02.04.1935
Efri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

75. mál, hæstiréttur

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal játa, að ég hafði ekki hugsað mér að taka frekar til máls um þetta frv., því mér hefir alltaf komið það svo fyrir sjónir, að löggjöf sem þessi væri frekar mál fyrir lögfræðinga, sérfræðingana á þessu sviði.

En eftir að hv. þm. S.-Þ. hafði haldið hér sína ræðu sá ég, að það er vel hægt að láta ljós sitt skína hér, þó maður sé ekki lögfræðingur, því hann setti hér á langa ræðu og kom víða við, eins og hans er vandi, og gaf mönnum með því þann tón, að það mætti vel nota þessa 3. umr. málsins til þess að tala um ýmislegt, sem ekki snertir beinlínis frv., sem fyrir liggur. Annars sé ég nú, að það er alveg búinn þessi friður, sem greip hv. þm. hér í gær samkv. áskorun hv. 1. þm. Skagf. um að sitja hér á meðan talað væri við hann. Hann virðist nú aftur vera farið að svíða undan títuprjónunum. Hélt ég þó, af því að farið var í göngur eftir honum, eins og þegar stóðhrossum er smalað með hundum af fjöllum ofan, að hann mundi sitja um kyrrt svolitla stund á eftir, en það virðist ekki ætla að verða. Annars verð ég að segja það út af fögnuði þessa hv. þm. yfir því, að þetta frv. verði nú samþ., að ég er satt að segja hálfhissa, að hann skuli láta sér nægja það, sem í þessu frv. felst, því talsverðum breyt. hefir það nú tekið síðan hann bar það fram fyrst. T. d. er það eitt atriði, sem ég get vel skilið, að hann sjái eftir, eftir hans upplagi öllu, og það er, að í hans frv. var talað um, að hæstiréttur skyldi lagður niður. Hæstiréttur virðist vera hans versti óvinur, nærri því verri en Helgi Tómasson. Menn muna, að hann sagði fyrir nokkrum árum, þegar hann var sjálfur dómsmrh., að hæstiréttur fremdi justitsmorð, sem er eitthvað það ljótasta, sem hægt er að segja um nokkurn dómstól. Hefir hann þar líklega þótzt vera að styðja okkur til að halda uppi réttvísinni gagnvart erlendum sökudólgum, t. d. landhelgisbrjótum. En um slíka dóma þarf að búa þannig, að þótt þeir séu strangir, þá geti enginn efazt um, að þeir séu óhagganlega réttir. — Á meðan ráðherrar í enska þinginu standa upp og lýsa yfir því, að þeir álíti dómsúrskurði hæstaréttar alveg örugga, þá stendur hinn íslenzki dómsmrh. upp og heldur fram öðru eins og þessu. Heggur þar sá, er hlífa skyldi.

Hinar ströngu refsingar okkar gagnvart landhelgibrjótum haldast okkur uppi vegna þess, hve skilningsgóðar erlendar þjóðir eru á nauðsyn okkar í þessum efnum. Sem siðaðar þjóðir beygja þær sig fyrir þessum dómum. En það verður að kallast leikur með eldinn, er dómsmrh. lýsir réttarfari í landinu eins og þessi gerði. Það er alkunnugt af greinum, sem hv. þm. hefir skrifað, að það er eins og hann álíti, að ekki hafi til verið réttarfar í landinu fyrr en Bergur Jónsson kvað upp dóm þann, er hann nefnir þar í sambandi við æðra siðgæði. Þetta er nú sá maður, sem um árabil átti að halda uppi okkar sóma í þessum málum.

Þá hefir ekki nafnið á réttinum átt upp á pallborðið hjá honum, fremur en annað í sambandi við hann. Hann vildi t. d. taka upp heitið lögmaður fyrir allt annan starfa en áður var við það heiti bundinn. Sama er að segja um fimmtardómsnafn hans. Það getur ekki átt við um hæstarétt, því að fimmtardómur var ekki æðsti dómstóll landsins að förnu.

Hv. um. virðist stefna að því, að dómurinn verði eins pólitískur og unnt er, vegna dómaranna. Ég er nú reyndar ekki eins hræddur við þetta og margir aðrir, því að ef dómaraembættin eru ekki skipuð tómum fíflum eða illmennum, finnst varla nokkur maður, sem ekki fyndi til ábyrgðartilfinningar, þegar hann væri kominn í dómarasætið. En aðalbreytingin, sem farið er fram á, er þó óneitanlega allháskaleg, sem sé sú, að pólitískur ráðh. á að skipa dómara í réttinn, og er það eitthvað það óheppilegasta, sem hægt er að finna upp á. Þá eru það vissulega dálítið einkennileg vinnubrögð, að þegar búið er að skipa n. til að gera till. um skipun þessara mála, og meðan hún er ekki búin að ljúka störfum sínum, að fara þá að keyra í gegn löggjöf um þetta. Það er raunar ekki um það að fást, þótt einn undarlegur maður beri fram slíka hluti sem þennan. Einkennilegra væri, ef meiri hl. Alþingis léti hafa sig til að samþ. slíkt.

Hv. þm. undirbyggði meðmæli sín með frv. þannig, að einn ráðh. hefði á sínum tíma komið ófærum mönnum í réttinn. Ráðh. skulu framvegis skipa menn í dóminn, af því að einn hefir einhverntíma gert það á ófæran máta. Ég skal ekki ganga inn á það efnislega í þessari röksemd. Jón Magnússon var andstæðingur Jónasar Jónssonar, og hafði Jónas lýst honum þannig í skrifum sínum, að bóndi einn, sem sá Jón á fundi, furðaði sig á því, að hann skyldi vera í manns mynd og ekki hafa horn og klaufir. En látum það vera, að það væri rétt, sem hv. þm. sagði um misbeitingu Jóns Magnússonar á valdi sínu. Þá lýsir hv. þm. ágætlega innræti sínu með því að þykja þetta eitt fyrirmyndarvert í fari Jóns Magnússonar. Með þessa mynd af Jóni í huga hugsar hann sem svo: Þetta skal ég reyna að gera, svona á að skipa dóminn og ná valdi á hæstarétti undir pólitíska ráðh. Þá fóru fimmtardómsfrv. að verða til.

Lýsingar hv. þm. á æðsta dómstóli ýmsra þjóða voru ærið hlægilegar. Þó að ég sé ekki sérlega kunnugur þessum hlutum, þótti mér kátlegt að heyra útlistanir þessa manns, sem hefir ekkert vit á dómaskipun eða hugmynd um það, hvernig dómar eru skipaðir annarsstaðar. Hann hefir hvað eftir annað haldið því fram, að þegar Einar Arnórsson samdi frv. að hæstaréttarl., hafi hann gert það af einstakri vanþekkingu og ekkert vit haft á þeim málum. Sjálfur þykist hann hafa stúderað þessi efni og byrjað á því, þegar Sambandið höfðaði málið á móti Birni Kristjánssyni. Þessar stúderingar báru svo þann árangur, að hann vissi strax margfalt meira en nokkur þeirra manna, sem ekki hafa annað gert en að kynna sér þessi mál. Við að stúdera þetta varð hann svo sprenglærður í þessu sem fimmtardómsfrv. hans bera vitni um, en sögu þeirra ætla ég ekki að fara að rekja hér. En það, sem hann byggir allt þetta á, var eitt einstakt mál og úrslit þess í hæstarétti. Sambandið tapaði málinu gegn Birni Kristjánssyni, og rétturinn varð sekur, samkvæmt orðalagi hv. þm. Hann sagði, að rétturinn hefði kastað hanzkanum framan í allt frjálslyndi í landinu.

Ég hefi sjálfur tapað máli fyrir hæstarétti. Mér fannst reyndar dómurinn nokkuð vafasamur, eins og öllum finnst, sem tapa máli, en mér fannst ekki rétturinn þar með kasta hanzkanum framan í allt frjálslyndi. Allir, sem málum tapa, eru óánægðir með dómsúrslitin. En einmitt þess vegna er nauðsynlegt, að rétturinn sé öllum óháður og þannig skipaður, að dómarar séu óafsetjanlegir og algerlega einangraðir frá pólitík. Ef í hlut eiga fantar, sem ráða yfir voldugum pólitískum blöðum og stórum verzlunarfyrirtækjum, þarf á öllu að halda til að tryggja það, að rétturinn þori að kveða upp sanna dóma yfir slíkum mönnum. Aðrar þjóðir hafa einmitt búið þannig um dómstóla sína. Þegar ég var í Bandaríkjunum, voru þar allir dómarar kosnir af kjósendum. Rétt áður en ég kom þangað hafði réttur einn kveðið upp áfellisdóm yfir stóru kirkjufélagi. Dómararnir fellu náttúrlega allir við næstu kosningar.

Mér skildist hv. þm. vera fjarri því að viðurkenna þessa reglu, að einangra bæri dómara frá pólitík. Hann taldi það þeirra mesta galla, hvað þeir væru einangraðir. Þeir áttu að vera eins og útspýtt hundskinn um allar jarðir. Þeir áttu að kunna meira í útlendum málum, vera meira erlendis og tala þar á fundum. — Annars er það skringileg krafa, að hver og einn eigi að taka til máls á þessum fundum, sem sóttir eru af mörgum hundruðum manna og standa oftast ekki nema í 2—3 daga. Það er undarlegt, að hv. þm. skuli láta sér detta í hug að blanda þessu saman við það, hvort hæstiréttur eigi sér tilverurétt eða ekki, að honum skuli detta í hug að færa það sem rök gegn hæstarétti, að einn dómari hans hafi komið á fund í útlöndum og ekki tekið til máls. Út af þessu lagði hann svo í ábyggilega yfir fjórðung stundar (ég fylgdist með tímanum). Ef ráðh. skipaði þessa dómara, yrðu þeir víst eitthvað öðruvísi, fyrirtak í tungumálum, síblaðrandi á öllum fundum o. s. frv. Það eru frá hans sjónarmiði þeirra æðstu kostir.

Annars er það að segja um einangrun dómara, að hún er aðalatriði, og ætti það atriði að koma til greina víðar. Mig minnir, að Plató, sem hugsaði mikið um ríkið, hafi viljað láta ala upp ákveðna menn til að vera ráðamenn þjóðfélagsins, veita þeim öll skilyrði til, að þeir gætu sem bezt ráðið ráðum og einangra þá síðan gersamlega. Ef tryggja á óhlutdræga dóma um hvert mál, þá er þetta rétt. En þetta getum við ekki gert í praksís. Það hefir verið gert um hæstaréttardómara, eftir því sem hægt er.

Ég held, að það sé nærri því einsdæmi hér nærlendis, að slíkum orðum hafi verið farið um nokkurn dómstól sem hv. þm. fór um hæstarétt. Ein dauðasök þessara dómara var sú, að þeir væru alltaf að þvælast í Suðurgötu. Enginn þeirra á þar víst heima, og aldrei hefi ég mætt neinum þeirra þar. Skil ég ekki, hverju þetta sætir, nema hér komi í ljós vilji hv. þm. til að láta þá alltaf vera á leiðinni suður í kirkjugarð, að þetta sé orðið að „fiksri ídeu“, að flugu á heila hans, að vilja þessa dómara feiga.

Til sönnunar því, að dómarar ættu að sigla, tók hann dæmi af Matthíasi Jochumssyni og sagði, að hann myndi ekki hafa ort svo mörg goð kvæði, ef hann hefði ekki siglt. Ég veit nú ekki, hversu vel Matthías hefði dugað sem dómari. Það er sjálfsagt gott og blessað yfirleitt, að menn fari utan. En þetta dæmi sannar ekkert í því máli, sem hér um ræðir. Matthías átti ekki að dæma dóma, heldur yrkja. Og ef dómararnir ættu að yrkja um hvert mál grínkvæði, þá væri vafalaust gott, að þeir væru alltaf að sigla.

Eins og ég sagði áðan, er ég ekki eins hræddur við það og margir aðrir, að ráðh. skipi dómarana, því að þótt ráðh. skipaði þá eingöngu eftir pólitískum lit, sem ég er ekki viss um, að alltaf yrði, þá er ekki víst, að þeir færu alltaf að vilja ráðh., eins og sest á dæmi um héraðsdómarann í Reykjavík, sem þessi hv. þm. skipaði á sínum tíma, þó að hann dæmi svo öðruvísi en hann vildi. Ástæðan til þess, að menn eru svo hræddir við, að ráðh. skipi þessa embættismenn, er sú, að hv. þm. var dómsmrh. hér um árið og beitti þá valdi sínu þannig, að síðan er það orðin ægileg grýla, að ráðh. skipi dómara, en áður var enginn hræddur við það. Mönnum datt ekki í hug, að nokkur maður myndi hafa hug á að ná æðsta dómstól landsins undir sig.

Mér þykir slæmt, að hv. þm. flýtti sér út, rétt áður en ég byrjaði að tala. Ég ætlaði að reyna að „húkka“ í hann, en það tókst nú ekki. En mig langaði til að spyrja hann, hverjir ættu að setjast í réttinn. Honum virtist vera fullkunnugt um það, því að hann fullyrti, að núv. stj. myndi skipa mjög ópólitískt í réttinn. Ef hann veit það, hlýtur hann líka að vita, hvaða menn hafa verið útséðir til að taka sæti í réttinum — sé þetta þá ekki tómt blaður hjá honum. Þær upplýsingar gætu haft áhrif á afstöðu manna til frv.

Þá hafði ég gaman af að heyra það, að eftir að búið væri að koma pólitískum mönnum í réttinn, þá yrðu laun þeirra að hækka, þegar búið væri að bola þaðan hinum gömlu mönnum, sem ekki töluðu tungumál. Ég hefði haldið, að það væri þvert á móti, dómarar þyrftu þá ekki á eins góðum launum að halda. Hv. þm. virðist álíta, að bezt sé, að dómarar séu að snúast í sem flestum málum, og að þeir tækju þá auðvitað líka þátt í pólitík, þar sem einangrun er þeim svona skaðleg. Er þá minni ástæða til að hækka laun þeirra, því að þeir hafa þá tækifæri til að afla sér tekna með öðrum störfum. En eins og nú er ásatt er full ástæða til að launa þá ríflega, þar sem þeim er alveg bægt frá öðrum störfum. [Frh.].