16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég hefi flutt brtt. við þetta frv. og lagði hana fram í morgun en líklega liggur hún ekki fyrir fyrr en við 3. umr. Brtt. þessar ganga í þá átt, að sett séu inn í frv. nokkur nánari ákvæði, sem gætu orðið tengiliður á milli rannsóknarstofnunarinnar og atvinnuveganna. Það er oft svo, að margir vísindamenn komast meira og meira út úr daglegu lífi atvinnuveganna og verða einsýnir á þau viðfangsefni, sem fyrir liggja. Það er því viðbúið, að eins geti farið hér. Það er hætt við, að þau viðfangsefni, sem mest kalla að, verði ekki tekin fyrir nema lifandi samband sé milli atvinnuveganna og rannsóknarstofnunarinnar, svo hún viti sem bezt, hvar skórinn kreppir að. Þessa samvinnu yrði reynt að skerpa með því, að fulltrúanefndin héldi fundi með deildarstjórum rannsóknarstofnunarinnar. Á þeim fundum væru gerðar ályktanir um, hver væru helztu viðfangsefnin, og ákveðið, á hvern hátt væri heppilegast að vinna að þeim. Þar væri líka ákvarðað, á hvern hátt bezt myndi henta að birta almenningi niðurstöður rannsóknanna.

Þá er annað atriði, sem mér finnst, að komi til athugunar, þegar ríkið er búið að setja upp þessa stofnun, og það er, hvort ekki væri hægt, með tiltölulega litlum kostnaðarauka, að veita þeim stúdentum, sem ekki geta numið fræði sín hér, nokkra undirstöðuþekkingu og á þann hátt sparað þeim nám erlendis. Mér þætti ekki óeðlilegt, þó þetta færi saman, og með lítilli breytingu á frv. væri hægt að tryggja það. Það er sýnilegt, að hér kemur strax til starfsins sá maður, sem vel gæti veitt kennslu í einni af þessum greinum — efnafræðinni, og vantar þá ekki nema stærðfræðina og eðlisfræðina, sem þyrfti að sækja út, en jafnvel í þessum greinum hægt að veita þá undirstöðu, sem sparaði stúdentum 1—2 ára nám ytra, með viðbótarkennslukröftum. Það ber vel að athuga áður en gengið er frá frv., hvort ekki sé hægt að búa rannsóknarstofnunina þannig út, að hún spari námsmönnum tíma erlendis með því að búa þá betur undir námið heldur en hægt er að gera hér í menntaskólanum. Ég vil skjóta þessu fram til athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki muni fært að athuga þetta nánar.

Hinsvegar er mér það ljóst, að þetta frv. er miklu aðgengilegra en hitt frv. um sama efni, sem hér var á dagskrá í gær og ég ætlaði að tala um, en fell þá frá orðinu til að spara tíma og flýta fyrir málinu.