14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Thor Thors:

Hv. 2. þm. Reykv. vildi ekki viðurkenna það, að prófessorar háskólans væru upphafsmenn þess, að þetta mál er framborið á Alþingi. Ég vil þó fullyrða, að þeir eru upphafsmenn að því í þeirri mynd, sem það nú er. En Jón Sigurðsson er eins og kunnugt er fyrsti frumherji þessa máls, með tillögu þeirri, er hann bar fram árið 1845 um stofnun þjóðskóla hér á landi, og mun ég gera fyllri grein fyrir því á morgun, þegar frv. okkar hv. 8. landsk. verður til umr.

Ég tel óþarft að svara útúrsnúningum hv. 2. þm. Reykv. um mismuninn á frv. okkar og frv. hv. meiri hl. allshn.; það er með öllu óviðeigandi í svo mikilsverðu máli að viðhafa þær blekkingar sem hann leyfir sér, þegar hann heldur því fram, að frv. okkar um atvinnudeild við háskólann sé aðeins um prófessorastofnun, en frv. meiri hl. um rannsóknarstofnun fyrir atvinnuvegina. Ég geri nú ráð fyrir, að ekki sé hægt að reka slíka stofnun nema þar starfi sérfræðingar í ýmsum vísindagreinum. Og það vill nú svo til, að það er gert ráð fyrir jafnmörgum starfsmönnum við þessa stofnun í báðum frumv. En það, sem skilur á milli þessara frumv., er þetta, hvort heldur á að efla háskólann á þann hátt að bæta við hann nýrri vísinda- og kennsludeild — eins og við leggjum til — eða hitt, að vísindastarfsemin í þessum greinum verði dregin undan yfirráðum Háskóla Íslands og afhent pólitískum nefndum, eins og vakir fyrir þessum hv. þm. og flokksbræðrum hans í öllum málum.

Hv. þm. sagði, að það heyrði ekki undir háskólann að segja fyrir um það, hvernig gengið yrði frá þessum lögum; vitanlega lítur hann svo á, að hann eigi einn að ráða úrslitum í þessu máli eins og öðrum, og að aðrir hafi þar tæplega tillögurétt.

Hv. þm. sagði, að við, sem erum í minni hl. allshn., hefðum tafið frv. í n. í 2—3 daga undir því yfirskyni, að við ætluðum að bera fram brtt. við það. En sannleikurinn er sá, að frv. var lagt fyrir fund allshn. á föstudag, á þann hátt, að form. n. las það upphátt í belg og biðu, og að lestrinum loknum krafðist hann þess, að nm. greiddu tafarlaust atkv. um það, og þeir, sem væru því fylgjandi, áttu að rétta upp hönd — einn, tveir, þrír. — Ég get nú lýst því yfir fyrir mitt leyti og hv. 8. landsk., að við höfðum alls ekki fengið að sjá frv., en aðeins hlustað á hinn þvoglulega upplestur hv. form. n. á því; þess vegna var ómögulegt fyrir okkur að ganga inn á það á svipstundu athugasemdalaust.

Það er því algerlega rangt hjá hv. 2. þm. Reykv., að við höfum tafið málið 2—3 daga í n.; við höfðum það aðeins örstutta stund til athugunar. En það var undirbúið til meðferðar fyrir nefndarfund á laugardag, en sá fundur fékkst ekki haldinn, form. n. mun ekki hafa talið það svo aðkallandi nauðsyn þá. Annars mun ég ræða ýtarlega um þetta mál á morgun við framsögu þess frv., sem við hv. 8. landsk. höfum flutt. — Er því að hv. form. allshn. neitar því, að þessu frv. verði vísað aftur til n. til fyllri athugunar, þá má búast við, að meiri hl. þessarar hv. þd. beygi sig fyrir því, hann er svo vanur við að hlýða boði og banni hv. 2. þm. Reykv. En það er hart, að þetta stóra og merkilega mál skuli ekki geta fengið þann undirbúning og þá meðferð hér á Alþingi, sem því vissulega ber.