern þann dóm, sem fellur og eitthvað brýtur í bága við skoðanir hans. Að þjóta þá jafnan með ritræpu í blöðin, eins og venja hans er, sýnir aðeins, hve algerlega hann er sneyddur allri sjálfs„kritik“.

Það var eitt í ræðu þessa hv. þm., sem var rétt, en það var það, að hann eignaði sér þetta mál, taldi það sitt eigið afkvæmi. Þó var auðheyrt, að hann var ekki ánægður með það, taldi ekki allt fengið með því, sem hann vildi fá, og lofaði því endurbótum síðar. Að þær endurbætur verði honum einum líkar, þarf tæplega að efa, því að fjórðungi bregður jafnan til fósturs.

Það er vitanlega engin ástæða til að ræða hér persónulega um dómendur hæstaréttar, eins og hv. þm. lét sér sæma að gera. Hann sagði, að þeir væru menningarsnauðir og óþroskaðir, færu aldrei utan til þess að afla sér frekari menntunar og viðsýni. Í stað þessa héldu þeir sig oftast hér suður á Suðurgötu. Hvers vegna þeir eiga sérstaklega að halda sig þar, veit ég ekki, a. m. k. er mér ekki kunnugt um, að þeir búi þar suður frá. Þegar svona langt er gengið í því að rægja menn persónulega, þá er djúpt sokkið í rógi og mannlasti. Enda munu, sem betur fer, þess fá dæmi, að menn gangi eins langt í þeirri iðju eins og hv. þm. S.-Þ. Ég minnist þess t. d. líka, að þessi hv. þm. hefir oft sagt um einn dómarann, að hann hafi farið utan á einhvern lögfræðingafund, en svo illa hafi hann verið að sér, að hann hafi ekki getað sagt eitt einasta orð á fundi þessum. Það mun vera alveg rétt hjá hv. þm., að dómari sá, sem hann mun eiga við, sagði ekki eitt einasta orð á þessum lögfræðingafundi. En af hverju? Af þeirri einföldu ástæðu, að hann kom ekki á fund þennan og gat því ekki talað þar. Hér fer því hv. þm. að nokkru leyti með rétt mál, en vitanlega alveg ósjálfrátt. Annars hélt ég, að það væru lítil rök gegn einum manni sem dómara, þó að hann hafi ekki haldið ræðu á einhverjum fundi úti í löndum. Veit hv. þm. annars, hvað margir heldu ræður á þessum fundi? Eða heldur hann, að það séu einhver sérstök meðmæli með mönnum, ef þeir geta haldið innihaldslausar kjaftaræður á mannfundum, eins og t. d. hann?

Höfuðádeilan gegn dómendum hæstaréttar, sem nú eiga bráðum að fara úr embættum sínum, var, eins og ég hefi drepið á, að þeir væru svo gamlir, að þeir hvorki sjái né skilji. Að þeir séu svo illa menntaðir, að þeir tali ekkert erlent mál og geti því ekki farið utan sér til menningar. Hvaða sanngirni liggur hér á bak við, hljóta allir að sjá. Að öðru leyti en þessum nýju svívirðingum á dómendur hæstaréttar var ræða hv. þm. bara gamla ræðan hans, þar sem hann byrjaði á Morgunblaðinu, fór þaðan út í Íslandsbankamálin og endaði að tala um hæstarétt. Í umr. um hæstarétt fór hann núna jafnvel svo langt, að hann sagði, að einn dómari hefði látið orð falla í þá átt, að hann vildi helzt taka hausinn af öllum Alþfl. í einu. Ég vil nú spyrja hv. þm.: Hvaða dómari var það, sem sagði þetta? Vill hv. þm. ekki svara þessu strax? (JJ: Það er enginn samtalstími hér nú. Annars býst ég við að fá orðið á eftir). Máske hv. þm. vilji fá frest til að svara þessu. Ef svo er, þá mun ég fyrir mitt leyti gefa það eftir, að hann fái hann.

Það var óneitanlega dálítið leiðinlegt fyrir þennan hv. þm., eftir það sem á undan var gengið, að fara að tala um elli dómaranna, manninn, sem nýlega var búinn að fá þann dóm hjá ungum og efnilegum menntamanni hér, að hann væri orðinn svo gamall, að hann væri þegar farinn, og að sumu leyti búinn að éta ofan í sig öll sín gömlu princip sakir elli og andlegrar hrörnunar, og það því fremur, þar sem ekki er heldur annað hægt að sjá en að hv. þm. taki þennan dóm um sig sem góða og gilda vöru, því að hann er engu farinn að svara honum ennþá. Hvað mig snertir, þá er ég ekki þeirrar skoðunar, að það, sem áfátt er um þennan hv. þm., sé sakir elli og hrörnunar, heldur er það skoðun mín, að hið óvenjulega innræti mannsins sé aðalorsökin til þess, að hann er á engan veg eins og aðrir heiðarlegir menn.

Hann heldur því fram, að þjóðin vilji hafa menntaðan dómstól, og því sé ekki um annað að ræða en láta þá dómara, sem nú skipa hæstarétt, fara, því að þeir séu svo illa menntir. Já, nú sé ég, að hv. þm. er ofraun að sitja lengur. Hann hefir nú setið kyrr í hart nær hálfa klukkustund, og er það miklu meira en ég gat búizt við. Get ég því gefið honum „komplement“ fyrir rósemina. En nú getur hv. þm. ekki haldizt við lengur. Hann verður að fara að ganga á milli og hvísla og hvísla.

Það var alls ekki ætlun mín að fara að halda hér eins langa ræðu og þessi hv. þm. Get ég því gjarnan farið að ljúka máli mínu. (MJ: Ætlar þm. ekki að minnast á kollumálið?). Nei, út í það mál ætla ég ekki að fara frekar en önnur dómsmál, því að ég álít, að dómstólarnir eigi einir að skera úr um þau, en ekki hv. um. S.-Þ., sem ekkert vit hefir á þeim frekar en mörgu öðru, sem hann þó telur sig þurfa að vaða elginn um.

Að síðustu vil ég leyfa mér að átelja það, úr því að hæstv. forseti gerði það ekki, hversu óvirðuleg orð þessi hv. um. hafði um hæstv. forsrh., er hann sagði, að ráðh. hefið farið „blaðskellandi“ norður í Strandasýslu í vor sem leið. (JJ: Hann fór líka blaðskellandi norður í Skagafjörð). vann hann kannske sigur þar? Mér virðist þingseta mín ekki bera vott um það. (JJ: Já, með skömm). Það má vera; að hv. þm. kalli það, að ég hafi sigrað með „skömm“, enda þótt enginn frambjóðandi í Skagafjarðarsýslu hafi áður fengið jafnmörg atkv. og ég hlaut í vor. Annars býst ég við, að það sé svo með þetta atriði eins og allt annað, sem hv. þm. S.-Þ. fer með, að það þurfi að snúa því öfugt til þess að fá það rétt út.