16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

78. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Emil Jónsson:

Hv. um. Snæf. vildi draga í efa, að rannsóknarstofan gæti haft 30 þús. kr. í tekjur, ef ekkert yrði tekið af rannsóknarstofu háskólans eins og hún nú er. En það stendur ekkert í l. um það, og engin ákvæði í neinum lögum, að rannsóknarstofa háskólans eigi að vera ein um hituna gagnvart lyfjasölunni. Það stendur bara í l. frá þinginu í vetur heimild til slíkrar framleiðslu, en ekki einkaheimild. Þessari rannsóknarstofnun, sem sett verður á stofn, er opin leið til að framleiða a. m. k. að einhverju leyti lyf, og þá þykir mér mjög sanngjarnt og vægt áætlað að taka helming af framleiðslunni eins og hún nú er, en það gæti væntanlega orðið meira í framtíðinni.

Annars þarf ég ekki neitt að elta ólar við síðustu ræðu hv. þm., þar kom ekkert nýtt fram. Hann sagði, að ég vildi ekki leyfa kennslu við háskólann. Það er mesti misskilningur. Ég undirstrikaði í öllum ræðum mínum í gær og ávallt, að kennsla byrjaði undir eins og hægt væri að dómi rannsóknarstofunnar og atvinnumálaráðh. Og ég sé ekki muninn á því, hvort ráðh. hefir nokkurn íhlutunarrétt um þetta, eða eins og það er orðað í frv. hv. þm. Snæf. og 8. landsk., þar sem stendur, að um kennslu og próf í þessari nýju deild skuli ákveða í háskólareglugerð. Þessa reglugerð verður ráðh. að staðfesta, svo að það munar engu, hvort hann staðfestir reglugerð eða ákveður með rannsóknarstofunni, hvenær kennsla skuli hefjast.

Það er rétt, að matvalaeftirlit er ekki lögþvingað. Það getur verið, að eftirlit þurfi með fleiri varningi, og er ekki nema gott eitt um eftirlit að segja. Nýlega talaði ég við einn smjörlíkisframleiðenda, sem kvaðst vera mjög ánægður með eftirlitið, þó að hann verði að borga fyrir það. Slík greiðsla er ekki alltaf baggi, heldur nokkurt öryggi fyrir framleiðanda og kaupanda.