06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég bið hv. þm. G.-K. afsökunar á því, að ég talaði um hann sem óvaldan þm. Ég ætlaði ekki að móðga hann né sjálfstæðismenn með því. Það, sem ég átti við, er það, að það er í sjálfu sér mikill munur á því, hvort ráðh. gefur yfirlýsingar um, að stjórnin flytji ákveðin mál á þingi, sem þá má telja tryggður framgangur, eða einhver þm. flytur frv. eða spjallar um velvilja í garð einhverrar stéttar, og það með meira eða minna hnútukasti. Hver heilvita maður sér, að í þessu er mikill munur. Annarsvegar er tilkynnt, að fram sé komið stjfrv., sem verður að l., en hinsvegar almennar bollaleggingar einstakra þm. Svo ekki fleiri orð um það.

Það er alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. að reyna að dylja meginatriði málsins, að á milli Sjálfstfl. og stjórnarflokkanna var ágreiningur allverulegur um þetta mál. Stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að létta þessu gjaldi af að mestu eða öllu leyti, eins og það var orðað í yfirlýsingu minni. Hinsvegar hafa tveir hv. þm. úr Sjálfstfl. flutt frv. um að flytja gjaldið aðeins yfir á ríkissjóð, þannig að ríkissjóður leggi til, sumpart af tekjum af ákveðinni stofnun og sumpart af tekjum ríkisins í heild, fé, eins mikið og lagt hefir verið fram, í þessu sama augnamiði og 6% gjaldið af sjávarafurðum var lagt á. Þetta er sá meiningarmunur, sem hér er um að ræða, og það er ekki til neins að reyna að breiða neitt yfir það.

Hinsvegar vil ég segja, að ef hv. þm. G.-K. vill halda við það, sem hann sagði í sinni síðustu ræðu, að hann hafi rætt um það við mig að hækka verðjöfnunargjaldið og ég ekki tekið óvingjarnlega í það mál, þá fer hann illa með hv. 1. flm. frv. á þskj. 458, 6. þm. Reykv., því að hann heldur því beinlínis fram í grg. frv., að form. Sjálfstfl. hafi rætt um frv. við atvmrh., og hafi atvmrh. tekið líklega í málið. En hvaða mál? Það, sem flutt er nú sem frv. á þskj. 458. sem ætlast til, að af ríkisfé verði lagt fram upp undir 1 millj. króna árlega til markaðssjóðs saltfisks, sem lagt er til með frv. að stofnaður verði. Þetta er staðleysa og mér virðist eftir því sem fram hefir komið, að hv. þm. G.-K. hafi staðfest, að hér sé í grg. frv. um ranghermi að ræða hjá hv. 6. þm. Reykv.

Ég vil benda á atriði, sem skýrir það, hvernig á því stendur, að þessi tilkynning var flutt hér í Alþ. án þess að talað væri um það innbyrðis á milli flokkanna áður. Hv. þm. G.-K. er þetta manna ljósast. Nokkru áður lýstu nokkrir flokksmenn hans og hann sjálfur á fundi í utanríkismálan., því yfir, að þeir slitu samvinnu við n. og gengu svo af fundi. Kvöldið áður en þetta gerðist var haldinn fundur hér í Sþ. til þess að ræða mikilsvert mál, en þeir mættu ekki. Það er þess vegna ljóst, að þessi yfirlýsing gat ekki komið fram sem yfirlýsing frá öllum flokkum, þar sem sjálfstæðismenn mættu ekki í þessum tiltekna fundi.