16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Emil Jónsson:

Ég vil segja hér örfá orð, af því að hv. 2. þm. Reykv. er ekki viðstaddur, en ég vil ekki láta ósvarað fáeinum atriðum af því, sem hv. þm. Snæf. minntist á í ræðu sinni. Ég vil þá sérstaklega athuga tekjur af lyfjasölu, og til þess að sýna fram á, hvernig þessar tekjur hafa farið sívaxandi í höndum þeirra manna, sem nú fara með þessi mál, vil ég lesa nokkur atriði úr reikningum rannsóknarstofu háskólans, með leyfi hæstv. forseta: Árið 1930 var selt bóluefni fyrir 1349 kr. og seinna á sama ári 2000 kr. Árið 1931 sest ekki, að neitt hafi verið selt af þessu efni. Árið 1932 er selt af því fyrir 16900 kr., árið 1933 fyrir 25000 og enda meira og árið 1934 er selt fyrir 52000 kr. af þessu sama efni. M. o. o. á þessum fjórum árum, frá 1930—1934, hefir salan vaxið úr tæpum 2000 kr. upp í 52000 kr. Það verður því að álítast varlega áætlað, þó að þessi stofnun haldi áfram og önnur ný bætist við, að nýja stofnunin geti haft 30000 kr. tekjur, þar sem það er litlu meira en helmingurinn af því, sem nú er. Annars lætur frv. samband þessara stofnana að mestu laust og óbundið, og hlýtur það að vera samningsatriði. Það er mín persónulega skoðun, að rannsóknarstofa læknadeildar eigi að halda áfram að starfa í sama anda og hún hefir gert, en sé ekki flutt inn undir aðaldeildina, en mér finnst það ekki of hátt áætlað á þessum lið, þó tekjur hinnar nýju stofnunar verði helmingur af því, sem nú er.

Þá er hitt atriðið, að fullhátt sé að ætla 10000 kr. fyrir matarrannsóknir, en nú eru greiddar 5000 kr. fyrir rannsóknir á einni vörutegund, og munu framleiðendur vera þessari rannsókn mjög fegnir, því hún gefur þeim það öryggi, sem á að vera og þarf að vera. Þá taldi hv. þm. Snæf. fjörvirannsóknirnar fullhátt áætlaðar með 5000 kr.; á þann lið kemur öll rannsókn á lýsi. Ég heyri nú, að mikið er lagt upp úr rannsókn á lýsi, og það má vitanlega gera ráð fyrir, að mikið meira en 5000 kr. fáist fyrir þær rannsóknir, þegar öryggi er fengið fyrir þeim, og mun þó ekki verða neinn baggi á lýsisframleiðslunni, heldur þvert á móti veita henni aukið öryggi. Biologiskar rannsóknir í sambandi við þessi mál eru á því stigi nú, að enginn getur sagt um, hve stórfelldur árangur getur orðið af þeim með þeirri bættu aðstöðu, sem þær væntanlega fá innan skamms með stofnun rannsóknarstofnunar háskólans.

Mér er sagt, að vitaminrannsóknir séu einhverjar þær örðugustu vísindarannsóknir, sem menn fást við, og til þeirra þurfi bæði góða aðstöðu og hina færustu menn. Nú er mér kunnugt um mann, eða menn, sem eru að búa sig undir að takast þennan starfa á hendur hér.

Þá er það eitt í ræðu hv. þm. Snæf., að rannsóknarstofnunin yrði að ráða sér sjálf til þess að hún komi hvergi nálægt pólitík og pólitískra áhrifa á hana yrði hvergi vart; en ég sé ekki betur en að í hans frv. sé gert ráð fyrir, að starfað verði eftir reglugerð. Og hver semur slíka reglugerð annar en ráðh. eða hver samþykkir hana?

Ég sé ekki mun á þeirri pólitísku íhlutun, sem kemur til greina við reglugerð þessa, og á hinni, sem hv. þm. Snæf. var að tala um að gætu komið til greina við ákvæði frv.

Það gladdi mig, að það kom að lokum fram, að fyrir þeim vakti að koma á stofn undirbúningsmenntun fyrir stúdenta. Ég vakti máls á í gær undirbúningsmenntun í teoretiskum fögum, en um það talaði ég þá svo rækilega, að ekki er þörf á að fara út í það nú. En þetta verður ekki gert með því að skipa þrjá prófessora í atvinnudeild. Það frv. verður ekki til að hrinda slíkum undirbúningi af stokkunum, heldur verður það gert með frv. meiri hl. allshn.