16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Thor Thors:

Mér þótti það engin sérstök fræðsla, að tekjur af lyfjasölu rannsóknarstofu háskólans hefðu aukizt á undanförnum árum — mér var það fullkunnugt. Spurningin er sú, hvort rannsóknarstofa háskólans á að hafa þessar tekjur áfram eða hvort nýja deildin á að fá þær. Ef nýja deildin á ekki að vera ein um hituna og rannsóknarstofa háskólans á að halda starfa sínum áfram, þá er mjög varasamt að ætla nýju stofnuninni 30000 kr. tekjur á þessum lið. Viðvíkjandi matvælarannsóknum hefir það verið tekið fram, að fyrir rannsóknir á smjörlíki séu goldnar 5000 kr., en ég hygg, að þetta sé lögboðið samkv. heimild, sem gefin var um það efni. Það má vitanlega fá miklar tekjur af matarrannsóknum, ef þær eru lögskipaðar, en þá eru lagðir nýir skattar á atvinnuvegina, og það vakir ekki fyrir mér.

Þá sagði hv. þm., að við vildum skerða sjálfsforræði atvinnudeildarinnar með því að skipa vissum atriðum hennar með reglugerð. Það er talsverður munur á því, hvort reglugerð eða lög koma til, því að reglugerð er ekki hægt að setja nema innan takmarka laganna. Og aðalákvæði okkar frv. er það, að atvinnudeildin haldi sínu sjálfsforræði, svo sem aðrar deildir háskólans. Það byggist á háskólalögunum. Og í þeim er gert ráð fyrir, að ýmsum smærri atriðum sé skipað með reglugerð, og hefir enginn hingað til leyft sér að draga í efa, að háskólinn hefði sjálfsforræði í sínum málum.

Ég get varla skilið, hvernig hv. þm. Hafnf. gat látið þau orð falla, að hann gleddist yfir því, að ég sé kominn inn á þá hugsun, að við þessa rannsóknarstofnun megi fara fram nauðsynleg undirbúningsmenntun. Ég hefi alltaf haldið þessu fram, en hv. þm. vill ekki leyfa þar neina kennslu, nema þá seint og síðar meir. Það getur því ekki vakað fyrir honum, að slík menntun sé tekin upp, því að hún fæst ekki fyrr en kennsla er hafin.

Þá sagði hv. þm., að þrír prófessorar gætu varla annað kennslu við undirbúningsmenntun. En eins og kom fram í gær, er það vilji minn, að þar séu ekki eingöngu þrír prófessorar, heldur líka sex aðstoðarmenn. Það er sameiginlegt við bæði frv., að níu menn standi að starfrækslunni, og mætti með því tryggja það, að sæmileg kennsla fáist í hinum nauðsynlegu greinum þessara vísinda.