16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Thor Thors:

Það er ekki ástæða til að ræða mikið um þetta nú, þar sem aðalflm., hv. 2. þm. Reykv., er horfinn úr deildinni.

Mér er það ekki almennilega ljóst, þegar hv. 2. þm. Reykv. heldur því fram, að tekjur hinnar nýju rannsóknarstofnunar af lyfjasölunni muni nema 30000 kr., þó að rannsóknarstofa læknadeildar haldi lyfjasölu áfram. Mér finnst þetta rekast á. Ég hygg, að sú verði raun á, ef rannsóknarstofa læknadeildar heldur starfi sínu áfram, þá muni þeir menn, sem vanir eru að skipta við hana og reynt hafa viðskipti hennar, snúa sér til hennar framvegis eins og hingað til. Mér hefir skilizt á kennurum háskólans, að þetta samkomulag byggist á því, að rannsóknarstofa læknadeildar óski eftir því að halda starfi sinn óskertu áfram. Ég veit, að læknadeild háskólans leggur mikla áherzlu á, að þessi rannsóknarstofa læknadeildar fái að halda áfram starfa sínum vegna starfa hennar í þágu læknadeildarinnar og læknanámsins, en ef taka ætti frá henni lyfjasöluna — eins og vildi skína í hjá hv. 2. þm. Reykv. —, þá gæti þessi stofnun ekki lengur risið undir byrði sinni.

Út af því, sem talað hefir verið um yfirstjórn deildarinnar, vil ég segja það sama og ég hefi áður haldið fram: Að það er bezt, að hún fái eins og aðrar vísindastofnanir að vera sjálfráð sinna rannsókna. Frumskilyrði fyrir þróun allra vísinda er, að þau fái sjálf að ráða sér, en séu ekki dregin undir pólitísk yfirráð. Hinsvegar er rannsóknarstofnuninni, samkv. ákvæðum frv., skylt að starfa í þágu atvinnuveganna, og er því nægileg trygging fyrir því, að þeim viðfangsefnum atvinnuveganna, sem vísað er til stofnunarinnar, verði ekki vísað frá.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi halda því fram, að tekjuáætlunin væri fremur of lág en of há. Ég hefi nú bent á, hvernig þetta komi út í sambandi við lyfjasöluna, og af matarrannsóknum hygg ég fullhátt að ætla 10000 í stað 15000 kr., og tel það muni mjög vel reiknað að áætla 5000 kr. tekjur af fjörvirannsóknum og gerlarannsóknum.

2. þm. N.-M. fór inn á sömu hugsun, sem vakti fyrir okkur, um að atvinnudeildin veiti stúdentum undirbúningsmenntun, sem geti stytt námstíma þeirra erlendis, með stofnun atvinnudeildar til bráðabirgða. En úr því að hugsun hans er þessi, þá á hann einmitt að fylgja okkar frv., en ekki þessu, og ég býst við, að þegar hv. 2. þm. N.-M. hefir gert sér þetta betur ljóst, hvað sú stofnun, sem við viljum koma á fót, á að hafa með höndum, þá leiði það til þess, að hann verði fylgjandi okkur, sem flytjum frv. um atvinnudeildina, því þá sé fengin frekari trygging fyrir því, að undirbúningsmenntun komist fljótt í það horf, sem hann óskar.