14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Frsm. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Á síðasta þingi var lagt fyrir d. frv. um atvinnudeild við Háskóla Íslands og rannsóknarstofnun í sambandi við hana. Málið var ekki útkljáð þá. Umsagna hinna og annara var leitað um frv. og flestir óskuðu nokkuð annarar skipunar á því en þá var. Síðan hefir atvmrh. falið skipulagsnefnd atvinnumála að semja þetta frv., og er það flutt hér að tilhlutun atvmrh. af meiri hl. allshn. Hv. minni hl. n. gat ekki orðið sammála meiri hl. um frv. og flytur hér annað mál, sem er næsta mál á dagskránni.

Um þetta frv. vil ég geta þess, að um það hafa fjallað þeir menn, sem helzt hafa fengizt við vísindalegar rannsóknir, og samkomulag hefir náðzt um það við háskólaráð, á þeim grundvelli, að háskólinn leggi fram fé til byggingar rannsóknarstofnunar, ef frv. þetta verður samþ. Meiri hl. allshn. leggur því mikla áherzlu á, að frv. fái fljóta afgreiðslu, því að ef þetta frv. verður að l. nú þegar, má gera ráð fyrir því, að byrjað verði á rannsóknarstofnuninni á komanda hausti og lokið á næsta vetri, og getur hún þá tekið til starfa í nýjum húsakynnum á næsta vori.

Það hefir lengi þótt nauðsynlegt að setja á stofn rannsóknarstofu fyrir atvinnuvegina, og sérstök l. hafa verið sett um það efni, en ekki framkvæmd nema að litlu leyti. Við þau l. hefir verið stuðzt, þegar frv. þetta var samið, og tekið upp úr þeim ýmislegt, eins og það t. d., að notið yrði aðstoðar ýmsra embættismanna ríkisins, er unnið gætu vísindaleg störf fyrir landið. Auk þess hefir verið steypt saman í eina heild þeim rannsóknarstofnunum, sem nú eru, svo að talizt gæti sem fullkomnast fyrir atvinnuvegina, sem eru fiskveiðar, iðnaður og landbúnaður. Iðnaðardeildinni er ætlað að vera aðaldeildin, vegna þess að hún á að taka að sér ýms hlutverk, sem fyrst og fremst beint snerta iðnaðinn, en einnig landbúnað og sjávarútveg, t. d. efnagreiningar o. fl. slíkt. í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að skipa þurfi alla þá menn, sem ætlazt er til, að starfi við stofnunina, undir eins, heldur megi bæta við, eftir því sem fjárhagur leyfir, og jafnvel í þeim fögum, sem íslenzkir menn hafa ekki enn kunnáttu til að starfa, megi fá erlenda menn um stundarsakir. Hér er safnað saman í eina heild öllum atvinnugreinum. Er sérstaklega ætlast til þess, að hægt verði að vinna að rannsókn búfjársjúkdóma. Það þótti ekki fært að hafa það með rannsókn mannasjúkdóma, heldur ætti það að heyra undir rannsóknirnar í þágu atvinnuveganna, enda hefir byggingin, sem þessar rannsóknir hafa farið fram í, verið sérstaklega gerð til að láta fara þar fram rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Hinsvegar er ráð fyrir því gert, að þeir menn, sem að þessu hafa unnið, geti haldið áfram starfi sínu, þótt það verði nú í þágu rannsóknarstofnunar atvinnuveganna og hjá henni.

Það mun valda ágreiningi, hvernig eigi að haga stjórn þessarar stofnunar. Meiri hl. allshn. hefir álitið, að hún ætti fyrst og fremst að vera fyrir atvinnuvegina og því í nánu sambandi við þá og þá stjórn, sem á þeim er, og þar af leiðandi atvinnumálaráðuneytið, sem fyrst og fremst eigi að geta sagt rannsóknarstofnuninni fyrir verkum. Þar að auki er gert ráð fyrir sérstakri nefnd, sem rannsóknarstofnuninni sé skylt að leggja ársstarfsáætlun sína fyrir, og er þetta í samræmi við það, sem gert er á Norðurlöndum, a. m. k. í Danmörku. Slíkar praktískar rannsóknir er ekki hægt að láta heyra undir háskólann, heldur verður að fara eftir þörfum atvinnuveganna í hvert sinn.

Þá er okkur flm. þessa frv. það ljóst, að æskilegt hefði verið, að fram hefði getað farið nokkur kennsla í þeim greinum, sem rannsóknirnar fara fram í, og er höfð opin leið til þess, að því verði komið á, strax og ráðuneytið telur æskilegt, og þar með kemur þá af sjálfu sér, að kennsludeild myndast við háskólann. Stendur þá rannsóknarstofnunin beint undir ráðuneytinu og kennsludeildin undir háskólanum. Á þennan hátt næst hvorttveggja: Að koma upp rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna og kennsludeild við háskólann. Eftir nokkrar umr. milli háskólans og allshn. hefir orðið samkomulag um, að frv. gengi fram á þessum grundvelli.

Ég þarf ekki að orðlengja mikið um þetta. við stöndum á þeim tímamótum, að nauðsynlegt er að taka upp nýjar starfsaðferðir og fara inn á nýjar leiðir á ýmsum sviðum, og á engan hátt er slíkt betur undirbúið en með vísindalegum rannsóknum. Gildir hið sama bæði fyrir neyzluvörur almennings innanlands og útflutningsvörur okkar, jarðvegsrannsóknir, rannsóknir á fiskigöngum o. s. frv., að hina mestu þýðingu hefir að taka vísindin til aðstoðar í þessum efnum. Þetta hefir jafnt gildi hvort heldur er fyrir iðnaðinn, afurðir landbúnaðarins eða rannsóknir á húsdýrasjúkdómum, og ennfremur göngum og lifnaðarháttum fiskanna. Rannsóknir á hinum ólífrænu efnum í náttúrunni, leit að málmum o. fl. hafa og mikla þýðingu. Ég vil geta þess, að það hefir nú þegar verið safnað að verkefnum fyrir slíka rannsóknardeild í þágu atvinnuveganna, sem erfitt er að framkvæma nema að hún fái betra húsnæði. Ég vil mælast til þess, að frv. fari nefndarlaust til 2. umr. — Út af ummælum hæstv. forseta um frv. það, sem er næst á eftir á dagskránni og ég er mótfallinn, skal ég geta þess, að ég hefi ekkert á móti, að það fari til 2. umr.